„Breytingartillagan er nokkuð óljós og ekki ljóst hvernig ætti að framkvæma hana og tryggja að fólk sem fær búsetuskertar greiðslur fái 100% réttinda sinna.“
Umsögn ÖBÍ um frumvarp til laga um almannatryggingar (skerðing á lífeyri vegna búsetu), þingskjal 44 – 44. mál.
ÖBÍ réttindasamtök taka heilshugar undir mikilvægi þess að tryggja mun betur rétt þeirra sem ekki ná 40 ára búsetu á Íslandi á aldrinum 16-67 ára til framfærslu og draga úr þeim ójöfnuði sem viðgengst.
Frá september 2008 til apríl 2022 var lágmarkstrygging fyrir örorku- og endurhæfingarlífeyristaka skert út frá reglugerðarákvæði. Í dómum á öllum dómstigum, síðast með dómi Hæstaréttar dags. 6. apríl 2022, komust dómstólar að þeirri niðurstöðu að óheimilt hefði verið að skerða sérstaka framfærsluuppbót þar sem reglugerð ráðherra hefði skort lagastoð. Tveimur dögum eftir dóm Hæstaréttar var ákvæði reglugerðarinnar, sem mælir fyrir um að sérstök uppbót vegna framfærslu örorku- og endurhæfingarlífeyrisþega skuli reiknað í samræmi við búsetuhlutfall, afnumið. Tryggingastofnun hóf í maí sl. að leiðrétta greiðslur framfærsluuppbótar í samræmi við dóminn og reglugerðarbreytinguna, ennþá er beðið leiðréttingar afturvirkt. Dómurinn er mikilvægur því hann tryggir að greiðslur til örorku- og endurhæfingarlífeyristaka sem einungis eru með tekjur frá Tryggingastofnun fari ekki undir skilgreind lágmörk sem fram koma í 13. gr. reglugerðar nr. 1200/2018. Núverandi viðmið eru 288.283 kr. án heimilisuppbótar og 362.478 kr. með heimilisuppbót. Sérstök uppbót vegna framfærslu er hækkuð til að ná upp í lágmörkin. Framfærsluuppbótin skerðist frá fyrstu krónu vegna skattskyldra tekna og er skerðingarhlutfallið 65% af tekjum fyrir skatt.
Í umsögn ÖBÍ við fyrri framlagningu frumvarpsins var komið inn á breytingar og stöðuna í kjölfar álits umboðsmanns Alþingis nr. 8955/2016 frá 18. júní 2018. Ári eftir að álitið var birt var sett af stað vinna hjá Tryggingastofnun við að leiðrétta þær skerðingar sem fólk hafði orðið fyrir vegna ólögmætra búsetuskerðinga. Tímabil leiðréttingar í kjölfar álitsins var aðeins fjögur ár aftur í tímann frá áliti umboðsmanns, eða til júní 2014 þrátt fyrir að fyrir liggi og óumdeilt sé, að hinn rangi útreikningur búsetuhlutfalls hefur staðið yfir frá maí 2009.
Eins og fram kemur í greinargerð með frumvarpinu stendur enn eftir „að í fjölmörgum tilvikum viðgangast umfangsmiklar skerðingar á lífeyri almannatrygginga vegna búsetu lífeyrisþega erlendis.“
Enn eru allir umsækjendur um örorkulífeyri sem hafa verið búsettir innan EES svæðisins og eru að koma „nýir inn í kerfið“ settir undir framkvæmd og útreikningsreglu Tryggingarstofnunar fyrir búsetuhlutfall sem samkvæmt ofangreindu áliti umboðsmanns Alþingis er röng. Auk þess hefur einstaklingum sem hafa verið með 75% örorkumat hjá TR árum saman ekki verið bent á að sækja um örorkulífeyri hjá fyrra búsetulandi fyrr en mál þeirra eru tekin til endurskoðunar hjá TR vegna leiðréttingar búsetuhlutfalls. Þá hefst bið eftir gögnum og niðurstöðum frá fyrra búsetulandi. Þessum einstaklingum er gert að bíða eftir endurskoðun og leiðréttingu þar til svör hafa borist frá fyrra búsetulandi um það hvort viðkomandi eigi rétt á greiðslum vegna örorku í því landi. Getur biðtíminn verið mjög langur eða nokkur ár. Á meðan beðið er þurfa þessir einstaklingar að framfleyta sér á mjög skertum greiðslum frá Tryggingastofnun og fjárhagsaðstoð sveitarfélaga til framfærslu, ef sá réttur er til staðar.
Eftir breytingu á greiðslukerfi almannatrygginga fyrir ellilífeyristaka, gildistöku laga nr. 74/2020 og dóms Hæstaréttar í máli nr. í máli nr. 52/2021 er staða ellilífeyristaka annars vegar og örorku- og endurhæfingarlífeyristaka hins vegar ólík þegar kemur að áhrifum fyrri búsetu erlendis á greiðslur almannatrygginga. Ellilífeyristakar sem ekki eiga rétt á greiðslum frá erlendu ríki vegna búsetu sinnar þar geta fengið félagslegan viðbótarstuðning sem nemur allt að 90% af fjárhæð fulls ellilífeyris, að uppfylltum ströngum skilyrðum laganna. Dómur Hæstaréttar í máli nr. 52/2021 tryggir að greiðslur frá Tryggingastofnun til örorku- og endurhæfingarlífeyristaka í sömu stöðu fari ekki undir áðurnefnd viðmið í 13. gr. reglugerðar nr. 1200/2018.
Breytingartillagan er nokkuð óljós og ekki ljóst hvernig ætti að framkvæma hana og tryggja að fólk sem fær búsetuskertar greiðslur fái 100% réttinda sinna.
Ekkert um okkur án okkar!
Þuríður Harpa Sigurðardóttir
formaður ÖBÍ
Sigríður Hanna Ingólfsdóttir
félagsráðgjafi ÖBÍ
Umsögn ÖBÍ send 28. október 2022 til Nefndasviðs Alþingis: Velferðarnefndar. Heiti máls: Almannatryggingar (skerðing á lífeyri vegna búsetu). 44. mál, lagafrumvarp.