Skip to main content
Umsögn

785. mál. Félög til almannaheilla. 23. maí 2019

By 13. júní 2019No Comments
Nefndasvið Alþingis
Austurstræti 8-10
150 Reykjavík
 
Reykjavík, 23. maí 2019

Efni: Umsögn Öryrkjabandalags Íslands (ÖBÍ) vegna frumvarps til laga um félög til almannaheilla. 149. Löggjafarþing 2018-2019. Þingskjal 1245 – 785. Mál. Stjórnarfrumvarp.

Almennt

ÖBÍ er heildarsamtök fatlaðs fólks á Íslandi, regnhlifarsamtök yfir félög fatlaðs fólks, aðstandenda og langveikra á Íslandi. Undir regnhlíf bandalagsins eru 43 félög, öll mismunandi að stærð og styrk.  Heildarfélagafjöldi er rúmlega 40.000 manns.
ÖBÍ tekur undir það sjónarmið að skilgreindur lagalegur rammi utan um félög til almannaheilla getur orðið til þess að byggja upp jákvætt orðspor og auðvelda fyrir starfi þeirra. Lögunum er ætlað að tryggja að félög geti fengið ákveðin gæðastimpil fyrir starf sitt. Þó verður sérstaklega að hafa í huga að gæðastimpill félaga byggir ávallt á starfi þeirra og orðspori. 

Hafa verður í huga að lögin og framkvæmd þeirra í kjölfarið fari ekki gegn félagafrelsisákvæði stjórnarskrárinnar

Á Íslandi er félagafrelsi eitt af grundvallaratriðum réttarskipaninnar. Félagafrelsi er eitt af grundvallaratriðum allra réttarríkja. Félagafrelsi er verndað í 74. gr. stjórnarskrárinnar og 11. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994 um mannréttindasáttmála Evrópu. Kjarni félagafrelsis er að fólk geti myndað félög í sérhverjum löglegum tilgangi. Í ljósi þessa telur ÖBÍ ákaflega mikilvægt að það sé algerlega tryggt að frumvarpið og framkvæmd laganna, verði frumvarpið að lögum, verði ekki til þess að þrengja að frjálsum félögum á landinu og að ramminn sem settur verður utan um almannaheillafélög verði ekki íþyngjandi. Hér má sérstaklega líta til þeirrar stöðu að félög einstaklinga með sjaldgæfa sjúkdóma verða eðli sínu samkvæmt aldrei fjölmenn, en tilgangur þeirra ákaflega mikilvægur, hætta er á að lög sem þessi geti reynst slíkum lögum erfið. Lögin mega alls ekki verða til þess að fólk geti ekki, í framkvæmd, stofnað félög til almannaheilla án þess að þurfa að verða við óraunhæfum kröfum.
 
Í þessu samhengi er mikilvægt að þingnefndin taki til sérstakrar skoðunar umsögn SÍBS, sem er eitt af aðildarfélögum ÖBÍ. Þar er farið yfir möguleg íþyngjandi ákvæði laganna og þar er bent á ákaflega mikilvæg atriði sem nefnin verður að taka til skoðunar.

Umræða um frumvörp um efnið

Öll þau frumvörp sem hafa komið fram til laga um félög til almannaheilla hafa sætt gagnrýni og verið umdeild. Á þessu frumvarpi er að sjá jákvæðar breytingar sem gerðar hafa verið og lúta þær að því að hafa rammann ekki íþyngjandi.
 
Þau efnisatriði sem helst hafa komið upp í umræðu varðandi framkomin frumvörp eru kröfur um að öll félög þurfi að greiða fyrir sérstaka endurskoðun á reikningum sínum. Mikilvægt er að hafa í huga að kröfur sem þessar geta komið litlum félögum ákaflega illa. Ákvæði um persónulega ábyrgð stjórnarmanna þarf einnig að huga sérstaklega að. Jafnframt hefur komið fram gagnrýni á hvernig fara eigi með sölu fasteigna hjá félögum. Í þessu samhengi er mikilvægt að félögum sjálfum verði treyst fyrir að haga sínum fjármálum, það á meðal sölu fasteigna með þeim hætti sem best hentar hverju félagi.

Að lokum

Frumvarpið byggir á jákvæðri hugmynd um að tryggja faglegan grunn félaga um almannaheill. Efnahags- og viðskiptanefnd er þó hvött sérstaklega til þess að huga mjög vel að efni frumvarpins og tryggja að frumvarpið nái tilgangi sínum.
 
Ekkert um okkur án okkar.
 
Með vinsemd og virðingu,
Þuríður Harpa Sigurðardóttir
Formaður ÖBÍ