Skógarhlíð 6
Reykjavík, 14. maí 2020
Umsögn Öryrkjabandalags Íslands (ÖBÍ) um frumvarp til laga um breytingu á lögum um mannvirki nr. 160/2010 (flokkun mannvirkja og eftirlit með mannvirkjagerð)
Í greinargerð segir að með “því að innleiða flokkun mannvirkja mætti gera framkvæmdarferlið einfaldara og styttra, með minna eftirliti, fyrir þau mannvirki sem teljast minniháttar samkvæmt flokkun en hafa ferlið ítarlegra, með auknu eftirliti, fyrir þau mannvirki sem teljast til að mynda flókin og samfélagslega mikilvæg” (bls. 7).
Ekki er skýrt nánar hvaða mannvirki gætu talist meiri- eða minniháttar, en ef reynslan er einhver vísbending kæmi ekki á óvart ef flest mannvirki teldust minniháttar enda hefur atvinnulífið þrýst mjög á um minna eftirlit og aukið svigrúm til að byggja ódýrt og fljótt án mikilla afskipta. Sagt er að stefnt verði að því að útfæra flokkun mannvirkja í nánu samráði við hagsmunaaðila og önnur stjórnvöld. Krafa okkar er að fulltrúar almennings, þess fólks sem á eftir að nota mannvirkin, ekki síst helstu samtök fatlaðs fólks sem hafa mikilla hagsmuna að gæta, komi að þeirri ákvarðanatöku frá fyrstu stigum.
Rétt er að geta þess að Öryrkjabandalagi Íslands hefur ítrekað verið haldið utan við slíka áætlunarvinnu og hvorki fengið sæti á Byggingarvettvanginum né í átakshópi um aukið framboð á íbúðum og aðrar aðgerðir til að bæta stöðu á húsnæðismarkaði.
Þorri mannvirkja sem byggður er á að vera aðgengilegur öllum og algild hönnun höfð í hávegum, skv. ákvæðum byggingarreglugerðar nr. 112/2012. Síðari breytingar hafa það sameiginlegt að þrengt hefur verið að þessum skilyrðum og kannski ætti skilgreiningin frekar að vera aðgengi fyrir flesta oftast. Þessi ákvæði eru svo ítrekað brotin án afleiðinga sem sýnir hversu eftirlitið er máttlaust í raun. Þess vegna er mjög ámælisvert að fallið hafi verið frá áætlunum um að fela óháðum skoðunarstofum eftirlit með byggingarframkvæmdum eins og stefnt hefur verið að lengi. Nálægð leyfisveitanda við verktaka og sveitarfélagið sem bæði hafa hagsmuni af því að mannvirkið rísi hratt getur aukið til muna líkurnar á að ýmislegt sé látið fljóta sem ekki er gert ráð fyrir í löggjöfinni. Þess verður þó að gæta að álagið á embættin er gríðarlegt og fæst hafa bolmagn til að sinna öllum sínum skyldum eins og æskilegt væri.
Helsta vandamálið í kerfinu í dag er þó sjálfsagt samspil öryggis- og lokaúttektar. Þegar öryggisúttekt hefur verið gerð mega líða þrjú ár fram að lokaúttekt, en þar sem byggingarstjóri skal skv. reglum óska eftir lokaúttekt frekar en að leyfisveitandi gangi á eftir henni getur hún dregist langt fram yfir þann tíma. Í stuttu máli sagt er hægt að taka mannvirki í notkun, þ.m.t. flytja inn í það, að lokinni öryggisúttekt, en ákvæði um algilda hönnun þurfa ekki að vera uppfyllt fyrr en að fenginni lokaúttekt. Það þýðir að nýbygging getur verið óaðgengileg fötluðu fólki í mörg ár þrátt fyrir að við höfum undirgengist skyldu um að jafna aðgang fólks að samfélaginu. Viðkvæði hönnuða og byggingarfulltrúa við aðfinnslum er oft að lokaúttekt sé ekki búin, þ.e. að aðgengi muni verða í lagi eftir x mörg ár, rétt eins og að þá muni útidyratröppur skyndilega víkja fyrir römpum, háir þröskuldar verði fjarlægðir, veggir færðir til svo hægt sé að snúa sér í hjólastól, lyfta verði sett í stokk og sjálfvirkur opnunarbúnaður við allar dyr í almenningi. Í millitíðinni á fólk sjálfsagt að bíða fyrir utan. Það er afar mikilvægt að breyta löggjöfinni svo að ákvæði um algilda hönnun séu uppfyllt við öryggisúttekt.
Það er gott skref að haft verði eftirlit með gæðastjórnunarkerfum í rafrænni byggingargátt þar sem einnig verður hægt að koma að athugasemdum, sbr. 3. gr. Vonandi verður eftirlit Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar með leyfisveitingum og byggingingarframkvæmdum aukið frá því sem var, en eftirlit gömlu Mannvirkjastofnunarinnar með því að ákvæði um algilda hönnun væru virt hefur ekki verið áberandi gegnum árin. Það skýtur þó skökku við að stofnunin á ekki að framkvæma eftirlit með gæðastjórnunarkerfum heldur er gert ráð fyrir að “eftirlitsskyldir aðilar afl[i] úttekta frá faggiltum skoðunar- eða vottunarstofum eftir atvikum.” (um 3. gr. í greinargerð, bls. 7). Enn er eftirlitsskyldum aðilum fengin sú ábyrgð að halda utan um eftirlit með sjálfum sér og sínum verkum, sem gerir eftirlit jafnan bitlítið eins og dæmin sanna.
Umsögn þessi var kynnt fyrir Landssamtökunum Þroskahjálp sem óskuðu eftir að í umsögninni kæmi fram að samtökin eru fullkomlega sammála því sem fram kemur í henni og skora á hlutaðeigandi stjórnvöld að taka athugasemdir, ábendingar og tillögur sem settar eru fram í umsögnninni til viðeigandi og vandaðrar umfjöllunar í samstarfi og samráði við fatlað fólk og samtök sem vinna að réttinda- og hagsmunamálum þess.
- bandalagið taki þátt í vinnu starfshóps um að útfæra flokkun mannvirkja
- ákvæði um algilda hönnun mannvirkja verði uppfyllt við öryggisúttekt
- Húsnæðis- og mannvirkjastofnun taki upp virkt eftirlit með leyfisveitingum og byggingarframkvæmdum
Ekkert um okkur án okkar
Með vinsemd og virðingu,
Þuríður Harpa Sigurðardóttir
formaður ÖBÍ