Skip to main content
Umsögn

Umsögn ÖBÍ um drög að leiðbeiningum fyrir sveitarfélög um akstursþjónustu. 2020

By 15. maí 2020No Comments

Félagsmálaráðuneytið
Skógarhlíð 6
105 Reykjavík

Reykjavík, 22. janúar 2020 

Umsögn Öryrkjabandalags Íslands (ÖBÍ) um drög að leiðbeiningum fyrir sveitarfélög um akstursþjónustu skv. 29. gr. laga nr 40/1991
Hér á eftir fer umsögn Öryrkjabandalags Íslands (ÖBÍ) um drög að leiðbeiningum fyrir sveitarfélög um akstursþjónustu skv. 29. gr. laga nr 40/1991. Er þeim ætlað að koma í stað leiðbeinandi reglna frá 2012 fyrir sveitarfélög um ferðaþjónustu fyrir fatlað fólk, samkvæmt lögum nr. 59/1992, um málefni fatlaðs fólks, með síðari breytingum.

Lengi hefur verið beðið eftir endurskoðun leiðbeinandi reglna um ferðaþjónustu fyrir fatlað fólk og það er ánægjulegt drög að nýjum leiðbeiningum liggja nú fyrir. ÖBÍ tók þátt í gerð þeirra og átti fulltrúa í starfshópnum um endurskoðun reglnanna.

Leiðbeinandi reglur

Í 3. mgr. 29. gr. laga nr 40/1991 segir: „Sveitarstjórnum er jafnframt heimilt að setja reglur um þjónustuna á grundvelli ákvæðisins og leiðbeinandi reglna ráðherra.” Af þeim sökum er rétt að heiti skjalsins sé ekki leiðbeiningar, heldur leiðbeinandi reglur fyrir sveitarfélög um akstursþjónustu skv. 29. gr. laga nr. 40/1991.

Endurskoðun reglna

Tekið er fram í inngangi að miðað sé við að „endurskoðun reglna sveitarfélags eigi sér stað eigi síðar en 12 mánuðum eftir útgáfu þessara leiðbeininga.” Réttara væri að sveitarfélögum verði gert að breyta reglum sínum innan 6 mánaða frá útgáfu þessara leiðbeinandi reglna. Sá tímarammi ætti að nægja til að gera þær breytingar sem nauðsynlegar eru á fyrirliggjandi reglum um akstursþjónustu sveitarfélaganna.

Aðkomufólk

Í 2. kafla segir að skilgreining notenda akstursþjónustu fatlaðra ætti að lágmarki að vera sú að viðkomandi eigi lögheimili í sveitarfélaginu.

Aðkomufólk með erlent ríkisfang og lögheimili í öðru landi dvelur í sveitarfélögunum í lengri og skemmri tíma. Þar má nefna farandverkamenn, nemendur í skólum, flóttamenn og fólk sem dvelur tímabundið í sveitarfélaginu af öðrum sökum. Mælst er til þess að fyllsta jafnræðis sé gætt og þessu fólki verði tryggður jafn aðgangur og öðrum íbúum sveitarfélaganna til akstursþjónustu fatlaðra, enda sé það skylda sveitarfélags að „…skapa fötluðu fólki skilyrði til að lifa sem sjálfstæðustu lífi miðað við getu hvers og eins og jafna aðstöðumun sem kann að vera til staðar milli fatlaðs fólks og ófatlaðs,” eins og segir í 1. kafla leiðbeininganna.

Tillaga að breytingu: „Reglur sveitarfélags skulu skilgreina þann hóp notenda sem á rétt á þjónustu. Að lágmarki ætti skilgreiningin að fela í sér eftirfarandi:
a. Að notandi sé skráður til heimilis í sveitarfélaginu.“

Að komast ferða sinna

Í kafla 2. um notendur þjónustunnar segir einnig að skilgreining sveitarfélags á notendum þjónustunnar skuli að lágmarki fela í sér að „…notandi geti ekki komist ferða sinna með sambærilegum hætti og ófatlaðir íbúar sveitarfélagsins.” Því verður að halda til haga að bifreiðaeign á ekki að koma í veg fyrir að fólk noti akstursþjónustuna hafi það rétt til. Sumir þurfa aðeins að nota akstursþjónustuna á ákveðnum tímum, til dæmis vegna slæmrar færðar, bilunar á einkabíl eða sjúkdómsástands. Mikilvægt er að fólk geti nýtt sér akstursþjónustuna þegar það telur sig hafa þörf á henni, líkt og er með þjónustu strætisvagna.

Samþætting þjónustu

Í 2. kafla um notendur þjónustunnar segir að samþætta megi akstursþjónustu við fatlað fólk annarri akstursþjónustu sem það sinnir, svo sem akstri fyrir aldraða og skólabörn. Hér verður að árétta að ákvæði um akstursþjónustu við fatlað fólk er lögbundin skv. 29. gr. laga nr. 40/1991 og segir að henni sé ætlað að gefa fötluðu fólki kost á að fara allra sinna ferða með þeim hætti sem það kýs og á þeim tíma sem það velur. Því verður að gæta þess að þessi þjónusta sé tiltæk þegar einstaklingurinn óskar og þarf á henni að halda.

Tillaga að breytingu: „…svo sem akstri fyrir aldraða og skólabörn, svo lengi sem það takmarkar ekki lögbundinn akstur fatlaðra notenda akstursþjónustunnar.”

Íbúar annarra sveitarfélaga

Í 2. kafla segir: „Sveitarfélag getur einnig valið að útvíkka gildissvið reglnanna þannig að fatlaðir íbúar annarra sveitarfélaga öðlist aðgang að akstursþjónustu án tillits til lögheimilis. Þótt gildissvið sé útvíkkað geta sérstök ákvæði verið um þennan aðgang, t.d. um tímafresti vegna pöntunar á ferðum. Um uppgjör vegna þessara ferða fer skv. samkomulagi hlutaðeigandi sveitarfélaga.”

Krafan um ferðafrelsi á einnig við um þjónustu í öðrum sveitarfélögum. Um uppgjör hlýtur að vera einfaldast að ganga út frá almennri reglu, frekar en tvíhliða samningum milli allra sveitarfélaga.

Tillaga að breytingu: „Fatlaðir íbúar annarra sveitarfélaga skulu eiga aðgang að akstursþjónustu án tillits til lögheimilis. Í sérstökum tilvikum má hafa lengri tímafresti vegna pöntunar á þessum ferðum, en það þarf þá að koma skýrt fram á vefsíðu þjónustunnar. Lögheimilissveitarfélag skal borga því sveitarfélagi sem veitir þjónustuna gjald sem nemur mismun á meðalkostnaði við ferðir og því gjaldi sem notandi greiðir.”

Ferðafrelsi

Í kafla 3. um fyrirkomulag er gerður greinarmunur á eðli ferða og notendum þjónustunar gert að tilgreina hvort þeir vilji nýta sér hana til atvinnu eða náms, þjónustustofnanir eða aðra nauðsynlega þjónustu sem veitt er fötluðu fólki eða til afþreyingar eða tómstundar. Þessi greinarmunur þarf að fara úr reglunum. Hugmyndin um ferðafrelsi til jafns við aðra felur meðal annars í sér að fólk eigi ekki að þurfa að láta neinn vita um eðli ferðarinnar, þegar hann vill.

Tillaga að breytingu: Eftirfarandi texti falli út: „Þegar um er að ræða ferðir vegna atvinnu eða náms skal miða við að hver og einn notandi fái eins margar ferðir og eðlilegt má telja að atvinna eða nám kalli á. Auk þess á einstaklingur rétt á að lágmarki tveimur ferðum þá daga sem viðkomandi sækir þjónustu á þjónustustofnanir eða aðra nauðsynlega þjónustu sem veitt er fötluðu fólki. Ferðir vegna afþreyingar eða tómstunda skulu boðnar í samráði við hvern og einn og skal í öllum tilfellum meta þarfir og markmið viðkomandi einstaklings og getu hans til að ná þeim markmiðum.”

Eftirfarandi texti komi í hans stað: “Hvort sem um er að ræða ferðir vegna atvinnu eða náms, eða annars, skal miða við að hver notandi fái eins margar ferðir og hann telur sig þurfa.“

Ferðir milli sveitarfélaga

Í kafla 7. um ferðir út fyrir mörk sveitarfélags segir að „[s]é þjónustustofnun eða önnur nauðsynleg þjónusta fyrir fatlað fólk, sbr. 1. gr., staðsett í öðru sveitarfélagi getur lögheimilissveitarfélag kannað hvort grundvöllur sé fyrir samkomulagi milli sveitarfélaganna sem tryggi aðgang að akstursþjónustu milli sveitarfélaga.“ Þessi takmörkun á akstursþjónustu gengur í berhögg við yfirlýsingu í inngangi um að henni sé ætlað að „…jafna aðstöðumun þeirra sem vegna fötlunar njóta ekki ferðafrelsis til jafns við aðra, m.t.t. aðgengis að almenningssamgöngum.“ Landsbyggðarstrætisvagnar eru ekki aðgengilegir hreyfihömluðu fólki og með þessum takmörkunum eru reistar hindranir sem aðrir þurfa ekki að eiga við. Því þurfa sveitarfélögin að heimila ferðir milli sveitarfélaganna fyrir notendur akstursþjónustunnar, hvort sem það er vegna heimsóknar á þjónustustofnun, annarar nauðsynlegrar þjónustu fyrir fatlað fólk eða einhvers annars. Aftur, það á ekki að vera spurt að ástæðu ferðar. Þessi þjónusta þarf að vera í boði, hvort sem hún verður eingöngu í höndum sveitarfélaganna eða í samstarfi við rekstraraðila almenningssamgangna á landsbyggðinni. Það er sjálfsagt fyrir notendur að greiða sem samsvarar gjaldskrá almenningssamgangna fyrir ferðina.

Tillaga að breytingu: Í stað „Sé þjónustustofnun eða önnur nauðsynleg þjónusta fyrir fatlað fólk, sbr. 1. gr., staðsett í öðru sveitarfélagi getur lögheimilissveitarfélag kannað hvort grundvöllur sé fyrir samkomulagi milli sveitarfélaganna sem tryggi aðgang að akstursþjónustu milli sveitarfélaga. Sama gildir ef notandi dvelst tímabundið í öðru sveitarfélagi.“ komi „Lögheimilissveitarfélag tryggi notanda akstursþjónustu milli sveitarfélaga, samkvæmt viðmiðum gjaldskrár Strætó b.s.“

Öryggi notenda

Í kafla 9. um öryggi og tengd atriði er ekki farið inn á öryggisbúnað. Í því samhengi er rétt að vísa í „Leiðbeiningar fyrir þjónustuaðila og bílstjóra varðandi öruggan akstur með fatlaða“ sem Samgöngustofa gefur út.

Tillaga að breytingu: Viðbót við textann: „Mikilvægt er að allur öryggisbúnaður sé í lagi, að til sé verklýsing um aksturinn almennt og verkferlar um sérþarfir einstakra notenda fyrir bílstjóra og aðra starfsmenn sem tengjast akstursþjónustunni að fara eftir. Þessu er nánar lýst í leiðbeiningum fyrir þjónustuaðila og bílstjóra varðandi öruggan akstur með fatlaða sem Samgöngustofa gefur út.“

Ekkert um okkur án okkar.

Með vinsemd og virðingu,

Þuríður Harpa Sigurðardóttir
formaður ÖBÍ

Ingveldur Jónsdóttir
formaður málefnahóps ÖBÍ um aðgengi