Skip to main content

Spurt og svarað – hlutastörf

Fyrir stjórnendur fyrirtækja og stofnana

Eru ráðningarstyrkir í boði?

Já. Vinnusamningur Vinnumálastofnunar (VMST) er valkostur fyrir einstaklinga með skerta starfsgetu og þau fyrirtæki sem vilja stuðla að fjölbreytileika í starfsmannahópnum.

Frumkvæðið að vinnusamningi VMST kemur frá einstaklingnum, sem metur hvort samningurinn henti honum. Samningarnir eru til þess ætlaðir að auðvelda fólki með skerta starfsgetu að fóta sig á vinnumarkaði, þar sem VMST endurgreiðir hluta launakostnaðar í ákveðinn tíma. Þetta gefur starfsmanninum tækifæri til að læra á vinnuumhverfið á meðan fyrirtækið aðlagar aðstæður, án þess að fjárhagslegur þrýstingur sé strax til staðar.

Fyrirkomulag vinnusamninga er eftirfarandi:
Atvinnulífstenglar VMST gera samning við einstaklinginn og fyrirtækið. Samningurinn felur í sér að VMST endurgreiðir fyrirtækinu mánaðarlega ákveðið hlutfall af launakostnaði og launatengdum gjöldum gegn því að fá sent afrit af launaseðlum.

Hlutfallið sem VMST greiðir fyrirtækinu fyrstu 2 árin eru 75% en greiðslan lækkar svo um 10% árlega þar til lágmarks endurgreiðsluhlutfalli (25%) er náð.

Dæmi: Eftir 1 ár (65% endurgreiðsla) og eftir 3 ár (45%) osfrv. Endurgreiðslan fer aldrei undir 25% en það þarf að sækja um það árlega að halda því hlutfalli áfram.

Get ég ráðið einstakling í fullt starf eða hlutastarf?

Vinnusamninga er hægt að gera bæði um fullt starf og hlutastarf, til dæmis um vinnu hálfan daginn en starfsmaður getur einungis gert samning við eitt fyrirtæki í einu. VMST tekur ekki þátt í greiðslu fyrir yfirvinnu, álagsgreiðslum eða bónusgreiðslum, nema í undantekningartilvikum en þá er sérstaklega samið um það.

Hvað þýðir að vera með skerta starfsgetu?

Að vera með skerta starfsgetu þýðir að einstaklingur getur lagt sitt af mörkum á vinnumarkaði í hlutastarfi til langframa eða tímabundið. Skert starfsgeta þarf því ekki að takmarka þátttöku á vinnumarkaði.

Hér eru dæmi um fólk með skerta starfsgetu, bæði tímabundna og varanlega, sem sýna fjölbreytileika þessarar áskorunar og hvernig hægt er að mæta henni:

1. Tímabundin skerðing vegna geðrænna áskorana

Jón er starfsmaður í þjónustufyrirtæki sem hefur nýlega verið greindur með kvíðaröskun. Þessi áskorun hefur stundum áhrif á einbeitingu hans og vinnuþol. Með stuðningi frá vinnuveitanda sínum, eins og sveigjanlegum vinnutíma og möguleika á vinnu að hluta til heiman frá, getur hann sinnt starfinu vel á eigin forsendum meðan hann vinnur að andlegri heilsu sinni. Skerðingin er tímabundin, og með stuðningi hefur hann möguleika á að vinna fulla vinnu á ný í framtíðinni.

2. Varanleg hreyfihömlun

María er lyfjafræðingur með hreyfihömlun sem gerir það að verkum að hún þarf lengri tíma til að undirbúa sig fyrir vinnudaginn. Þrátt fyrir þessa fötlun, getur hún sinnt starfi sínu fullkomlega, en nýtur góðs af því að hafa sveigjanlegan vinnutíma til að mæta seinna á morgnana. Með þessari aðlögun getur hún nýtt alla hæfileika sína og verið virkur og verðmætur starfsmaður.

3. Tímabundin starfsgetuskerðing vegna slyss

Pétur, sem vinnur á verkstæði, lenti í slysi og handleggsbrotnaði. Í bataferlinu hefur hann tímabundna skerðingu á starfsgetu, þar sem hann getur ekki sinnt öllu sem starfið krefst. Vinnuveitandi hans hefur fundið leiðir til að endurskipuleggja verkefni hans, svo hann getur sinnt öðrum þáttum starfsins sem ekki krefjast líkamlegrar álags meðan hann jafnar sig.

4. Varanlegar geðrænar áskoranir

Sigríður hefur verið greind með þunglyndi og nýtir ýmis úrræði til að takast á við þá áskorun. Hún starfar í skrifstofu þar sem vinnuálagið getur verið misjafnt. Í samráði við vinnuveitanda hefur hún fengið sveigjanlegan vinnutíma og möguleika á að fá hvíld þegar þörf krefur. Þetta hefur gert henni kleift að vera áfram í starfi sem henni líkar vel við og viðhalda góðri starfsgetu.

Þessi dæmi sýna hvernig hægt er að mæta þörfum einstaklinga með skerta starfsgetu með lausnum eins og  hjálpartækjum, styttri eða sveigjanlegs vinnutíma. Þannig getur fólk með skerta starfsgetu verið virkt og verðmætt í hvaða fyrirtæki sem er.

Hvað er inngilding fatlaðs fólks?

Það felur í sér að öll kerfi samfélagsins (dæmi: mannvirki, húsgögn, þjónusta, stjórnsýslan og tækni) taki mið af þörfum fatlaðs fólks og séu hönnuð með það í huga. Þannig fær fatlað fólk tækifæri til jafns við aðra.

Það sama gildir um fatlað fólk og ófatlað að enginn einn getur allt en öll getum við eitthvað. Þetta er einfaldlega sú hugsun að við viljum ekki útilokun. Inngilding er andstæða útilokunar. Inclusion vs exclusion. Einstaklingur getur t.d. haft frábæra leiklistarhæfileika þó viðkomandi geti ekki gengið.

Kjarninn í inngildingu er að samfélagið sé ekki bara fyrir ófatlaða, heldur okkur öll. Við erum hérna líka. Það er talað um jaðarsetta hópa. Hver hefur sett hópinn á jaðarinn? Það hefur meirihlutinn gert, sem er ófatlaður, hvítur o.s.frv.. Hugsunin um að við fáum öll tækifæri er ekki bara falleg, hún er líka framkvæmanleg. Það felst engin krafa í þessu um að við sem erum fötluð verðum að fá að gera allt sem við viljum. Krafan er að fá tækifærið, að vera ekki fyrirfram útilokuð.

Hvað er „viðeigandi aðlögun“ á vinnustað?

Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks skilgreinir viðeigandi aðlögun sem nauðsynlegar, viðeigandi breytingar og lagfæringar, sem eru ekki umfram það sem eðlilegt megi teljast eða of íþyngjandi, þar sem þeirra sé þörf í sérstöku tilviki, til þess að tryggt verði að fatlað fólk fái notið eða geti nýtt sér, til jafns við aðra, öll mannréttindi og grundvallarfrelsi.

Viðeigandi aðlögun er forsenda þess að fatlað fólk með skerta starfsgetu eigi raunhæfan möguleika á að njóta jafnréttis og jafnra tækifæra á vinnumarkaði.

Um viðeigandi aðlögun er fjallað um í lögum nr. 86/2018 um jafna meðferð á vinnumarkaði. Þar segir  að atvinnurekandi skuli gera viðeigandi ráðstafanir, sé þeirra þörf í sérstöku tilviki, til þess að gera fötluðum fólki kleift að eiga aðgengi að og taka þátt í starfi, njóta framgangs í starfi eða fá þjálfun, enda séu þær ráðstafanir ekki of íþyngjandi fyrir atvinnurekandann.

Hverjar geta þessar viðeigandi ráðstafanir (aðlaganir) verið?

Þær geta til dæmis falist í því að:

  • setja upp ramp við inngang fyrirtækisins
  • leggja leiðarlínur á gólf vinnustaðarins fyrir fólk með sjónskerðingu
  • setja upp stoðir á salerni
  • ýmsar tæknilausnir
  • hækkanleg og lækkanleg skrifborð
  •  sveigjanlegur vinnutími
  • heimavinna

Hver er helsta breytingin sem verður á örorkulífeyriskerfinu 2025?

Það voru gerðar breytingar á lögum um almannatryggingar vorið 2024.  Helstu breytingarnar voru að nú verður einn greiðsluflokkur örorkulífeyris, í stað nokkurra áður. Í öðru lagi tekur samþætt sérfræðimat við mat á örorku í stað núverandi örorkumats. Samþætt sérfræðimat getur gefið þrjár niðurstöður. Virkni á vinnumarkaði er metin 25% eða minni og viðkomandi fær örorkulífeyri. Virkni á vinnumarkaði er metin 26-50% og viðkomandi fær hlutaörokulífeyri. Virkni á vinnumarkaði er metin meir en 50% og viðkomandi á ekki rétt á hlutaörorku- eða örorkulífeyri. Því er ljóst að í kjölfar nýrra laga um almannatryggingar munu fleiri einstaklingar með skerta starfsgetu fara út á vinnumarkaðinn.

Finnur þú ekki það sem þú leitar að? Ertu með spurningu?

Sendu okkur endilega póst með spurningu þinni á obi @ obi.is