Notendaráð eru nefndir sem skipaðar eru bæði fulltrúum fatlaðs fólks og fulltrúum sveitarfélaga, oftast sveitarstjórnarfólki. Starfsfólk sveitarfélaga sinnir svo gjarnan stuðningshlutverki við notendaráðið.
Helstu þættir
- Í flestum sveitarfélögum skipar ÖBÍ tvo aðalfulltrúa og tvo varafulltrúa. ÖBÍ telur réttast að varafulltrúar hafi rétt til að mæta sem áheyrnafulltrúar á fundi notendaráða og hafi aðgang að gögnum sem tengjast starfinu. Þau séu þannig upplýst og tilbúin ef þau þurfa að taka sæti sem aðalmenn á fundum.
- Í flestum sveitarfélögum funda notendaráð fjórum til átta sinnum á ári og yfirleitt er tekin fundarpása yfir sumartímann.
- Gögn eru yfirleitt send tímanlega fyrir fundina svo fulltrúar geti kynnt sér það sem fjalla á um. Einnig er fulltrúum frjálst að óska eftir að mál séu sett á dagskrá og er slíkur réttur mikilvægur í starfinu.
- Almennt greiða sveitarfélög þóknanir fyrir fundarsetu í notendaráðum. Það er skýr afstaða ÖBÍ að það eigi að greiða fyrir þessi störf eins og setu í öðrum fastanefndum sveitarfélaga.
- ÖBÍ heldur reglulega rafræna samráðsfundi. Þar gefst fulltrúum í notendaráðum um allt land tækifæri til að spjalla saman á jafningagrundvelli auk þess sem ýmiss fræðsla um málaflokkinn fer þar fram. Fulltrúum í notendaráðum er frjálst að leita til ÖBÍ eða aðildarfélaga eftir stuðningi sé þess þörf.
- Reynsla fulltrúa í notendaráðum hefur gjarnan verið sú að um valdeflandi starf sé að ræða þar sem hægt er að hafa jákvæð áhrif innan síns nærsamfélags.
Vinsamlega sendið ábendingar og fyrirspurnir á notendarad @ obi.is