Málið er eitt af yfirstandandi dómsmálum ÖBÍ hefur höfðað. Málflutningur verður í Landsrétti (dómssal 1), mánudaginn 7. nóvember 2022 kl. 09:00 – 12:00.
Tryggingastofnun ríkisins (TR) greiðir sérstaka framfærsluuppbót til þeirra sem hafa engar eða lágar tekjur frá öðrum en TR. Uppbótin skertist krónu fyrir krónu, þ.e. hver króna í tekjur skerti uppbótina (dregið hefur úr skerðingunum eftir að dómsmálið var höfðað). Málið er rekið í þeim tilgangi að skerðingin verði alveg afnumin, eins og þegar hefur verið gert að því er varðar ellilífeyrisþega frá og með 1. janúar 2017.
Málið var höfðað með stefnu útgefinni í október 2019. Ríkislögmaður, fyrir hönd TR, krafðist frávísunar, og í kjölfarið var málinu frestað að beiðni hans aftur og aftur. Héraðsdómur kvað upp úrskurð um frávísun þriðja nóvember 2020, þar sem frávísunarkröfu var hafnað. Málið gekk því til efnismeðferðar. Héraðsdómur kvað svo upp úrskurð og dóm 24. júní 2021, þar sem meginkröfum ÖBÍ var vísað frá dómi, og efnisdómur, hliðhollur ríki, var felldur um varakröfur.
Þessi úrskurður var kærður til Landsréttar, og felldi rétturinn úrskurð þar um 9. nóvember 2021. Landsréttur hafnaði frávísun, og vísaði málinu aftur í hérað til löglegrar meðferðar. Dómur féll í þeim hluta málsins 12. apríl 2022. Eins og í fyrri dóm, var ríkið sýknað af kröfum stefnenda, og verður þeim hluta málsins áfrýjað til Landsréttar, þar sem þau munu sameinast að nýju.