Skip to main content
Umsögn

Umsögn ÖBÍ um fjárlagafrumvarp 2020

By 28. október 2019No Comments

Alþingi                                                                                 

Nefndasvið
Austurstræti 8-12

150 Reykjavík

 

Reykjavík, 25. október 2019

Efni: Umsögn Öryrkjabandalags Íslands (ÖBÍ) um frumvarp til laga um fjárlög 2020, þingskjöl 1-3, mál 1-3.

Öryrkjabandalag Íslands sendir hér með umsögn um frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2020.

Fjárlögin skipta gríðarlegu máli fyrir fatlað fólk enda koma þau meira eða minna inn á alla málaflokka sem varða þennan fjölbreytta hóp fólks. Eftir fullgildingu samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks (SRFF) eru íslensk stjórnvöld skuldbundin til að vinna lög sem þessi í samráði við fatlað fólk, sbr. 3. tölul. 4. gr. samningsins.

Fjárlögin valda vonbrigðum.

ÖBÍ telur gríðarlega mikilvægt að lífeyrir almannatrygginga verði hækkaður verulega og að unnið skuli að gjaldfrjálsri heilbrigðisþjónustu.

Allir málaflokkar sem varða fatlað fólk og örorkulífeyrisþega eru sveltir, og þrátt fyrir að stjórnvöld tali fjálglega um kaupmáttaraukningu öryrkja og að verulegu fjármagni hafi verið bætt við málaflokka fatlaðs fólks og öryrkja þá vantar enn stórlega upp á að fólk geti lifað með reisn í íslensku samfélagi. Afar brýnt er að litið verði sérstaklega til mannréttinda þessa hóps. Íslenska ríkinu ber að tryggja samfélag án mismununar, samfélag þar sem fatlað og langveikt fólk á rétt til lífs til jafns við aðra. Til þess að svo megi verða þarf að gera ráð fyrir verulegri aukningu fjármagns inn í alla málaflokka er varða fatlað fólk.

SRFF var fullgiltur haustið 2016.  Mikilvægt er að tryggja fjármagn sérstaklega til innleiða samninginn í íslenskan rétt. Samningurinn felur m.a. í sér skyldu ríkisins til þess að huga sérstaklega að stöðu fatlaðs fólks við alla lagagerð, ekki síst í fjárlagagerð. Það veldur því sérstökum vonbrigðum að sjá að ekki er bætt í þrátt fyrir ríka þörf, sá beini niðurskurður sem lagður er til með frumvarpinu er óásættanlegur. Tryggja verður einnig fjármagn til fjölgunar NPA samninga, sem eru fyrir marga lykillinn að því þeir getir notið réttar síns til sjálfstæðs lífs, sbr. 19 gr. samningsins. 


1.  Örorka og málefni fatlaðs fólks (27)

Bætur skv. lögum um almannatryggingar, örorkulífeyrir (27.1)

Í fjárlagafrumvarpi ársins 2020 er lögð til 3,5% hækkun lífeyris, sem þýðir í raun 8.651 kr. hækkun óskerts lífeyris, eða úr 247.183 kr. í 255.834 kr.  Í sama frumvarpi er áætluð hækkun launavísitölu  5,5%. Í “Lífskjarasamningunum” er skýrt ákvæði um launaskriðstryggingu sem á að hækka taxta í samræmi við launaskrið í samfélaginu. Ákvæði samninganna um launaskriðstryggingu og hagvaxtarauka hafa ekki verið höfð til hliðsjónar við ákvörðun um hækkun lífeyris almannatrygginga. Hérna er valin sú leið að mismuna lífeyrisþegum, samanborðið við fólk á vinnumarkaði. Þar að auki er 3,5% hækkun ekki í samræmi við 69. gr. laga um almannatryggingar.

Í fjárlagafrumvarpinu er lagt til að raunlífskjarabati lífeyrisþega verði enginn, með 3,5% hækkun þegar vísitala neysluverðs er áætluð 3,4% á þessu ári og 3,2% árið 2020. Hækkanirnar sem lagðar eru til munu ekki ná þeim markmiðum sem lagt er upp með í áherslum ríkisstjórnarinnar um að fólk skuli lifa innihaldsríku og sjálfstæðu lífi með tækifærum til þátttöku í samfélaginu til jafns við aðra.

Í frumvarpinu er gert ráð fyrir samtals 1.100 m. kr. vegna kerfisbreytinga og til að bæta kjör öryrkja. Óljóst er hvernig verja á þessum fjármunum. Til að bæta kjör öryrkja þarf umtalsvert meira fjármagn en 1.100 m.kr. og er ljóst að þessi fjárhæð dugar skammt fyrir málaflokk sem sveltur hefur verið áratugum saman.

Óskertur lífeyrir almannatrygginga hækki verulega

Enn eitt árið eykst gjáin milli örorkulífeyris og lágmarkslauna. Það er ömurlegt að við Íslendingar höfum ákveðið að sumum okkar skuli haldið í sárafátækt lífið á enda. Þó forsætisráðherra vilji ekki biðja fátækt fólk að bíða eftir réttlætinu, bíður það enn. Aðalfundur Öryrkjabandalagsins skoraði á þjóðina að beita sér fyrir því að biðinni ljúki nú þegar. Það veit enginn hver þarf næst að reiða sig á smánarlegan örorkulífeyri [1].

Á árinu 2008 skildu leiðir lágmarkslauna og óskerts örorkulífeyris. Árið 2019 er örorkulífeyrir  70 þúsund kr. lægri en lágmarkslaun. Í því fjárlagafrumvarpi sem liggur nú fyrir Alþingi er enga breytingu að sjá og því mun bilið aukast enn eða um 90 þúsund kr. á mánuði á næsta ári.  

Örorkulífeyrir hefur dregist mikið aftur úr eins og sjá má á mynd 1-3 hérna fyrir neðan.[2]

Mynd 1 

Línurit -- Þróun fjárhæða óskerts örorkulífeyris, lágmarkslauna og atvinnuleysisbóta samanburður.

Mynd 2

Súlurit: Krónutöluhækkanir frá 2009 til 2018 upphæðir á mánuði fyrir skatt samanburðurÞá er það nöturlegur samanburður að bera saman hækkanir atvinnuleysisbóta, lágmarkslauna og örorkulífeyris síðustu ár eða frá 2014 til 2020 en á tímabilinu hafa grunnatvinnuleysisbætur náð að halda nokkurn vegin í við lágmarkslaun á meðan örorkulífeyrir hefur hækkað umtalsvert minna. Örorkulífeyrisþegar hafa oftar en ekki mikinn viðbótarkostnað vegna fötlunar sinnar og/eða sjúkdóma auk þess sem um er að ræða framfærslu fólks áratugum saman. 

Mynd 3

Súlurit: Krónutöluhækkanir frá 2014 til 2020

Upplýsingar um árið 2020 miðast við fjárlagafrumvarp ársins 2020.
 

Atvinnuleysisbætur hafa árum saman hækkað um sömu prósentutölu og lífeyrir almannatrygginga. Með  frumvarpinu er lagt til að sú 19% hækkun sem varð á atvinnuleysisbótum 1. maí 2018 skuli enn ekki eiga að ganga til lífeyrisþega.  Bilið á milli grunnatvinnuleysisbóta og óskerts örorkulífeyris hefur aukist mjög, er nú rúmar 32 þúsund kr. á mánuði og kemur til með að aukast um 1.000 krónur um áramót. Þykir það skjóta skökku við að grunnatvinnuleysisbætur, sem hugsaðar eru sem skammtímaúrræði, séu umtalsvert hærri en lífeyrir almannatrygginga sem hugsaður er sem langtímaúrræði fyrir einstaklinga sem margir hverjir eiga ekki nokkurn kost á bæta hag sinn. Það er umhugsunarefni á hvaða vegferð ríkisstjórnin og Alþingi eru, þegar svo augljóslega og freklega er gengið fram hjá lífeyrisþegum.

Hækkun krónutöluskatta- og gjalda

Í frumvarpinu er lagt til að hækka eigi tiltekna liði um 2.5%, í ljósi þess að frumvarpið gerir ráð fyrir að verðbólga verði yfir verðbólgumarkmiði Seðlabankans er hér lagt til að þessar hækkanir verði teknar út til þess að verðbólgumarkmið náist.

Þá verður einnig að hafa í huga að krónutölugjöld eru flatir skattar sem leggja sömu gjöld í krónum talið á þann sem hefur mjög lágar tekjur og þann sem hefur mjög háar tekjur. Þannig leggjast sömu gjöld á örorkulífeyrisþega og alþingismenn og ráðherra. Þessar hækkanir hafa því mun meiri áhrif á tekjulága en þá sem meira hafa milli handanna og ganga þvert á markmið boðaðra breytinga á tekjuskattskerfinu sem ætlað er að jafna skattbyrði með því að lækka skatta þeirra lægstlaunuðu.

Áhrif fyrirhugaðra skattkerfisbreytinga í fjárlögum á lágtekjufólk

Í fjárlagafrumvarpinu er því haldið fram að allt frá árinu 2013 hafi lækkun skatta á einstaklinga verið forgangsmál stjórnvalda og að ráðstöfunartekjur hafi stóraukist.  Rannsóknir hafa hins vegar sýnt að lágtekjufólk hefur borið sífellt þyngri skattbyrði síðustu árin og því er þessi staðhæfing röng með tilliti til lágtekjufólks.[3] Í frumvarpinu er því ennfremur haldið fram að nýtt skattkerfi muni létta til muna skattbyrði lág- og millitekjufólks og að lækkun á tekjuskatti einstaklinga sé umfangsmikil í þágu þeirra tekjulægstu.

Hver er upphæð þeirra skattalækkunar sem örorkulífeyrisþegar geta vænst árið 2020, ef  fjárlagafrumvarpið verður að lögum?

Örorkulífeyrisþegi með óskertan örorkulífeyri, 247.183 kr. á mánuði fyrir skatt, greiðir 34.862 kr. í tekjuskatt og útsvar árið 2019 eða 14% tekna sinna. Ef lífeyrir almannatrygginga hækkar um 3,5% (eða í 255.834 kr.), skattprósentan lækkar í 35,04% og persónuafsláttur  lækkar í 55.364 kr. í byrjun árs 2020 mun hann greiða 34.280 kr í skatt eða 13% tekna sinna. Ráðstöfunartekjur hans vegna skattkerfisbreytinganna munu því einungis aukast um 582 kr. á mánuði eða 6.984 kr. á árinu. Í fjárlagafrumvarpinu segir ennfremur að nýtt skattkerfi sé í þágu þeirra tekjulægri og muni létta til muna skattbyrði lágtekju- og millitekjuhópa. Áhrif skattkerfisbreytinganna fyrir örorkulífeyrisþega og aðra með mjög lágar tekjur er hverfandi, eins og sjá má á töflu 1.

Tafla 1. Áhrif skattkerfisbreytingar fyrir og eftir hækkun fyrirhugaðar hækkun tekna á milli ára.

 

Tegund tekna
Fjárhæð á mánuði
Skatt%
Persónu-
afsláttur
Greiddur
Skattur
Útborgað
Skattur sem hlutfall tekna
Hækkun ráðstöfunar-tekna vegna skattkerfisbreytinga.

2019

Fjárhagsaðstoð*

185.000

36,94%

56.447

11.892

173.108

6%

 

2020

Fjárhagsaðstoð

191.475

35,04%

55.364

11.729

179.476

6%

164 kr.

2019

Óskertur örorkulífeyrir

 

247.183

 

36,94%

 

56.447

 

34.862

 

212.321

 

14%

 

2020

Óskertur örorkulífeyrir

 

255.183

 

35,04%

 

55.364

 

34.280

 

221.554

 

13%

 

582 kr.

2019

Óskertur örorkulífeyrir með heimilisuppbót*

 

 

 

310.800

 

 

 

36,94%

 

 

 

56.447

 

 

 

58.363

 

 

 

252.473

 

 

 

19%

 

2020

Óskertur örorkulífeyrir með heimilisuppbót**

 

 

 

321.678

 

 

 

35,04%

 

 

 

55.364

 

 

 

57.352

 

 

 

264.326

 

 

 

18%

 

 

 

1.011 kr.

*Sveitarfélögin taka ákvörðun um fjárhæðir fjárhagsaðstoðar. Fjárhæðir fyrir einstaklinga eru bilinu um 150 til 200 þúsund kr. á mánuði. Í töflunni er fjárhagsaðstoðin hækkuð um 3,5% fyrir árið 2020.

**Einungis 29% öryrkja fær greidda einhverja heimilisuppbót.

Frítekjumörk

Í frumvarpi til fjárlaga 2020 er ekki að finna nein áform um að draga úr tekju- skerðingum á greiðslum til örorku- eða endurhæfingarlífeyrisþega. Frítekjumörk atvinnutekna í lögum um almannatryggingar hafa verið óbreytt frá árinu 2009.

Í umsögnum síðustu ára hefur ÖBÍ ítrekað mikilvægi þess að halda inni frítekjumarki vegna atvinnutekna örorkulífeyrisþega og lögfesta það. Frítekjumark á atvinnutekjur hvetur örorkulífeyrisþega sem hafa vinnufærni, til atvinnuþátttöku í því skyni að auka virkni sína og bæta kjör. Á meðan frítekjumarkið stendur í stað og laun á vinnumarkaði hækka, þá skila launahækkanir sér ekki til örorkulífeyrisþega. Ef frítekjumark vegna atvinnutekna hefði hækkað í samræmi við hækkun launavísitölu frá árinu 2009, væri frítekjumarkið komið yfir  207.000 kr. á mánuði í stað 109.600 kr.

Tillaga að breytingu:

  • Frítekjumark vegna atvinnutekna örorkulífeyris verði hækkað að lágmarki upp í 207 þúsund kr. í samræmi við hækkun launavísitölu frá árinu 2009.

Desember- og orlofsuppbætur

Desemberuppbót til lífeyrisþega hefur hækkað mun minna en hjá launafólki og atvinnuleitendum og er upphæðin mun lægri eins og sjá má á mynd 4. 

Mynd 4

Súlurit - Upphæðir desemberuppbótar til lífeyrisþega, ríkisstarfsmanna og atvinnuleitenda 2014 til 2018

Mikilvægt er að hafa í huga að einungis hluti lífeyrisþega fær desember- og orlofsuppbætur óskertar þar sem þær eru reiknaðar sem hlutfall af tekjutryggingu og heimilisuppbót, en einungis um 29% örorkulífeyrisþega fá greidda heimilisuppbót. Lífeyrissjóðir greiða ekki orlofs- eða desemberuppbót. Hluti lífeyrisþega fær því enga eða mjög skerta desember- og orlofsuppbót.

Tillögur að breytingum:

  • Desemberuppbót til lífeyrisþega verði hækkuð þannig að óskert desemberuppbót til lífeyrisþega (án heimilisuppbótar) verði að minnsta kosti jafnhá uppbót atvinnuleitenda árið 2020.

  • Ákvæði um orlofsuppbót lífeyrisþega verði endurskoðað og hækkað í samræmi við upphæð orlofsuppbótar í samningi SA og ASÍ.

Víxlverkun örorkugreiðslna almannatrygginga og lífeyrissjóða

Í frumvarpinu er lagt til að framlengja bráðabirgðaákvæði til að koma í veg fyrir víxlverkun milli örorkugreiðslna frá almannatryggingum annars vegar og frá lífeyris-sjóðum hins vegar. Bráðabirgðaákvæði þetta hefur verið í gildi frá 1.1.2014. 

Á meðan ekki hefur verið fundin framtíðarlausn í málinu, er slíkt bráðabirgðaákvæði nauðsynlegt til að koma í veg fyrir að lífeyrissjóðsgreiðslur til örorkulífeyrisþega lækki enn frekar eða falli jafnvel niður. Allt frá árinu 2009 hefur ÖBÍ lagt áherslu á að fundin verði framtíðarlausn sem ver hagsmuni allra örorkulífeyrisþega.

Tillaga að breytingu:

  • Alþingi setji lög til að koma í veg fyrir að lífeyrissjóðir skerði greiðslur til örorkulífeyrisþega með hliðsjón af tekjum frá TR.

Bætur skv. lögum um félagslega aðstoð, örorka

Reglugerðarákvæði kemur í veg fyrir að öllum lífeyrisþegum sé tryggð lágmarksfjárhæð til framfærslu

Öryrkjabandalag Íslands (ÖBÍ) hefur staðið í áralangri baráttu fyrir þá einstaklinga sem hafa fengið skertar greiðslur vegna ólöglegra aðferða Tryggingastofnunar við svokallaðan búsetuútreikning.

ÖBÍ hefur í áraraðir einnig bent að búsetuútreikningur sérstakrar framfærsluuppbótar byggir á reglugerðarákvæði sem á sér enga lagastoð. Lög nr. 99/2007, um félagslega aðstoð, hafa meðal annars það hlutverk að tryggja að heildartekjur lífeyrisþega séu ekki undir ákveðnum skilgreindum framfærsluviðmiðum. Sérstök framfærsluuppbót er greidd þegar tekjur eru undir framfærsluviðmiði til þess að heildartekjur nái upp í viðmiðið. Framkvæmd ákvæðisins hefur þó verið með þeim hætti að sérstaka framfærsluuppbótin hefur verið skert á grundvelli fyrri búsetu erlendis með sama hætti og aðrir bótaflokkar, þvert gegn tilgangi þess.

Þar er annað dæmi um mál þar sem einstaklingar hafa verið festir í sárafátækt án þess að slíkt byggi á lagastoðum. Einstaklingarnir hafa þurft að reiða sig á heildartekjur sem eru langt undir öllum tekjuviðmiðum, þar með talið framfærsluviðmiðum skv. lögum um félagslega aðstoð. Á árinu 2017 voru 92  lífeyrisþegar með heildartekjur undir 80.000 kr. á mánuði.

Í meðförum þingsins við frumvarp sem varð að lögum 97/2019, um breytingar á lögum um almannatryggingar og lögum um félagslega aðstoð, hafnaði Alþingi því að setja í lög ákvæði sem átti að festa þessa framkvæmd í sessi. Eðlilegt skref í framhaldinu hefði verið að Alþingi legði sérstaka fjármuni í að hífa þessa einstaklinga upp úr fátæktinni.

Búsetuskerðing sérstakrar framfærsluuppbótar byggir einungis á einu reglugerðarákvæði, sem auðvelt er að afnema. Lausnin er tæknilega einföld og fylgja lítil fjárútlát því að tryggja að þessir fáu einstaklingar séu ekki með heildartekjur undir framfærsluviðmiðinu.

Tillaga að breytingu:

  • Afnumið verði reglugerðarákvæði um búsetuskerðingu sérstakrar framfærsluuppbótar. Tryggja þarf fjármagn til að mæta þessari breytingu, sem mun nýtast lífeyrisþegum með lægstu heildartekjurnar.

Viðmið fyrir uppbætur á lífeyri

Í frumvarpi til fjárlaga er ekki ráðgert að hækka framlag fyrir frekari uppbætur skv. lögum um félagslega aðstoð nr. 99/2007. Tekjuviðmiðið var síðast hækkað fyrir nær fimm árum eða í byrjun árs 2015. Þrátt fyrir ákvæði í 12. gr. reglugerðar nr. 1052/2009 um breytingu árlega hefur tekjuviðmiðið verið óbreytt árum saman. Þetta hefur haft það í för með sér að sífellt fleiri lífeyrisþegar með mikinn aukakostnað vegna sjúkdóma eða fötlunar eru að fara á mis við uppbótina. Lítilsháttar hækkun tekna hafði í för með sér að þeir misstu uppbótina. Einstaklingum sem fengu uppbætur á lífeyri fækkaði úr 4.182 í 1.605 frá árinu 2009 til ársins 2018 ‚eða um 2.577, sem þýðir að aðeins rúmur þriðjungur  fær uppbótina nú. Gera má ráð fyrir að almennar hækkanir og leiðrétting búsetuhlutfalls hjá einstaklingum hafi fækkað þeim einstaklingum sem fá uppbætur, enn frekar á síðasta ári.

Ljóst er að þörf einstaklinga fyrir uppbæturnar hefur ekki minnkað með árunum, en á hverju ári hefur Alþingi tekið þá ákvörðun að koma ekki til móts við þarfir fólks. Á sama tíma er Alþingi skuldbundið af alþjóðasamningum að tryggja stöðugt bætt lífskjör fólks, en með því að hækka ekki viðmiðin hafa lífskjör þúsunda einstaklinga verið skert.

Brýn nauðsyn er að setja viðbótarfjármagn í þennan lið til að mæta hækkun tekju- og eignaviðmiða, en skv. 6. gr. reglugerðar nr. 1052/2009 segir að uppbætur þessar skuli taka breytingum á sama hátt og bætur og tekjumörk samkvæmt lögum um almannatryggingar.

Tillaga að breytingu:

  • Fjármagn fyrir frekari uppbætur verði hækkað til að mæta hækkun tekjuviðmiðs í 6. gr. reglugerðar nr. 1052/2009 í samræmi við árlega hækkun lífeyris almannatrygginga allt frá árinu 2015.  

Málefni fatlaðs fólks (27.3)

Samkvæmt frumvarpinu er heildarfjárheimild til málefna fatlaðs fólks fyrir árið 2020 áætluð 601 m.kr. og lækkar um 9.5 m.kr. frá gildandi fjárlögum. Þetta er ólíðandi. Mestu munar um 12.2 m.kr. lækkun framlaga til réttindagæslunnar. Þessi kafli frumvarpsins er með öllu óskýr og óljóst hvernig og í hvað fjármunum verður varið. Markmið kaflans eru þó nokkuð mörg og því nokkuð ljóst að endurskoða þarf það fjármagn sem áætlað er í málaflokkinn.

Tillaga um breytingu:

  • Sá niðurskurður sem lagður er til í þessu frumvarpi verði tekinn til baka og tryggt verði fjármagn í alla þá þætti sem undir liðinn falla. Bæta þarf töluverðu í málaflokkinn til þess að íslenska ríkið geti talið sig vera að vinna með sannfærandi hætti að SRFF og í samræmi við samninginn.

Sveitarfélög og byggðamál – Sjálfstætt líf

Réttur til sjálfstæðs lífs fatlaðs fólks er tryggður með 19. gr. SRFF. Sjálfstætt líf er best tryggt með notendastýrðri persónulegri aðstoð (NPA). NPA hefur verið bylting fyrir fatlað fólk. Afleiðing tafa löggjafans á lögfestingu NPA hefur verið sú að fötluðu fólki hefur ekki verið tryggður réttur til samfélagslegrar þátttöku eins og SRFF kveður á um. Fötluðu fólki er m.ö.o. mismunað. Þeim sem ekki fá þjónustuna er haldið eins og föngum heima hjá sér og geta ekki lifað sjálfstæðu lífi.

Réttur fatlaðs fólks til NPA var lögfestur með lögum nr. 38/2018. Í bráðabirgðaákvæði við lögin er fjöldi NPAsamninga takmarkaður til ársins 2022. Með þessu er ríkisvaldið að gera tilraun til þess að kvótasetja mannréttindi. Íslenska ríkið verður að fara að taka skuldbindingar sínar samkvæmt SRFF alvarlega, sem er m.a. að tryggja sjálfstætt líf alls fatlaðs fólks. Þegar einstaklingum er haldið frá því að ráða sínu lífi sjálfir er þeim haldið í stofufangelsum. Með frumvarpi að fjárlögum er enn og aftur verið að leggja til að halda fólki frá virkri þátttöku í samfélaginu.

Tillaga að breytingu:

  • Fjármögnun fyrir 172 samninga verði tryggð eða að viðbótar 150 milljónum verði úthlutað til að tryggja réttindi allra þeirra sem sótt hafa um NPA á árinu, og munu sækja um NPA á næsta ári. Í kjölfarið verði bráðabirgðaákvæði (nr. i) í lögum nr. 38/2018 lagt af.

Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks (SRFF)

Ísland varð aðili að SRFF með fullgildingu hans árið 2016. Í því felst skuldbinding ríkisins til þess tryggja öllu fötluðu fólki þann rétt sem í honum felst. Fjárlagafrumvarpið felur ekki í sér að ætlunin hafi verið að taka þessi mál sérstökum tökum og tryggja trúverðuga innleiðingu samningsins í íslenskan rétt og tryggja fötluðu fólki þá aðstoð og þjónustu sem fatlað fólk þarf á að halda. Þörf er á stórátaki í þessum málum.

Alþingi hefur einnig samþykkt þingsályktun sem tryggir að fyrir Alþingi muni liggja frumvarp um lögfestingu samningsins, eigi síðar en 13. desember 2020. Því þarf einnig að fylgja fjármagn.

Tillögur að breytingum:

  • Stórátak í mannréttindamálum verður að hefjast án tafar og leggja verður nægilegt fjármagn til þess.

  • Leggja verður til fjármagn til þess að tryggja að frumvarp til lögfestingar samningsins verði lagt fyrir Alþingi 2020.

Valfrjáls viðauki við samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks

Þegar SRFF var fullgiltur 20. september 2016 lagði Alþingi jafnframt fram þings-ályktunartillögu þess efnis að fullgilda valfrjálsan viðauka (e. optional protocol) við samninginn og var þingsályktunartillagan samþykkt samhljóða. Ekki er að sjá í frumvarpinu að gert sé ráð fyrir fjármagni í fullgildingu valfrjálsa viðaukans.

Tillaga að breytingu:

  • Fjármagn til fullgildingar valfrjálsa viðaukans verði tryggt.

2.  Vinnumarkaður (30)

Kveðið er á um réttinn til vinnu í 27. gr. SRFF. Þar segir að aðildarríkin verði að vinna að því að skapa inngildan vinnumarkað (e. inclusive employment market) sem stendur öllum opinn og er aðgengilegur. Tryggja verður stöðu allra einstaklinga, líka þeirra sem fatlast á þeim tíma sem þeir gegna starfi. Það skal gert m.a. með skýrri stefnumótun, lagasetningu og aðgerðum. Þörf er á stórsókn í þessum málum til þess að skapa vinnumarkað fyrir alla.

Nauðsynlegt er að skapaðar verði aðstæður þar sem einstaklingar með skerta starfsgetu verði hluti af hinum almenna vinnumarkaði. Einstaklingar með skerta starfsgetu hafa oft litla möguleika á að komast út á vinnumarkaðinn þar sem framboð af hlutastörfum, sveigjanlegum störfum og störfum þar sem viðeigandi aðlögun er í boði er mjög takmarkað.

Samkvæmt fjárlagaáætlun á að hefja átak til að finna störf fyrir fólk með skerta starfsgetu. Það er fagnaðarefni og í takt við stjórnarsáttmálann þar sem kemur fram að hið opinbera ætli að skipuleggja framboð hlutastarfa. Nauðsynlegt er að þau hlutastörf sem hið opinbera ætlar að ráðast í og þau störf sem átakið á að skila séu þverskurður af störfum í samfélaginu. Hafa verður í huga að fólk með skerta starfsgetu er eins ólíkt og það er margt og það er grundvallaratriði að fólk fái störf við hæfi þar sem hæfileikar, menntun, reynsla og styrkleikar þess nýtast sem best. Vinnusamningar öryrkja geta í vissum tilvikum aukið atvinnumöguleika fólks með skerta starfsgetu. Skerðingar TR eru þó það miklar í sumum tilvikum að fólk sér ekki hag í því að fara út á vinnumarkað. Dæmi eru um það að fólk hafi misst starf sitt þegar endurgreiðsluhlutfall lækkar og að launakjörum fólks sé haldið niðri til að koma í veg fyrir að samningurinn falli úr gildi. Gleðilegt er að koma eigi á samstarfi milli menntakerfisins og Vinnumálastofnunar um að styðja við atvinnuleit nemenda á starfsbrautum framhaldsskóla og nemenda sem stunda starfstengt diplómanám við Háskóla Íslands.

Tryggja þarf að fjárframlög til málaflokksins séu í samræmi við markmið hans. Það skýtur skökku við að þrátt fyrir fjármagn til vinnusamninga sé aukið lítillega, nægi það ekki til að standa undir núverandi samningum og að til standi að skerða fjármagn töluvert á komandi árum. Ekki er að sjá að fjármagn verði sett í að tryggja viðeigandi aðlögun fólks á vinnumarkaði.

Tillögur að breytingum:

  • Stofnaður verði sjóður sem atvinnurekendur geti fengið greitt úr ef kostnaður hlýst af viðeigandi aðlögun á vinnustað.

  • Innleitt verði hvatningakerfi fyrir fyrirtæki og stofnanir til að auka starfsmöguleika fólks með skerta starfsgetu.

  • Aukið fjármagn verði sett í að styðja atvinnuleit nemenda á starfsbrautum framhaldsskóla og nemenda við starfstengt diplómanám í Háskóla Íslands til að tryggja samfellu frá skóla út á vinnumarkað.

Starfsendurhæfingarsjóðir

Í frumvarpinu er lagt til að starfsendurhæfingarsjóðir fái ekki tekjur af tryggingagjaldi, en fái í staðinn  greiðslur af fjárlögum. Greiðslan sem greidd er af ríkinu er þá væntanlega ætlað að standa m.a. undir kostnaði við starfsendurhæfingu þeirra sem falla undir 9. gr. laga um atvinnutengda starfsendurhæfingu og starfsemi starfsendurhæfingarsjóða, það er örorkulífeyrisþega og fólks sem fær greiðslur á grundvelli laga um félagsþjónustu sveitarfélaga, og í raun alla þá sem uppfylla skilyrði þess að njóta starfsendurhæfingar.  Starfsendurhæfingarsjóðir verða þá að tryggja raunverulega atvinnutengda starfsendurhæfingu þeirra sem fá framfærslugreiðslur úr opinberum sjóðum og tryggja rétt þeirra til endurhæfingar. Oft sjáum við dæmi þess að fólki er synjað um þjónustu hjá starfsendurhæfingarsjóðum eða að þjónusta við einstaklinga er ekki nægileg.  Í því samhengi ítrekar ÖBÍ áður framkomnar athugasemdir um að einstaklingar sem koma til starfsendurhæfingarsjóðs njóta ekki kæruréttar til þess að tryggja rétt sinn til endurhæfingar ef þeim er synjað um þjónustu. Við því verður ríkissjóður að bregðast því framkvæmdin hefur valdið því að kerfi sem algerlega eru fjármögnuð af ríkinu taka á sig skyldur sem starfsendurhæfingarsjóðir ættu að sinna. Það, að einstaklingar njóta ekki kæruréttar, sem myndi fela í sér endurskoðun ákvarðana af óháðum aðila, er afar stór galli á núverandi kerfi og yrði ríkisvaldinu í hag ef slíkur kæruréttur yrði tryggður einstaklingum. Sá sem hefur ekkert að fela og vinnur faglega óttast ekki að ákvarðanir hans eru teknar til endurskoðunar.

Í þessu samhengi verður ÖBÍ jafnframt að taka fram að atvinnutengd starfsendurhæfing er hluti af allri þeirri endurhæfingu sem einstaklingar þurfa á að halda. Fjármagn ríkisins til málaflokksins verður að endurspegla þá staðreynd. Leggja verður frekara fjármagn í aðra endurhæfingu en svokallaða “atvinnutengda starfsendurhæfingu”.

Tillaga að breytingu:

  • Leggja verður frekara fjármagn í endurhæfingu í víðtækari skilningi en „atvinnutengda starfsendurhæfingu.

3.  Heilbrigðisþjónusta utan sjúkrahúsa (24)

Sálfræðiþjónusta og geðheilbrigðismál

Sálfræðiþjónusta er sjúkratryggðum einstaklingum afar dýr í dag, enda ekki niðurgreidd af ríkissjóði nema að litlu leyti. Afar margir neita sér því um sálfræðiþjónustu  t.d. við kvíða, depurð, þunglyndi, svefnleysi eða öðrum röskunum sem hafa áhrif á fjölskyldur viðkomandi og þar með margföldunaráhrif vandans. Afleiðing þess getur verið alvarlegri heilsufarsvandi en ella. Sálfræðimeðferð sem fyrsta íhlutun getur dregið úr innlögnum á sjúkrahús og lyfjanotkun. Þá er hún nauðsynleg í samhengi úrræða margra hópa, t.d. í meðferð við vefjagigt. Fleiri gætu haldið starfsgetu sinni og virkni.

Ekki er hægt að greina í áætluninni hversu há upphæð muni renna til sálfræðiþjónustu. Hins vegar er ljóst að ansi mikið verk er að vinna til að áætlanir stjórnvalda í geðheilbrigðismálum haldi áætlun. Bæta þarf aðgengi að sálfræðingum á heilsugæslustöðvum um land allt og þá er mikilvægt að sálfræðingar séu starfandi í skólum og fangelsum. Bæta þarf stórlega geðheilbrigðisþjónustu við einstaka hópa, s.s. fanga, fólk með þroskahömlun og aldraða.

Tillögur að breytingum:

  • Sálfræðiþjónusta verði felld undir þak greiðsluþátttöku í heilbrigðisþjónustu.
  • Fjármagn verði tryggt svo að geðheilsuteymi verði starfandi í öllum landshlutum árið 2020 og sálfræðingar á öllum heilsugæslustöðvum, fangelsum, grunn- og framhaldsskólum.

Sérfræðiþjónusta og hjúkrun (24.2)

Greiðsluþátttaka í heilbrigðisþjónustu

Í stjórnarsáttmála segir: „Ríkisstjórnin ætlar að draga úr greiðsluþátttöku sjúklinga í heilbrigðiskerfinu og gera það gagnsærra og skilvirkara. Þar þarf að meta árangur núverandi kerfis með hliðsjón af veikasta fólkinu og skoða þá þætti sem eru ekki hluti af því, t.d. ferða- og uppihaldskostnað, tannlækningar og sálfræðiþjónustu.“

Komið hefur í ljós að nýlegt greiðsluþátttökukerfi er dýrara fyrir suma sjúklingahópa en áætlað var og þá vantar mikið upp á að hlutdeild sjúklinga sé á pari við það sem gerist annars staðar á Norðurlöndunum. Í nýja kerfinu greiða lífeyrisþegar 2/3 af kostnaði almennra notenda heilbrigðisþjónustunnar, en hlutfallið var 30-50% í fyrra kerfi. Það er ekki í samræmi við yfirlýst markmið með kerfinu að draga úr kostnaði þeirra sem mest nota heilbrigðisþjónustu. Í fjárlagafrumvarpi 2020 hækka framlög um 300 m. kr. til að draga úr greiðsluþátttöku sjúklinga í heilbrigðiskerfinu, en samkvæmt áætlun um 800 m. kr. næstu fjögur ár á eftir. Það munar um 500 m. kr. og það er ekki fyllilega trúverðugt þegar skuldadögum er frestað.  

Tillögur að breytingum:

  • Ferða- og uppihaldskostnaður, tannlækningar, sálfræðiþjónusta verði þegar sett undir þak greiðsluþátttöku í heilbrigðisþjónustu.  

  • 800 m. kr. hækkun verði á fjárlögum til að draga úr greiðsluþátttöku sjúklinga í heilbrigðiskerfinu árið 2020.

Tannlækningar

Á fjárlögum ársins 2018 var lagt til 500 m. kr framlag til að mæta kostnaði við nýjan samning um tannlæknaþjónustu við örorku- og ellilífeyrisþega, en gjaldskrá endurgreiðslu hafði ekki hækkað frá árinu 2004. Gert var ráð fyrir að samningurinn myndi taka gildi um mitt árið en að kostnaður við að uppfylla hann yrði 1. ma. kr. á ári. Nýr samningur tók gildi 1. september 2018, en þá var ljóst að áætlaður kostnaður hafði verið mjög vanreiknaður og endurgreiðslur ná ekki 75% af gjaldskrá samningsins, heldur aðeins 50%. Þá stendur hópur notenda utan samningsins, sem glímir við afleiðingar slysa, sjúkdóma eða meðfædds vanda í munnholi. Alls vantar hátt í 1. ma. kr. á ári til 75% endurgreiðslna til lífeyrisþega og til að uppfæra samning um ofangreindan hóp sem stendur utan þess samnings. Áhersla er lögð á að það verði gert. Það má þó gera í skrefum, líkt og gert var með barnasamninginn.

Tillögur að breytingum:

  • 500 milljónum verði varið í auka endurgreiðslur vegna tannlæknaþjónustu örorku- og ellilífeyrisþega og fólks sem glímir við afleiðingar slysa, sjúkdóma eða meðfædds vanda í munnholi á árinu 2020. Fullar endurgreiðslur verði tryggðar 2021.

  • Tannlæknaþjónusta verði felld undir þak greiðsluþátttöku í heilbrigðisþjónustu.

Sjúkraþjálfun, iðjuþjálfun og talþjálfun  (24.3)

Aðalfundur Öryrkjabandalags Íslands, haldinn 4. og 5. október 2019 ályktaði um að mikilvægt sé að fólk hafi gott aðgengi að læknisfræðilegri endurhæfingu. Aðalfundurinn skoraði á heilbrigðisráðherra að flýta boðuðu starfi varðandi mótun stefnu í endurhæfingu, án þess þó að gæði þeirrar vinnu skerðist. Skýr stefna í endurhæfingu á að vera það leiðarljós sem notað er við innkaup slíkrar þjónustu. Fundurinn varaði við gerræðislegum vinnubrögðum sem nú virðast uppi um kaup á þjónustu sjúkraþjálfara. Mikilvægar kerfisbreytingar verða að vera unnar í samráði við notendur, kröfur og útboðsgögn vel unnin og tími til þess að vinna verkefnið fyrir hendi. Fundurinn skoraði á heilbrigðisráðherra að móta stefnuna fyrst og skoða svo kerfisbreytingu í innkaupum og/eða mótun nýrra samskipta þjónustuveitenda og innkaupa á þjónustunni.

Mynd 5 – Fjöldi með 75% örorkumat og endurhæfingarmat í gildi í janúar 

Súlrit sem sýnir þróunina frá árinu 2000 til ársns 2019

Tillögur að breytingum:

  • Framlög til þjálfunar verði ekki skert frá fyrri áætlunum.
  • Mótun endurhæfingarstefnu verði flýtt.

Lyf og lækningavörur (26)

Lyf (26.1)

Kostnaður sjúklinga vegna lyfjakaupa er afar mikill, enda eru lyf dýr auk þess sem þau eru í efra virðisaukaskattþrepi. Alþjóða heilbrigðismálastofnunin hefur ráðlagt að haldið sé aftur af opinberri gjaldtöku vegna lyfja. Æskilegt væri að fara að dæmi Svía og fella niður virðisaukaskatt á lyfseðilsskyldum lyfjum. Þá þarf strax að fella ýmsa lyfjaflokka undir greiðsluþátttöku lyfja, svo sem sýklalyf, róandi og kvíðastillandi lyf, stinningarlyf og hjálpartæki fyrir sykursjúka.

Nýverið varaði forstjóri Lyfjastofnunar við því að landsmenn þurfi að venjast lyfjaskorti [4]. Það er algerlega óásættanlegt.

Tillögur að breytingum:

  • Virðisaukaskattur af lyfseðilsskyldum lyfjum verði afnuminn.

  • Gert sé ráð fyrir í lyfjastefnu og fjármálaáætlun að innleiðing nýrra nauðsynlegra lyfja verði fjármögnuð svo að við stöndum jafnfætis hinum Norðurlandaþjóðunum á tímabilinu.

  • Lyfjaflokkar sem ekki falla undir greiðsluþátttöku lyfja verði þegar færðir inn í greiðsluþátttökukerfið.

Hjálpartæki (26.3)

Á Íslandi er lagður 24% virðisaukaskattur á hjálpartæki. Sjúkratryggingar Íslands (SÍ) ýmist greiða að fullu eða taka þátt í kaupum á nauðsynlegum hjálpartækjum, skv. reglugerð. Þrátt fyrir það getur kostnaður vegna hjálpartækja verið mikill og úthlutun mætir ekki þörfum notenda. Fjöldi hjálpartækja er ekki niðurgreiddur og hefur þeim fjölgað frá hruni, þegar hið opinbera lagði í mikinn niðurskurð í heilbrigðisþjónustu.

Sú þrönga skilgreining sem liggur úthlutun SÍ til grundvallar kemur í veg fyrir að fólk með skerta færni fái þau hjálpartæki sem það þarf til að auðvelda því athafnir daglegs lífs og að takast á við umhverfi sitt. Hún er ekki í samræmi við SRFF um að tryggja aðgengi fatlaðs fólks að hjálpartækjum og annarri stuðningstækni, t.d. upplýsinga- og samskiptatækni, sem auðveldar fólki að vera samfélagslega virkt.

Starfshópur heilbrigðisráðherra um fyrirkomulag um hjálpartæki skilaði ráðherra skýrslu [5] í byrjun októbermánaðar með tillögum um breytingar á kerfinu. „Meðal þess sem lagt er til er að einfalda skipulag við afgreiðslu og úthlutun hjálpartækja, að endurskoða greiðsluþátttöku og draga úr kostnaði notenda, að endurskoða þær forsendur sem lagðar eru til grundvallar við mat á þörf fólks fyrir hjálpartæki og að bæta upplýsingamiðlun um hjálpartæki og viðgerðarþjónustu. Hópurinn bendir einnig á að finna þurfi farveg fyrir reglubundið mat á hjálpartækjum og innleiðingu nýjungar, enda séu hjálpartæki í sífelldri þróun sem mikilvægt sé að fylgjast með svo taka megi gagnlegar nýjungar í notkun.“

Í fjárlagafrumvarpinu er gert ráð fyrir lækkun á fjárheimildum til málaflokksins frá fyrra ári og í áætlun lækka framlög til Sjúkratrygginga Íslands, sem sér um úthlutun, árlega til 2022. Gera þarf ráð fyrir auknum framlögum vegna nauðsynlegra breytinga á kerfinu í fjárlögum ársins 2020 og áfram í áætlunum í tengslum við þær úrbætur sem lagðar eru til í skýrslu starfshópsins.

Þá verður að horfa til aukinnar þarfar þjóðarinnar fyrir hjálpartæki vegna mannfjölgunar og öldrunar þjóðarinnar.

Tillögur að breytingum:

  • Frá janúar 2020 verði virðisaukaskattur af hjálpartækjum fyrir fatlað fólk og aldraða afnuminn.

  • Framlög til málaflokksins verði aukin í fjárlögum ársins 2020 til að mæta þeirri þörf sem uppi er vegna lýðfræðilegra breytinga, þ.e. fjölgunar og öldrunar þjóðarinnar.

  • Framlög til málaflokksins verði stóraukin í fjárlögum til að vinna þær kerfisbreytingar á málaflokknum sem lagðar eru til í skýrslu starfshóps heilbrigðisráðherra um fyrirkomulag um hjálpartæki. 

4.  Menntamál (20 – 22)

Menntun er mikilvæg fyrir alla, ekki síst fatlað fólk. Í nútímasamfélagi eiga allir að hafa jafnan rétt og aðgang að námi. Því ber stjórnvöldum og menntastofnunum að greiða leið fólks að menntun, hvort sem um er að ræða námsefni og aðstoð við hæfi eða aðgengi að upplýsingum og byggingum. 

Bundið er í lög að nemendur með sértækar þarfir hafi jöfn tækifæri og jafnan rétt til náms og njóti til þess viðeigandi stuðnings. Jafnframt eru íslensk stjórnvöld skuldbundin til þess að veita og tryggja sömu þjónustu og réttindi skv. alþjóðasamningum, sbr. 24. gr. SRFF. Framboð til náms fyrir fatlaða nemendur og nemendur með sértækar þarfir á efri skólastigum hefur verið takmarkað og þá hefur aðgengi þeirra að námi og sértækum úrræðum verið af skornum skammti. Samkvæmt stjórnarsáttmálanum boðar ríkisstjórnin til stórsóknar í menntamálum með hagsmuni nemenda og þjóðarinnar allrar að leiðarljósi en ekki er að sjá að fjármagn fylgi þeim fyrirheitum.

Leikskóla- og grunnskólastig

Núverandi löggjöf og stefnumótun fræðsluyfirvalda felur í sér stuðning við markmið og áherslur skólakerfis án aðgreiningar og eru í samræmi við alþjóðlega sáttmála og samninga sem Íslendingar hafa undirgengist.  Dæmi eru um að að fötluð börn og börn með sértækar þarfir fái ekki viðeigandi stuðning í námi. Því er það fagnaðarefni að í  frumvarpinu sé lögð áherslu á að auka gæði menntunar og efla gerð og útgáfu námsgagna. Aðgerðir í þá átt eru úttektir á gæðum menntunar m.a. á framkvæmd menntunar án aðgreiningar, námi nemenda með táknmál að móðurmáli og nemenda með alvarlega geðræna-, hegðunar- eða félagslega erfiðleika. Einnig á skv. aðgerðaráætluninni að skima fyrir brotthvarfi nemenda á unglingastigi.

Gleðilegt er að auka eigi úrval námsgagna fyrir nemendur sem nota táknmál í samvinnu við Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra (SHH).

Ríkið styður þróunarstarf í gegnum Þróunarsjóð námsgagna og er það miður að forgangsatriði í úthlutun hafa aldrei snúið að þróun námsgagna fyrir fatlaða nemendur eða nemendur með sértækar þarfir.

Einnig stendur til að móta nýja menntastefnu til ársins 2030 í víðtæku samráði og er hér með minnt á samráðsskyldu við hagsmunafélög fatlaðs fólks. 

Tillögur að breytingum:

  • Sú staðreynd að heildarfjármagn í málaflokknum lækkar um 5.m.kr frá gildandi fjárlögum ber ekki með sér þá stórsókn í menntamálum sem stjórnvöldum er tíðrætt um. Lagt er til að auka fjármagn verulega í þennan málaflokk til að tryggja að fatlaðir nemendur og nemendur með sértækar þarfir fái kennslu, stuðning og námsefni við hæfi og geti náð árangri í námi í umhverfi án nokkurrar aðgreiningar.

  • Lagt er til að framlag til SHH verði aukið til muna til að hægt sé í raun að efla og þróa útgáfu námsefnis og veita nemendum sem nota táknmál þá menntun sem þeir eiga lögum samkvæmt rétt á.

Framhaldsfræðsla og menntun óflokkuð á skólastig (22.20)

Afar mikilvægt er að efla framhaldsfræðslu og  auka tækifæri fatlaðs fólks til að afla sér viðurkenndrar menntunar. Ljóst er að stór hópur þeirra sem útskrifast af starfsbrautum framhaldsskólanna fær ekki tækifæri til að sækja sér aukna menntun. Of fá úrræði eru í boði og dregið hefur úr framboði.

Undir þennan lið eru framlög til SHH sem starfar skv. lögum nr. 129/1990 og til Fjölmenntar sem þjónar fullorðnu fötluðu fólki á grundvelli samnings við mennta- og menningarmálaráðuneytið. Ítrekað hefur verið bent á nauðsyn þess að félagslegur túlkunarsjóður hljóti aukin fjárframlög en slíkt varðar mannréttindi þeirra sem nota félagslegan túlkunarsjóð og rittúlkun svo þeir geti lifað og starfað í samfélaginu til jafns við aðra. Í þessu samhengi má benda á mikilvægi 9.,  21. og 24. gr. SRFF sem fjalla um aðgengi í víðu samhengi, réttinn til tjáningar og skoðanafrelsis og aðgengi að upplýsingum og réttinn til menntunar.

Tillögur að breytingum:

  • Framlag til SHH verði aukið verulega svo tryggt sé að allir sem þess þurfi fái félagslega túlkun og rittúlkun og geti lifað sjálfstæðu lífi og eflt samfélagsþátttöku sína.

  • Fjármagn verði aukið verulega til Fjölmenntar til að stuðla að auknum og fjölbreyttari námsúrræðum fatlaðs fólks.

5.  Húsnæðisstuðningur (31) og vaxtabætur

Undir húsnæðisstuðning falla húsnæðisbætur til leigjenda og vaxtabætur til kaupenda.

Húsnæðisbætur

Í  lögum nr.  75/2016 um húsnæðisbætur kemur fram að fjárhæðir frítekjumarka skv. 1. mgr. 17. gr. og fjárhæð eignamarka skv. 1. mgr. 18. gr. koma til endurskoðunar við afgreiðslu fjárlaga ár hvert með tilliti til þróunar launa, verðlags og efnahagsmála. Í fjárlögum ársins 2020 eru áætluð framlög til húsnæðisstuðnings 6,3 ma.kr.  Eins og fram kemur í umsögn ASÍ um fjárlög 2020[6] mun húsnæðisstuðningurinn því lækka að raunvirði um rúmlega 2%.

Ekki er að sjá að gert sé ráð fyrir fjármagni til hækkunar á grunnfjárhæðumir húsnæðisbóta eða frítekjumarka sem þýðir að stuðningur við leigjendur mun dragast saman að raunvirði og fækka mun í hópi þeirra sem rétt eiga á stuðningi. Samkvæmt frumvarpinu er gert ráð fyrir að framlag til húsnæðisbóta verði óbreytt árið 2021, sbr. áætlun í fylgiriti með því.

Grunnfjárhæðir húsnæðisbóta hafa aðeins einu sinni verið hækkaðar frá því lögin tóku gildi 1.1.2017, en þá voru þær hækkaðar um 4,7% frá 1.1.2018. Vísitala leiguverðs hefur hins vegar hækkað um 8,9% frá sama tíma.

Frá upphafi ársins 2011 fram í ágúst 2018 hækkaði leiguverð um 91%, ef miðað er við þróun vísitölu leiguverðs, sem sýnir þróun leiguverðs í þinglýstum leigusamningum á höfuðborgarsvæðinu.[7] Í nýlegri skýrslu Íbúðalánasjóðs kemur fram að „árshækkun leiguverðs á höfuðborgarsvæðinu, sem telur um 2/3 af leigumarkaðnum, var um 5,2%. Leiguverð hefur því haldið áfram að hækka umfram almennt verðlag.“[8] Árum saman hefur leiguverð auk þess hækkað umfram lífeyri almannatrygginga.

 Á árinu 2019 hefur hækkunin haldið áfram. Því er algjör nauðsyn að hækka viðmið fyrir húsnæðisstuðning (grunnfjárhæðir og tekju- og eignamörk) í byrjun næsta árs.

Tillaga um breytingu:

  • Grunnfjárhæðir auk tekju- og eignaviðmiða hækki að lágmarki í samræmi við vísitölu leiguverðs á árinu.

Vaxtabætur

Vaxtabætur hafa mikilvægu hlutverki að gegna fyrir alla þá sem greiða af húsnæðislánum. Vaxtabyrði er of mikil hér á landi. Mjög mikilvægt er að tekjulágir einstaklingar fái greiddar vaxtabætur til að geta frekar ráðið við greiðslu húsnæðislána.  Það er því miður ekki raunin. Sökum þess að eignastofnar fyrir útreikning vaxtabóta eru lágir og hafa verið svo til óbreyttir í næstum áratug, hafa fjölmargir tekjulágir einstaklingar ekki fengið greiddar vaxtabætur undanfarin ár. Fasteignamat hefur hækkað verulega síðustu ár og því teljast þessir einstaklingar ekki skulda nægilega mikið í eigninni sinni enda þótt ekki hafi létt á vaxtabyrðinni. Einstaklingar með heildarárstekjur jafnvel undir 3.600.000 kr. eru ekki að fá greiddar vaxtabætur þrátt fyrir að greiða meira en 30% af ráðstöfunartekjum sínum í vexti af húsnæðislánum og þá er eftir annar tilfallandi kostnaður vegna reksturs og viðhalds húsnæðis. Eigið fé í fasteign skiptir í raun ekki máli ef ráðstöfunarfé stendur ekki undir framfærslu. Húsnæðisstuðningur þarf fyrst og fremst að taka mið af tekjum fólks. Þetta er þess valdandi að tekjulágir einstaklingar missa eigið húsnæði og færast yfir á leigumarkaðinn, þar sem leiguverð er enn hærra en afborganir af eigin húsnæði.

Við þessu verður ríkisvaldið að bregðast með markvissum aðgerðum. Í frumvarpinu er lagt til að útreikningsreglur vaxtabótakerfisins verði óbreyttar, sem er mjög miður. Sama fjárhæð er áætluð fyrir árið 2020 og var ráðgerð fyrir árið 2019, eða 3,4 milljarða kr. Framlög til vaxtabóta rýrna því enn eitt árið.  Þau voru rúmir 6 milljarðar kr. árið 2017 og tæpir 12 milljarðar kr. árið 2010. 

Hækka þarf eignastofna verulega. Eignastofn til skerðingar er í dag m.v. 5 milljónir króna hjá einstaklingi og 8 milljónir króna hjá hjónum en var árið 2010 (vegna ársins 2009) rúmlega 7,1 milljón króna hjá einstaklingi og tæplega 11,4 milljónir fyrir hjón/sambýlisfólk. Þá fellur réttur til vaxtabóta niður við nettóeign upp á 8 milljónir króna hjá einstaklingi en tæplega 12,8 milljónir króna hjá hjónum/sambýlisfólki. Þessi mörk miðuðust við tæplega 11,4 milljónir króna hjá einstaklingi og rúmlega 18,2 milljónir króna hjá hjónum fyrir árið 2009. Á sama tíma hefur fasteignaverð u.þ.b. tvöfaldast.

Enn fremur þarf að hækka tekjuviðmið, en vaxtabætur til einstaklings með 4.000.000 kr. árstekjur, skerðast um 340.000 kr. vegna tekna. Það er veruleg skerðing af ekki hærri tekjum og ekki er að sjá að nokkra breytingu eigi að gera þar á. Hefur tekjutenging vaxtabóta aukist og er í dag 8,5% af tekjum dregið af vaxtagjöldum við útreikning en var 6% fyrir árið 2009.

Tillögur um breytingar:

  • Lagt er til að reiknað verði út hversu mikið fasteignamat hefur hækkað frá árinu 2009 og eignamörkin uppfærist í samræmi við þá hækkun.

  • Þá er einnig lagt til að lögfest verði að eignastofn fyrir vaxtabætur hækki árlega í samræmi við þróun fasteignamats.
  • Ennfremur er lagt til að endurskoðuð verði sú framkvæmd sem er á ákvörðun vaxtabóta sem verið hefur við lýði frá setningu laga nr. 164/2010 en síðan þá hefur ákvörðun um vaxtabætur verið í formi breytinga á bráðabirgðaákvæði LXI í tekjuskattslögum.

6.  Fjölskyldumál (29)

Barnabætur

Barnabætur hafa mikilvægu hlutverki að gegna í lífi barnafjölskyldna og þar á meðal í lífi örorkulífeyrisþega með börn. Tilgangur barnabóta er að tryggja öllum börnum skilyrði til eðlilegs lífs. Rannsóknir hafa sýnt að þúsundir barna á Íslandi búa við skort. Ríkisvaldið hefur skyldum að gegna gagnvart þessum börnum og verður löggjafinn því að grípa til markvissra aðgerða sem skila árangri í baráttunni gegn fátækt. Því er jákvætt skref að hækka viðmiðunarfjárhæðir barnabóta úr 3.600.000 kr. árstekjum hjá einstæðum foreldrum í 3.900.000 kr. og úr 7.200.000 kr. í  7.800.000 kr. hjá hjónum og sambýlisfólki.

Hækkunin er jákvæð, en breytir þó ekki þeirri staðreynd að barnabætur hér á landi eru enn mjög lágtekjumiðaðar. Tekið er undir ábendingu úr umsögn ASÍ um fjárlagafrumvarpið þess efnis að frumvarpið geri „ekki ráð fyrir að grunnfjárhæðir barnabóta hækki sem þýðir að grunnbætur rýrna að raungildi og einungs þeir foreldrar sem hafa tekjur yfir 325.000 kr. á mánuði fá hækkun barnabóta.“ Örorkulífeyrisþegar sem eru einstæðir foreldrar og einungis með lífeyri almannatrygginga sér til framfærslu, munu fá greiddar nær óskertar barnabætur. Hins vegar þar sem heildartekjur þeirra eru undir 325.000 kr. á mánuði, eru þeir ekki í hópi þeirra sem fá hækkun barnabóta.

Vakin er athygli á því að í fylgiriti með frumvarpinu er gert ráð fyrir að framlag til barnabóta verði óbreytt árin 2020 til 2022.

Tillaga að breytingu:

  • Hækka þarf grunnfjárhæðir barnabóta verulega til að fækka börnum sem lifa við skort.

7.  Lokaorð

Það er ósk ÖBÍ að tekið verði tillit til tillagna bandalagsins við meðferð fjárlaga og/eða fjáraukalaga. 

Þingmenn eru hvattir til að skoða þau mál sem til umfjöllunar eru á Alþingi hverju sinni með tilliti til SRFF. Verja þarf mannréttindi fatlaðs fólks sérstaklega og er lögfesting SRFF því mjög mikilvæg. Hugsanleg lausn á bágborinni framfylgd réttinda yrði stofnun embættis Umboðsmanns fatlaðs fólks sem yrði svipað uppbyggt og í Noregi.

Mikilvægt er að heildarsamtök fatlaðs fólks eigi aðkomu að nefndum og ráðum á vegum allra ráðuneyta, þannig verður að horfa til jafnréttis fatlaðs fólks við skipanir í slíkar nefndir ásamt því að horfa til kynjajafnréttis.

Við hvetjum þingmenn til að leita til ÖBÍ ef málefnin þarfnast frekari útskýringa enda erum við ávallt reiðubúin til ráðgjafar og samstarfs.

Virðum mannréttindi og höfum velferð og mannúð að leiðarljósi í störfum okkar, byggjum betra samfélagið fyrir alla.

Ekkert um okkur án okkar.

Virðingarfyllst,

Þuríður Harpa Sigurðardóttir
formaður ÖBÍ

ÖBÍ áskilur sér rétt til að gera frekari athugasemdir við frumvarpið á síðari stigum.  Einnig eru fulltrúar ÖBÍ reiðubúnir til að funda um efni frumvarpsins.


[1]  Ályktun aðalfundar ÖBÍ 5. og 6. október 2019. Sjá hér
[2]  Nýjustu upplýsingar um heildarlaun á vef Hagstofu Íslands er fyrir árið 2018. Því er ekki hægt að koma með nýrri tölulegar upplýsingar.
[3]  Stefán Ólafsson og Indriði H. Þorláksson (2019, febrúar). Sanngjörn dreifing skattbyrði: Hvernig leiðrétta má stóru skattatilfærsluna án þess að veikja velferðarkerfið. Skýrsla til Eflingar–stéttarfélags. Sjá hér & Hagdeild ASÍ (2017, ágúst). Skattbyrði launafólks 1998-2016. Sjá hér
[4]  Berghildur Erla Bernharðsdóttir (2019, 22. september). Segir landsmenn þurfa að venjast lyfjaskorti. Vísir [Innlendar fréttir]. Sjá hér
[5]  Heilbrigðisráðuneytið (2019, 3. október). Skýrsla starfshóps um hjálpartæki afhent heilbrigðisráðherra. Stjórnarráðið [Efst á baugi]. Sjá hér
[6]  Alþýðusamband Íslands (2019, 3. október). Umsögn um frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2020 … Alþingi. Sjá hér 
[7]  Íbúðalánasjóður og Velferðarráðuneytið (2018). Húsnæðisþing 2018: Staða og þróun húsnæðismála. Skýrsla, bls. 15. Sjá hér
[8]  Íbúðalánasjóður (2019, október). Húsnæðismarkaðurinn: Mánaðaskýrsla. Húsnæðissvið Íbúðalánasjóðs. Sjá hér