Skýrsla Alexanders Magnússonar
Úttekt á strætisvögnum og biðstöðvum
1. Aðgengi að og á biðstöðvum – upplifun
Biðstövar á höfuðborgarsvæðinu eru mjög misgóðar. Sumar mjög flottar, en aðrar í miður góðu ásigkomulagi. Einnig eru minni stoppistöðvarnar oft eins og þær voru aldrei fullkláraðar. Það sem var sérstaklega leiðinlegt að sjá, voru glænýjar stoppistöðvar þar sem greinilegt var að enginn hafði farið yfir aðgengisstaðlana fyrir hönnun og smíði þeirra. Sérstaklega tókum við eftir því í Garðabæ, þar sem mikið af biðstöðum voru endurnýjaðar í vor/sumar. Í einu tilviki í Mosfellsbæ stoppuðum við þar sem verið var að laga veginn/gangbrautina, og þá komumst við ekki að stoppistöðinni þar sem búið var að steypa kant sem við komumst ekki yfir. Einnig var ein stoppistöð sem við stoppuðum á sem var með stiga að henni. Þar var lítið annað í stöðunni en að labba meðfram veginum.
2. Aðgengi í Strætó – upplifun
Það var enginn strætó sem við fórum í sem var ekki útbúinn rampi eða aðstöðu fyrir hjólastól. Allir vagnar sem við sáum voru einnig merktir með aðgengi fyrir hjólastól. Hins vegar var því miður festibúnaðurinn oft í ólagi, eða ekki nothæfur þó að hann væri alltaf til staðar. Yfirleitt var það þá lengdin á beltinu, en stóllinn hans Alexanders er þó ekki mikið stærri en eðlilegt má teljast. Það var líka í mörg skipti þar sem Alexander gat ekki fest sig sjálfur og þurfti því oft aðstoð við það verkefni. Okkur fannst þó mjög gott að hjólastólasvæðið sneri í gagnstæða átt þar sem helstu snörpu hreyfingar vagnsins voru þegar það var hemlað. Þá var bakstuðningurinn mjög góður. Tilkynningakerfið var nánast alltaf til staðar, en það er mjög mikilvægt þar sem farþegar á hjólastólavæðinu sjá ekki upplýsingatöfluna. Í nokkur skipti voru hátalarnir ekki alveg nógu skýrir.
-
Belti sem eru bæði nógu löng og með festibúnaðinn í nógu góðri hæð til að allir nái að teygja sig í hann.
-
Handfang sem er hægt að setja niður. Það veitir mikið öryggi að hafa eitthvað til að halda í.
3. Viðmót bílstjóra – upplifun
Bílstjórarnir voru upp til hópa mjög almennilegir og tillitssamir. Það er lítið hægt að segja um þá annað en að þeir eru flottir og standa sig vel í sínu starfi. Helsta athugasemdin sem við getum komið með er að í tvö/þrjú skipti var tekið af stað áður en Alexander gat komið sér fyrir, og þá rúllaði hann bara áfram. Í þau skipti þurfti ég að stoppa hjólastólinn hans. Það væri kannski hægt að fara betur yfir hvaða afleiðingar það getur haft í för með sér með bílstjórum strætó.
4. Hvernig fannst þér að taka þátt í verkefninu?
Við vorum alltaf spenntir að fara í vinnuna, og það var sérstaklega gaman að fara lengri ferðir í strætó og skoða nýja og áhugaverða staði á höfuðborgarsvæðinu. Þetta fékk okkur til að stíga aðeins út fyrir þægindarammann.
Þetta var virkilega áhugavert verkefni. Þetta reyndi á skipulag og aga, og opnaði augu okkar fyrir meiri verkefnavinnu í framtíðinni. Við viljum þakka kærlega fyrir að hafa valið okkur í þetta verkefni, þar sem þetta hristi skemmtilega upp í sumrinu hjá okkur.
5. Heildarupplifun
Það var mjög gott að fá smá sýn yfir hvernig strætókerfið er á höfuðborgarsvæðinu. Mörgu erábótavant, en samt sáum við að strætó er fararkostur sem Alexander getur séð fyrir sér að nota meira í framtíðinni. Það þarf ekki mikið til að bæta stöðu hreyfihamlaðra og sjónskertra innan kerfisins til muna. Þá helst þetta:
- Bæta við leiðarlínum og áherslusvæðum á stærri strætóstoppunum.
- Fá bílstjóra til að taka þátt og aðstoða oftar við að taka út, og ganga frá rampinum.
- Bæta við handföngum í strætisvögnum.
-
Búa til staðlaðan festibúnað sem virkar.
Könnun á aðgengi strætisvagna og biðstöðva – lokaskýrsla (mars, 2019) PDF