Notendaráð eru nefndir sem skipaðar eru bæði fulltrúum fatlaðs fólks og fulltrúum sveitarfélaga, oftast sveitarstjórnarfólki. Starfsfólk sveitarfélaga sinnir svo gjarnan stuðningshlutverki við notendaráðið.
Hvað er notendaráð?
Helstu þættir
Notendaráðin eru aðeins einn þáttur í lögbundu samráði yfirvalda við fatlað fólk. Slíkt samráð á að eiga sér stað á öllum stigum. Á einstaklingsgrundvelli eru það sveitarfélög sem eiga að hafa samráð við notanda þjónustu um þörf og útfærslu þjónustunnar. Jafnframt ber sveitarfélögum skylda til að viðhafa samtal á breiðara sviði með samráði við hagsmunafélög fatlaðs fólks annars vegar og hópa notanda á tilteknu svæði hins vegar. Að lokum þá er gerð krafa um víðtækara samráð á landsvísu, meðal annars hvað varðar stefnumótun í málefnum sem tengjast fötluðu fólki.
Það er eðlilegt að í notendaráðum sé fjallað með víðtækum hætti um málefni sem tengjast fötluðu fólki í sveitarfélögum. Störf notendaráða snúast ekki bara um stefnumótun í félagsþjónustu heldur ætti að horfa á verksviðið í víðara samhengi, og fjalla til dæmis um fyrirhugaðar framkvæmdir, aðgengi og þess háttar. Ef hlutir hafa náð vissu flækjustigi, eins og þegar verið er að semja lagalegar reglur um þjónustu, er þó rétt að kalla inn sérfræðinga frá hagsmunafélögum til að fara yfir málin.
Mikilvægt að árétta að það er lagaskylda að starfrækja notendaráð og því ber öllum sveitarfélögum skylda til að starfrækja slíkan samráðsvettang með fötluðu fólki.
Það er því mikilvægt að hagsmunasamtök skipi fólk í þessi ráð. ÖBÍ hefur oftast fengið það verkefni og verið í sambandi við sín aðildafélög og kallað eftir tilnefningum.
Sveitarfélögin eru komin mislangt með innleiðingu notendaráða. Sum hafa starfrækt notendaráð árum saman en önnur hafa ekki stofnað slík ráð. Í ýmsum sveitarfélögum hafa verið settar reglur um ráðin sem er mjög gagnlegt og eykur gagnsæið.
Vinsamlega sendið ábendingar og fyrirspurnir á notendarad @ obi.is