Skip to main content

Spurt og svarað – hlutastörf

Fyrir stjórnendur fyrirtækja og stofnana

Hvers vegna kemur allt þetta fólk á vinnumarkaðinn haustið 2025?

Það voru gerðar breytingar á lögum um almannatryggingar vorið 2024.  Helstu breytingar voru að nú verður einn greiðsluflokkur örorkulífeyris, í stað nokkurra áður. Í öðru lagi tekur samþætt sérfræðimat við mat á örorku í stað núverandi örorkumats. Samþætt sérfræðimat getur gefið þrjár niðurstöður. Virkni á vinnumarkaði er metin 25% eða minni og viðkomandi fær örorkulífeyri. Virkni á vinnumarkaði er metin 26-50% og viðkomandi fær hlutaörokulífeyri. Virkni á vinnumarkaði er metin meir en 50% og viðkomandi á ekki rétt á hlutaörorku- eða örorkulífeyri. Því er ljóst að í kjölfar nýrra laga um almannatryggingar munu fleiri einstaklingar með skerta starfsgetu fara út á vinnumarkaðinn.”

Hvað er viðeigandi aðlögun á vinnustað?

Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks skilgreinir viðeigandi aðlögun sem nauðsynlegar, viðeigandi breytingar og lagfæringar, sem eru ekki umfram það sem eðlilegt megi teljast eða of íþyngjandi, þar sem þeirra sé þörf í sérstöku tilviki, til þess að tryggt verði að fatlað fólk fái notið eða geti nýtt sér, til jafns við aðra, öll mannréttindi og grundvallarfrelsi.

Viðeigandi aðlögun er forsenda þess að fatlað fólk með skerta starfsgetu eigi raunhæfan möguleika á að njóta jafnréttis og jafnra tækifæra á vinnumarkaði. Viðeigandi aðlögun er einstaklingsbundinn réttur fatlaðs einstaklings og ræðst af einstaklingsbundnum þörfum hans. Skylt er að veita viðeigandi aðlögun frá þeim tíma sem fatlaður einstaklingur þarf aðgang að aðstæðum eða umhverfi sem ekki er aðgengilegt fyrir hann. Skylda til viðeigandi aðlögunar er til staðar þó að fatlaður einstaklingur sem á hlut að máli hafi ekki óskað eftir henni. Hvernig viðeigandi aðlögun er veitt á að ákveða og framkvæma í samráði við þann fatlaðra einstakling sem í hlut á.

Um viðeigandi aðlögun er fjallað um í lögum nr. 86/2018 um jafna meðferð á vinnumarkaði. Þar segir  að atvinnurekandi skuli gera viðeigandi ráðstafanir, sé þeirra þörf í sérstöku tilviki, til þess að gera fötluðum fólki kleift að eiga aðgengi að og taka þátt í starfi, njóta framgangs í starfi eða fá þjálfun, enda séu þær ráðstafanir ekki of íþyngjandi fyrir atvinnurekandann.

Get ég sótt um styrk til að gera fyrirtækið mitt aðgengilegra?

Vinnuaðlögunarsjóður sem atvinnurekendur (bæði á opinberum og almennum markaði) geta sótt styrki til s.s. til að aðlaga húsnæði og vinnuaðstöðu fyrir fatlað fólk. Atvinnurekendur hafa oft vilja og áhuga til að auka fjölbreytni meðal starfsfólks og ráða fatlað fólk til starfa en fara ekki áfram með ráðningu vegna kostnaðar við viðeigandi aðlögun s.s. vegna breytinga á húsnæði til að auka aðgengi og fjarlægja hindranir eða vegna nauðsynlegra tækjakaupa.

Hverjar geta þessar viðeigandi ráðstafanir verið?

Þær geta til dæmis falist í því að:

  • setja upp ramp við inngang fyrirtækisins
  • leggja leiðarlínur á gólf vinnustaðarins fyrir fólk með sjónskerðingu
  • setja upp stoðir á salerni
  • ýmsar tæknilausnir
  • hækkanleg og lækkanleg skrifborð
  • sveigjanlegur vinnutími
  • heimavinna

Finnur þú ekki það sem þú leitar að? Ertu með spurningu?

Sendu okkur endilega póst með spurningu þinni á obi @ obi.is