ÖBÍ réttindasamtök styðja við starfsemi aðildarfélaga sinna á margvíslegan máta.
Rekstrarstyrkir
ÖBÍ veitir aðildarfélögum sínum rekstrarstyrki árlega. Sjá nánari skilyrði í um úthlutun styrkja hér fyrir neðan ↓
Rekstrarstyrkir til aðildarfélaga ÖBÍ
Reglur um úthlutun
1. Um rekstrarstyrki
ÖBÍ veitir aðildarfélögum sínum rekstrarstyrki árlega að uppfylltum þeim skilyrðum sem eru nánar tilgreind í reglum þessum. Rekstrarstyrkir eru ætlaðir til stuðnings við reglulega starfsemi og rekstur félaganna.
Til reglulegrar starfsemi telst hefðbundið félagsstarf, rekstur og viðhald vefsíðu, almennur samskiptakostnaður, svo sem sími, nettenging og tölvukostnaður, skrifstofuhald, ritföng, endurnýjun tækja og fleira. Upptalning þessi er ekki tæmandi.
Aðildarfélögum stendur einnig til boða að sækja um verkefnastyrki vegna afmarkaðra og tímabundinna verkefna. Sjá nánar í reglum um verkefnastyrki.
Sækja þarf um rekstrarstyrki árlega með rafrænni umsókn á vefsíðu ÖBÍ. Auglýst skal eftir umsóknum frá aðildarfélögum um rekstrarstyrki fyrir lok janúar ár hvert og skal umsóknum skilað í síðasta lagi fjórum vikum síðar.
2. Fjárhæðir rekstrarstyrkja
Stjórn ÖBÍ ákveður fjárhæð rekstrarstyrkja ár hvert í fjárhagsáætlun fyrir komandi ár. Sú fjárhæð skiptist hlutfallslega miðað við fjölda fullgildra félagsmanna samkvæmt eftirfarandi töflu á milli þeirra aðildarfélaga sem sækja um rekstrarstyrk á árinu.
Grunnfjárhæð er skilgreind fyrir félög með 100-500 félagsmenn en fjárhæð til hinna flokkanna er tiltekið margfeldi af grunnfjárhæðinni.
1) Félög með færri félagsmenn en 100 – margfeldistalan er 0,5
2) Félög með 101 til 500 félagsmenn – margfeldistalan er 1,0
3) Félög með 501 til 1000 félagsmenn – margfeldistalan er 1,5
4) Félög með 1001 til 2000 félagsmenn – margfeldistalan er 2,0
5) Félög með 2001 til 4000 félagsmenn – margfeldistalan er 2,5
6) Félög með 4001 eða fleiri félagsmenn – margfeldistalan er 3,0
3. Skilyrði styrkveitingar
Til að aðildarfélag geti fengið rekstrarstyrk þarf félagið að uppfylla eftirfarandi kröfur:
a) Almenn skilyrði – Félag þarf að (uppfylla öll þrjú skilyrðin):
-
- Halda félagaskrá.
- Hafa virka vefsíðu á eigin léni.
(Má vera lén í samstarfi með fleiri félögum. Síða eða spjallhópur á samfélagsmiðlum telst ekki sem vefsíða.)
-
- Veita trúnaðarmanni sem skipaður er sameiginlega af viðkomandi félagi og stjórn ÖBÍ heimild til að sannreyna félagaskrá félags telji framkvæmdaráð þörf á því. Trúnaðarmaður skal í því tilviki undirrita trúnaðaryfirlýsingu vottaða af fulltrúa félags og fulltrúa stjórnar ÖBÍ.
b) Virkniskilyrði (félag þarf að uppfylla að lágmarki þrjú af eftirfarandi fimm skilyrðum):
-
- Reki skrifstofu með auglýstan opnunartíma eða símatíma.
- Hafi launað starfsfólk.
(Hér nægir að hafa einn starfsmann, hvort sem er í starfi að fullu eða hluta.
Verkkaup af verktaka vegna afmarkaðs tímabundins verkefnis tengt rekstri félags telst ekki til þess að hafa launað starfsfólk. Dæmi um slík verkkaup eru t.d. uppsetning vefsíðu, hönnun útgáfuefnis vegna einstakra verkefna og annað í þá veru.)
-
- Hafi á síðastliðnu ári/starfsári gefið út tímarit eða fræðsluefni, prentað eða á vefnum.
- Haldi uppi virku félagsstarfi.
- Hafi tilnefnt fulltrúa til setu í málefnahópum ÖBÍ á síðustu tveim árum í samræmi við félagafjölda.
(Til að uppfylla þetta skilyrði þarf félag að hafa tilnefnt helming þess fjölda aðalfundarfulltrúa sem það átti rétt á á aðalfundi næstliðins árs, námundað niður.)
Fyrsta árið eftir samþykkt nýs aðildarfélags er það félag undanþegið ofangreindum skilyrðum um virkni.
c) Greiðsla styrks:
Rekstrarstyrkur er ekki greiddur út til aðildarfélags fyrr en félag hefur skilað til ÖBÍ ársreikningi fyrra árs, undirrituðum af meirihluta stjórnar og skoðunarmönnum reikninga og ársskýrslu.
Styrkir sem ekki er hægt að greiða út innan þess almanaksárs sem þeim er úthlutað á falla niður. Stjórn ÖBÍ getur veitt undanþágu frá þeirri reglu. Til að stjórn ÖBÍ veiti slíka undanþágu þarf stjórn viðkomandi aðildarfélags að óska sérstaklega eftir því og rökstyðja ítarlega þá beiðni.
4. Viðbótarstyrkir vegna góðrar afkomu ÖBÍ
Heildarupphæð og úthlutunardagur viðbótarstyrkja ÖBÍ er ákveðin af stjórn ÖBÍ hverju sinni. Viðbótarstyrkjum ÖBÍ skal úthluta eftir sömu reglum.
5. Vinnsla persónuupplýsinga
Með styrkumsókn veitir aðildarfélagið fulltrúum ÖBÍ heimild til nauðsynlegrar vinnslu trúnaðar- og persónuupplýsinga sem umsókn kunna að fylgja í samræmi við verklagsreglur um úthlutun styrkja. Farið er með styrkumsóknir í samræmi við persónuverndarstefnu ÖBÍ og persónuverndarlög.
6. Verklag við úthlutun rekstrarstyrkja
Þegar stjórn hefur ákveðið heildarfjárhæð rekstrarstyrkja í samþykktri fjárhagsáætlun næsta árs reiknar starfsfólk skrifstofu ÖBÍ þá fjárhæð sem hvert aðildarfélag á rétt til ef öll félögin sækja um sbr. margfeldisstuðla í töflu í 2. grein. Sá útreikningur skal fylgja auglýsingu um rekstrarstyrkumsóknir.
Þegar umsóknarfrestur er liðinn yfirfer starfsfólk skrifstofu umsóknir um rekstrarstyrki og sannreynir að skilyrðum styrkveitingar sé fullnægt. Þá er endanleg styrkupphæð til aðildarfélaga endurreiknuð í samræmi við fjölda og upphæðir umsókna sem borist hafa. Þá er framkvæmdaráði sent yfirlit yfir styrkumsóknir og hvort skilyrði séu uppfyllt. Ef upp koma vafamál sker framkvæmdaráð úr um þau.
Að því loknu er styrkúthlutun borin upp við stjórn til endanlegrar afgreiðslu og staðfestingar.
7. Kynning og endurskoðun reglanna
Reglur þessar skulu kynntar fyrir stjórn ár hvert eftir aðalfund ÖBÍ. Þær skal endurskoða þegar tilefni er til og að fenginni reynslu.
Reglur þessar eru settar af stjórn ÖBÍ með vísan í 4. tl. 6. gr. og 27. gr. laga ÖBÍ. Því skal birta reglurnar aðildarfélögum ÖBÍ.
Samþykkt á stjórnarfundi 29.9.2022
Reglurnar taka gildi fyrir úthlutun 2023.