ÖBÍ krefst þess að stjórnvöld viðhafi gagnsæi um verklag við mat á fötlun fólks á flótta og tryggi að fatlað fólk á flótta og fötluð börn á flótta séu ekki þjónustusvipt þvert gegn ákvæðum laga 80/2016.
Umsögn ÖBÍ – réttindasamtaka um breytingu á lögum um útlendinga, nr. 80/2016 (afnám þjónustusviptingar), þskj. 113, mál nr. 113.
ÖBÍ réttindasamtök styðja markmið frumvarpsins um afnám þjónustusviptingar. ÖBÍ harmar að ekki skuli hafa verið tekið tillit til ítrekaðra varnaðarorða varðandi afleiðingar nýrra lagaákvæða. Þá leikur mikill vafi á að framkvæmdin standist þær mannréttindaskuldbindingar sem íslensk stjórnvöld hafa undirgengist. ÖBÍ vill koma eftirfarandi athugasemdum á framfæri.
1.
Skýr lög og sameiginlegur skilningur á túlkun laga er ein af grunnstoðum lýðræðilegs samfélags. Ljóst er að ólíkur skilningur ráðherra ríkisstjórnarinnar á afleiðingum laganna og ólík túlkun ríkisins og Sambands íslenskra sveitafélaga á lögbundinni félagsþjónustu setur framtíð þessa viðkvæma hóp fólks í óvissu.
2.
Orð og gjörðir verða að fara saman til að tryggja trúverðuleika laga og alþjóðlegar skuldbindingar. Í núglildandi lögum nr. 80/2016 um útlendinga kemur m.a. fram að ekki er heimilt að þjónustusvipta fatlað fólk á flótta. ÖBÍ gerir verulegar athugasemdir við framkvæmd og skort á verklagi við mat á fötlun fólks á flótta og telur brýnt að slíkt mat sé unnið af fagaðilum. Með 33. gr. laganna er lögreglunni heimilt að fresta niðurfellingu réttinda í kjölfar mats lögreglu á aðstæðum viðkomandi. Dæmi eru um að viðkvæmir hópar sem eiga að vera undanskildir þjónustusviptingu, þ.m.t. börn og fatlað fólk hafi verið svipt þjónustu.
ÖBÍ minnir íslensk stjórnvöld á að unnið er að lögfestingu samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks sem setur Íslandi ákveðnar lagalegar skuldbindingar gagnvart fötluðu fólki, þ.m.t. fötluðu fólki á flótta. Jafnframt hefur Ísland lögfest barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna sem skuldbindur Ísland til að tryggja mannréttindi fatlaðra barna, barna á flótta og þar með talið fatlaðra barna á flótta. ÖBÍ krefst þess að stjórnvöld viðhafi gagnsæi um verklag við mat á fötlun fólks á flótta og tryggi að fatlað fólk á flótta og fötluð börn á flótta séu ekki þjónustusvipt þvert gegn ákvæðum laga 80/2016.
ÖBÍ áskilur sér rétt til að koma á framfæri frekari athugasemdum á seinni stigum.
Ekkert um okkur án okkar!
Með vinsemd og virðingu,
Þuríður Harpa Sigurðardóttir
formaður ÖBÍ
Kjartan Þór Ingason
verkefnastjóri ÖBÍ
Útlendingar (afnám þjónustusviptingar)
113. mál, lagafrumvarp.
Umsögn, 4. október 2023