
Leiðarlína
Mannréttindahúsið
Leiðbeiningar um lagningu á leiðarlínum og athyglissvæðum / leiðarlínukerfi innanhúss eru til að skapa gott aðgengi fyrir blinda og sjónskerta.
Þessar leiðbeiningar taka mið af ISO 23599:2019 um leiðarlínur og athyglissvæði og ÍSTN CEN/TR 17621:2021 um aðgengi og nothæfi manngerðs umhverfis þar sem það er tekið fram.
Leiðarlína er lína sem lögð er á gólfflöt og skilur sig frá umhverfi með lit, hæðarmun og yfirborðsáferð.
Báðum megin við leiðarlínu þarf að vera að minnsta kosti 0,6 m autt svæði. Á svæði umhverfis leiðarlínukerfið má ekki staðsetja húsgögn, auglýsingarskilti eða annað sem hindrað getur aðgengi.
Hæð leiðarlína innandyra á vera 3,5 mm ± 0,5 mm (ÍSTN CEN/TR 17621:2021).
Efsta breidd ílangra lína með flötum toppi, sem notaðar eru sem leiðarlínur, þarf að vera á bilinu 17 mm – 30 mm en botnbreidd breiðari en toppurinn (10 ± 1 mm). Því samfelldari sem leiðarlínur eru því auðveldara er að fylgja þeim. Ef notaðar eru stuttar línur (stangir) mega þær ekki vera styttri er 270 mm. Ef bil er haft á milli þeirra ætti það að vera frá 10 mm – 30 mm.
Í sundlauga- og búningsherbergjum þar sem eðlilegt er að ganga berfættur nægir 1 mm hæð á leiðarlínunni.
Athyglissvæði er afmarkaður flötur með upphleyptri áferð, oftast með doppum / bólum.
Athyglissvæði eru sett við tröppur sem vísa niður og við stefnubreytingu. Minnsta dýpt og breidd á athyglissvæðum er 600 mm (600 mm x 600 mm). Í undantekningartilvikum má minnka athyglissvæði í 400 x 400 mm og er þá tekið mið af umfangi svæðis sem um ræðir.
Þegar athyglissvæði er notað við tröppur niður skal breiddin á því ná yfir alla breidd tröppusvæðisins. Athyglissvæðið skal vera dregið a.m.k. 300 mm frá brún á tröppunum.
Athyglissvæði er sett í leiðarlínukerfi þegar um stefnubreytingu er að ræða til að fólk átti sig á hvar á að breyta um stefnu og í hvaða átt. Það getur ýmist verið doppusvæði eða autt svæði. Út frá athyglissvæðinu halda leiðarlínur áfram.
Við stefnubreytingu sem er minni en 90° er ekki nauðsynlegt að vera með athyglissvæði.
Áþreifanlegar leiðarlínur og athyglissvæði skulu ekki skapa hættu á að fólk hrasi um þær eða verði öðrum hindrun. Hæð á leiðarlínum og / eða, bólum eða þverlínum í athyglissvæðum innandyra á að vera minnst 3,5 ± 0,5 mm (ÍSTN CEN/TR 17621:2021).
Almennt þarf ekki að leggja athyglissvæði við lyftur, fyrir framan neðsta þrep í tröppum, við afgreiðsluborð eða við inngang á rými.
Þar sem notaðar eru tilbúnar athyglissvæðamottur skal grunnflötur mottunnar ekki vera þykkari en 3 mm og brúnirnar skulu að vera rúnnaðar.
Þegar leiðandi mynstur, mismunur á yfirborði gólfefnis er notað til að afmarka umferðaleið ætti auðkenni þess að vera a.m.k. 250 mm breitt.
Hægt er að leita ráðgjafar um leiðarlínur og áherslusvæði hjá Blindrafélaginu blind@blind.is og Sjónstöðinni sjonstodin@sjonstodin.is
Blindrafélagið og ÖBÍ réttindasamtök, apríl 2025.