Skip to main content
Umsögn

Umsögn ÖBÍ um drög að reglugerð um hlutverk, starfsemi og þjónustu heilsugæslustöðva, heilbrigðisstofnana og sjúkrahúsa

By 14. september 2020No Comments
Heilbrigðisráðuneytið
Skógarhlíð 6
105 Reykjavík 

Reykjavík, 16. júlí 2020

Umsögn Öryrkjabandalags Íslands (ÖBÍ) um drög að reglugerð um hlutverk, starfsemi og þjónustu heilsugæslustöðva, heilbrigðisstofnana og sjúkrahúsa

Það er ámælisvert að leggja fram reglugerðardrög til umsagnar í júlímánuði þegar landsmenn eru flestir í sumarfríi. Að því sögðu fara hér á eftir athugasemdir ÖBÍ.

Aðgengi

Heilbrigðisstofnunum ber að tryggja aðgengi allra landsmanna að fyrsta, annars og þriðja stigs heilbrigðisþjónustu, sbr. 1. mgr. 4. gr. Það á einnig við um aðgengi að þeim byggingum sem hýsa heilbrigðisþjónustuna. Því miður eru heilbrigðisstofnanir víða í óaðgengilegu húsnæði fyrir fatlað fólk og aldraða og úr því þarf að bæta eigi þær að uppfylla hlutverk sitt og stjórnvöld að standa við skilmála samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.

Samráð

Í 11. og 18. gr. er fjallað um fagráð um heilbrigðisþjónustu, en ekki er gert ráð fyrir aðkomu notenda þjónustunnar að ákvörðunum sem varða skipulag og þróun hennar. Þannig er litið á þá sem þjónustu njóta sem óvirka þiggjendur af hendi fagaðila. 

Starfsemi heilsugæslunnar

Heilsugæslustöðvar skulu leitast við að efla teymisvinnu og þverfaglegt samstarf, sbr. 3. mgr., 15. gr. og heilsugæslustöðvar skulu leitast við að veita aðra heilbrigðisþjónustu s.s. félagsráðgjöf, iðju- og sjúkraþjálfun, næringaráðgjöf o.fl. í samræmi við ákvörðun ráðherra eða á grundvelli samninga sem gerðir eru samkvæmt lögum um heilbrigðiþjónustu, sbr. 3. mgr. 16. gr. 

„Leitast við“ er vægt orðalag sem felur ekki í sér mikla kröfu á hendur heilsugæslunni. Hægt gengur að byggja upp teymin á stöðvunum, iðjuþjálfa vantar til dæmis á nánast allar stöðvar og sömuleiðis næringarráðgjafa. Fólk er bundið við sína heilsugæslustöð og getur ekki óskað eftir ráðgjöf á heilsugæslustöð þar sem hún er veitt. Það verður að taka ákveðnari skref til að fylla upp í teymin á heilsugæslunni.

Ráðgjöf og leiðbeining um hjálpartæki

Samkvæmt niðurstöðu starfshóps um hjálpartæki frá fyrra hausti er heilsugæslunni ætlað hlutverk um ráðgjöf og leiðbeiningu við einstaklinga um hjálpartæki. Iðjuþjálfar eru best til þess fallnir að veita þá þjónustu, en þjónusta þeirra fæstum aðgengileg. Til dæmis er enginn iðjuþjálfi sem veitir þá aðstoð á heilsugæslustöðvum í Reykjavík. Ekki er minnst á hjálpartæki í reglugerðinni.

Samfella í þjónustu

Heilsugæslan á að vera fyrsti viðkomustaður notenda heibrigðisþjónustu og skv. a-lið, 1. mgr., 16. gr. á hún að leggja áherslu á „samfellda þjónustu í samræmi við þarfir notanda heilbrigðisþjónustu hverju sinni.“ Einstaklingur er því skjólstæðingur heilsugæslu, eða tiltekins heimilislæknis sbr. 2. mgr., 13, gr., sem á að sjá til þess að finna honum úrræði við hæfi og taka við honum aftur ef þau úrræði virka ekki. Til þess að heilsugæslan geti uppfyllt þær skyldur sínar þarf að vera til þekking á endurhæfingarúrræðum og skilgreint verklag. Í samfelldri þjónustu þarf að útrýma gjánum sem einstaklingar falla alltof oft ofan í vegna þess að kerfin eru ómarkviss og tala ekki saman. 

Ekkert um okkur án okkar!

Með vinsemd og virðingu,

Emil Thoroddsen, 
formaður málefnahóps ÖBÍ um heilbrigðismál