Aðgengilegar kosningar
”Kosningaaðstaða og kjörgögn séu við hæfi, aðgengileg og auðskilin
Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. 29. grein. Þátttaka í stjórnmálum og opinberu lífi.
Þín réttindi
„Kjósandi hefur rétt til aðstoðar við atkvæðagreiðsluna og eftir breytinguna [sem var 2022] er nóg að kjósandi mæti á kjörstað og óski aðstoðar. Þá skal aðstoð veitt af þeim úr kjörstjórn sem kjósandi tilnefnir.
Kjósandi getur einnig komið með aðstoðarmann sem hann velur á kjörstað, undantekningin er að aðstoðarmaður má ekki vera frambjóðandi eða maki, börn, systkini og foreldrar frambjóðanda og aðstoðarmaður má ekki veita fleirum en þremur kjósendum aðstoð við sömu kosningu.
Kjósandi á að ekki þurfa að útskýra fyrir kjörstjórn hvers vegna hann þarf aðstoð.“ » (stjornarradid.is)
Rétturinn til að kjósa er stjórnarskrárvarinn, auk þess er hann varinn í alþjóðlegum mannréttindasamningum.
Þess vegna hvílir lagaleg skylda á ríki og sveitarfélögum að ganga úr skugga um að möguleikar allra kosningabærra þjóðfélagsþegna til að taka þátt í kosningum sé tryggður.
”Í hverri kjördeild þurfa að vera stækkunargler og blindraspjöld
Gátlisti
Þessi gátlisti fyrir aðgengilegar kosningar var unninn af Félags- og vinnumarkaðsráðuneytinu árið 2022 og byggir á ábendingum frá málefnahóp ÖBÍ um aðgengi. Mikilvægt er að yfirkjörstjórnir nýti sér listann við undirbúning og framkvæmd kosninga til Alþingis 2024. » Gátlistinn á PDF
Aðgengi að kjörstað
1. Kjörstaður er vel og skýrt merktur. ▢
2. Það eru eitt eða fleiri greinilega merkt bílastæði, sem eru frátekin fyrir m.a. hreyfihamlaða, blinda og sjónskerta í innan við 25 metra göngufæri frá inngangi. Þau skulu vera nægilega rúm fyrir notendur hjálpartækja, hallalaus og með greiðri umferðarleið inn á kjörstað. ▢
3. Svæði þar sem bílastæði og gangstétt mætast og gangstétt sem liggur að inngangi er slétt, hörð og þétt þannig að hún er aðgengileg fyrir þau sem nota hjólastól, göngugrind eða önnur hjálpartæki. ▢
4. Engar hindranir eru á gangvegi frá bílastæði og inn í kjörklefa, svo sem háar gangstéttabrúnir án skábrautar, þröskuldar, tröppur og slíkt. ▢
Aðgengi inni á kjörstað og kjördeildum
5. Bæta við skábraut eða lyftulausn við stiga eða tröppur. Lyftur og rampar þurfa að bera þunga rafmagnshjólastóla. ▢
6. Rampar eru ekki með of brattan halla, sbr. viðmið í byggingareglugerð. ▢
7. Tröppur eru með handriði og tröppunef merkt með afgerandi lit. ▢
8. Handrið skal ná upp fyrir efsta þrep og niður fyrir neðsta þrep og skal handrið vera beggja megin. ▢
9. Hurðir eru nógu breiðar til að komast inn með hjólastól, eins og skylt er í byggingareglugerðum. ▢
10. Hurðir eru án þröskulds eða þröskuldurinn er lágur, innan við 25 mm. Þar sem þröskuldur er hár skal setja upp ramp. ▢
11. Rýmingarleiðir eru greinilega merktar og tryggja örugga rýmingu fyrir alla, óháð hreyfigetu. ▢
12. Stórir glerfletir merktir með skýrum og aðgreinandi viðvörunarmerkingum í áberandi lit. ▢
13. Kjörstaðir eru með góðri hljóðvist. ▢
14. Kjörstaðir eru með góðum birtuskilyrðum. ▢
15. Í húsnæðinu er a.m.k. eitt aðgengilegt salerni, nógu stórt að það henti fyrir fólk sem notar rafmagnshjólastól. ▢
Til að geta greitt atkvæði
16. Rými sé þannig að fólk komist inn í kjördeild, geti náð í kjörseðil, komist að kjörklefa og geti skilað kjörseðli í kjörkassa, o.s.frv. ▢
17. Hugað að því kjörklefar séu aðgengilegir fólki sem notar hjólastól. • Að minnsta kosti einn kjörklefi nógu stór fyrir hjólastól og aðstoðarmann. • Lægri borðhæð – fyrir fólk sem notar hjólastól. ▢
18. Merkingar skýrar – m.a. kjördeildir, kjörklefi, kjörkassi, o.s.frv. ▢
19. Skýrar leiðbeiningar sýnilegar um framkvæmd kosningar. ▢
20. Hugað að kjörgögnum, m.a. blindraspjöldum. ▢
Merkingar
21. Tákn og textar eru hannaðir þannig að auðvelt sé að lesa og skilja þau og eru staðsett þannig að auðvelt sé að greina þau. ▢
22. Leturstærð, leturgerð, litir, myndmál notað sem einfaldar fyrir kjósendum að finna leiðina og skilja. Nota t.d. frekar Arial en Times New Roman. ▢
23. Skilti eru í hæð sem hentar fyrir bæði standandi og sitjandi fólk. ▢
24. Leiðarlínur að kjörstað og inni á kjörstað fyrir blinda og sjónskerta. ▢
Aðstoð við atkvæðagreiðslu, bæði á kjörstað og utankjörfundar
25. Kjörstjórnir meðvitaðar um rétt kjósenda til aðstoðar við atkvæðagreiðslu. ▢
26. Upplýsingum um breyttar reglur um aðstoð við atkvæðagreiðslu miðlað til þeirra sem þær varða. ▢
27. Starfsfólk er meðvitað um viðeigandi aðlögun og aðstoðar og leiðbeinir fötluðu fólki til þess að það geti nýtt kosningarétt sinn án hindrana. ▢
28. Starfsfólk er meðvitað um ósýnilegar fatlanir og skilur að fólk þarf ekki að sanna fötlun sína til þess að hljóta aðstoð. ▢
29. Gæta þarf sérstaklega vel að því að allt starfsfólk á kjörstað sé meðvitað um réttindi þeirra sem þurfa aðstoð við atkvæðagreiðslu og þá sem vilja velja sinn eigin aðstoðarmann. ▢
Viðmót gagnvart kjósendum
30. Ítrekað við kjörstjórnir að sýna kjósendum virðingu og upplýsandi viðmót. ▢
Upplýsingar um kosningar
31. Upplýsingar um kosningar og framkvæmd þeirra, kjörstaði o.þ.h. aðgengilegar – einfalt og skýrt hvar hægt er að nálgast þær. ▢
32. Upplýsingar á auðskildu máli. ▢
33. Aðgengileg heimasíða samkvæmt WCAG aðgengisstaðlinum. ▢