
© UNHCR / Hereward Holland
„Ef tillagan yrði samþykkt yrði hætt að leggja mat á þörf einstaklinga fyrir dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða“
Í b. lið 3. gr. frumvarpsins, Útlendingar (afturköllun alþjóðlegrar verndar), er lagt til að 2. málsl. 4. mgr. 48. gr. laga um útlendinga (útl.) falli brott og í stað hans komið svohljóðandi texti: „Séu aðstæður þannig að 1. mgr. 42. gr. eigi við er heimilt að veita útlendingi tímabundið dvalarleyfi skv. 77. gr. a.“ Í núverandi 2. málsl. 4. mgr. 48. gr. sem samkvæmt tillögunni á að falla brott segir: „Ef veiting alþjóðlegrar verndar er afturkölluð skal stjórnvald taka til athugunar hvort veita eigi dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 74. gr. eða hvort 42. gr. eigi við“. ÖBÍ leggst alfarið gegn þessari breytingatillögu.
Vakin er athygli á að tillagan á við um afturköllun alþjóðlegrar verndar samkvæmt öllum þeim mismunandi ástæðum afturköllunar sem taldar er upp í a. – f. liðum núverandi 48. gr. útl. en ekki aðeins á þeim nýja grundvelli sem a. liður 3. gr. frumvarpsins mælir fyrir um. Ef tillagan yrði samþykkt yrði hætt að leggja mat á þörf einstaklinga fyrir dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 74. gr. vegna afturköllunar verndar á grundvelli núverandi ástæðna samkvæmt a.-f. liðum 48. gr. Einstaklingar sem falla undir þær ástæður hafa sér þó ekkert til sakar unnið. Vernd sem veitt er á grundvelli 74. gr. útl. er mjög mikilvæg, sérstaklega fólki í viðkvæmri stöðu líkt og fötluðu fólki. Eins og fram kemur í 1. mgr. 74. gr. er leyfið m.a. veitt þegar einstaklingur hefur ríka þörf fyrir vernd af heilsufarsástæðum og vegna erfiðra félagslegra aðstæðna. Einstaklingur getur verið í mikilli þörf fyrir vernd á þeim grundvelli þrátt fyrir að uppfylla ekki skilgreiningar þess að vera flóttamaður skv. 1. eða 2. mgr. 37. gr. útl.
Vakin er athygli á að þegar umsækjendum um alþjóðlega vernd er synjað um vernd skv. 1. og 2. mgr. 37. gr. útl. ber Útlendingastofnun að leggja mat á hvort viðkomandi uppfyllir skilyrði skv. 1. mgr. 74. gr. útl. Slíkt mat myndi hins vegar ekki fara fram í tilviki einstaklings sem myndi hljóta vernd skv. 1. eða 2. mgr. 37. gr. sem síðar yrði afturkölluð. Að mati ÖBÍ felst í því hvort tveggja ósamræmi og ójafnræði. Að mati ÖBÍ koma 1. mgr. 42. gr. útl. og umborin dvöl ekki í staðinn fyrir þá vernd sem veitt er með 74. gr. útl. Ákvæðin hafa annan tilgang en dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Til að mynda er í ákvæðunum ekki falið lögbundið mat á þáttum á borð við heilsufar og félagslega stöðu. Þá er þörf fyrir dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða oftast varanlegri en svo að tilgreind ákvæði geti átt við. Enn fremur eru skilyrði umborinnar dvalar refsikennd og því í mótsögn við tilgang dvalarleyfis á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Því leggur ÖBÍ til að 2. málsl. 4. mgr. 48. gr. útl. haldist óbreyttur. Telji löggjafinn þörf á því skuli hinn nýi málsl. b. liðar 3. gr. frumvarpsins bætast við og eiga aðeins við um tilvik skv. a. lið 3. gr. frumvarpsins.
Ekkert um okkur án okkar!
Með vinsemd og virðingu,
Alma Ýr Ingólfsdóttir
formaður ÖBÍ
Sigurður Árnason
lögfræðingur ÖBÍ
Útlendingar (afturköllun alþjóðlegrar verndar)
278. mál, lagafrumvarp.
Umsögn ÖBÍ, 25. apríl 2025