Skip to main content
Umsögn

Umsögn ÖBÍ um drög að frumvarpi til laga um breytingu á lögum um almannatryggingar … (ákvörðun réttindahlutfalls örorkulífeyris) til umsagnar á samráðsgátt (21. maí 2019)

By 20. júní 2019No Comments
Félagsmálaráðuneytið
Skrifstofa húsnæðis- og lífeyrismála
Skógarhlíð 6
105 Reykjavík
 

Reykjavík, 21. maí 2019

Efni: Umsögn Öryrkjabandalags Íslands um drög að frumvarpi til laga um breytingu á lögum um almannatryggingar, nr. 100/2007, með síðari breytingum (ákvörðun réttindahlutfalls örorkulífeyris) til umsagnar á samráðsgátt.

Vísað er til frumvarpsdraga um ofangreint efni á samráðsgátt stjórnvalda (S-131/2019).

Almennt

Öryrkjabandalag Íslands (ÖBÍ) lýsir yfir furðu sinni á framkomu þessa frumvarps. Hingað til hafa stjórnvöld almennt ekki verið til umræðu um nauðsynlegar breytingar á almannatryggingalöggjöfinni sem lúta að því að tryggja lífeyrisþegum þá lágmarksframfærslu sem nauðsynleg er á Íslandi. Uppgefin ástæða fyrir því að engu megi breyta hingað til hefur verið að  til standi að gjörbylta framfærslukerfinu á næstunni með hliðsjón af vinnu nefnda og starfshópa sem unnið hafa síðustu ár. Þrátt fyrir það er hér hlaupið upp til handa og fóta og sett fram frumvarp sem ætlað er að tryggja áframhaldandi framkvæmd Tryggingastofnunar ríkisins (TR) á útreikningi búsetuhlutfalls sem umboðsmaður Alþingis hefur sagt að standist ekki íslensk lög. Þetta vekur sérstaklega athygli því að það tók ráðuneytið skemmri tíma að semja nýtt frumvarp sem breytir reglunum heldur en TR að greiða örorkulífeyrisþegum í samræmi við niðurstöðu umboðsmanns Alþingis frá 20. júní 2018. Markmið frumvarpsins virðist fyrst og fremst vera að festa í sessi þá framkvæmd sem umboðsmaður taldi ólöglega.

Í 3. mgr. 4. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks er kveðið á um það með sérstökum hætti að þeir sem taka ákvarðanir sem hafa bein eða óbein áhrif á fatlað fólk skuli hafa náið samráð (e. closely consult) við fatlað fólk og samtök þess í gegnum allt ferli ákvarðanatöku (decision making processes). Ekki verður annað séð en að þessi regla hafi verið þverbrotin við gerð frumvarpsins. Við vinnslu þess var einungis haft samráð við TR, sem er mjög miður en auk þess verulega óeðlilegt. Því miður virðist sem ætlunin hafi verið að sem fæstir hagsmunaaðilar vissu af frumvarpinu. Ekki var haft samráð við hagsmunasamtök við vinnslu þess, þá var umsagnarfresturinn, þ.e. einungis vika sem framlengdur var svo um viku að okkar beiðni, en náði því miður bara til ÖBÍ, of stuttur, en um er að ræða gríðarlegt hagsmunamál fyrir þá sem í hlut eiga.

Í athugasemdum frumvarpsins virðist reynt að fela það sem verið er að gera í raun og veru. Þannig er gefið í skyn að verið sé að skýra löggjöf sem umboðsmaður hafi talið óskýra. Álit umboðsmanns var ekki ákall um að lög yrðu skýrð heldur að TR myndi láta af ólögmætri háttsemi. Af þessu tilefni vill ÖBÍ einnig taka það fram að hér er ekki aðeins um „skýringu“ á fyrri löggjöf að ræða heldur er í raun verið að gjörbylta útreikningsreglum almannatryggingalaganna þegar kemur að búsetuskilyrði laganna.

Þá kemur fram að með frumvarpinu sé stuðlað að því að umsækjendur sem hafa haft búsetu á evrópska efnahagssvæðinu verði ekki „í lakari stöðu í samanburði við umsækjendur sem hafa verið búsettir í ríkjum utan svæðisins“. Þetta er rétt en þessari niðurstöðu frumvarpsins á ekki að ná fram með því að auka réttindi þeirra sem hafa búið á EES svæðinu heldur með því að skerða réttindi þeirra sem búið hafa utan svæðisins. Þannig er með frumvarpinu verið að ná jöfnuði með því að skerða til muna réttindi sumra en halda öðrum óbreyttum. Með frumvarpinu er framkvæmdin, sem umboðsmaður taldi ólöglega, útvíkkuð þannig að hún nái ekki aðeins til þeirra einstaklinga sem hafa á einhverjum tímapunkti fyrir gildistíma örorkumats TR búið í öðru EES landi heldur nái reglan nú til allra sem hafa búið um tíma í öðru landi en Íslandi.

Hvers vegna það er sérstakt markmið hjá félagsmálaráðuneytinu að skerða lífeyri þeirra sem búið hafa erlendis jafn grimmilega og lagt er til í þessu frumvarpi er ÖBÍ hulin ráðgáta enda virðist ekki gert ráð fyrir nokkrum sparnaði í kjölfarið, enda segir um áhrif frumvarpsins að það hafi óveruleg áhrif á fjárhag ríkissjóðs. Þó ætti að vera ljóst að ef búsetuhlutfall þess hóps örorkulífeyrisþega sem fær örorkumat eftir gildistöku laganna muni lækka um tugi prósenta, þá munu greiðslur sama hóps einnig lækka um tugi þúsunda.

Verði frumvarpið að lögum mun það leiða til enn meiri fátæktar hjá fjölda fólks.

Dæmi um mismun á búsetuhlutfalli eftir útreikningsreglum fyrir og eftir leiðréttingu í samræmi við álit umboðsmanns Alþingis nr. 8955/2016.

Magnús er 39 ára maður, sem flutti til Danmerkur ásamt foreldrum sínum þegar hann var 14 ára gamall. Hann flutti aftur til Íslands 29 ára gamall. Þremum árum síðar  lenti hann í alvarlegu bílslysi og hefur verið óvinnufær síðan.  Á þeim tíma var Magnús í verknámi, sem hann náði ekki að ljúka vegna afleiðinga slyssins. Magnús er með 39% búsetuhlutfall. Hann fær engar greiðslur að utan og á engin réttindi í lífeyrissjóði. Magnús var um tíma með fjárhagsaðstoð frá sveitarfélagi sínu, en flutti aftur heim til foreldra sinna, þar sem tekjur hans dugðu engan veginn til framfærslu. Hann er með rúmar 148 þúsund kr. á mánuði frá TR (fyrir og eftir skatt) og eru það einu tekjur hans. Magnús er í raun fastur heima hjá foreldrum sínum. Eftir leiðréttingu ætti búsetuhlutfall hans að vera 92,5% og greiðslur TR til hans að nema rúmum 243 þúsund kr. á mánuði.

Fanney er 40 ára gömul kona, sem stundaði nám og bjó í 10 ár á einu Norðurlandanna eftir 18 ára aldur. Hún fékk örorkumat 8 árum eftir að hún flutti aftur til Íslands. Fanney er með 58% búsetuhlutfall. Fanney fær engar greiðslur frá fyrra búsetulandi og hefur eingöngu hlutfallslegan örorkulífeyri frá TR til framfærslu. Hún er einstæð móðir með tvö ung börn. Ráðstöfunartekjur hennar eru rúmar 209 þúsund kr. á mánuði. Eftir leiðréttingu ætti búsetuhlutfall hennar að vera 99% og greiðslur TR til hennar eftir skatt að nema rúmum 252 þúsund kr. á mánuði.

Árið 2010 fengu 662 örorkulífeyrisþegar ekki fullar greiðslur frá TR sökum fyrri búsetu sinnar erlendis (þ.e. búsetuhlutfallið er lægra en 100%). Sjö árum seinna voru 1330 manns í þessum hópi. Það hefur fjölgað mikið í hópi þeirra sem fá hlutfallslegar/búsetuskertar greiðslur og ekki er von á öðru en að sú þróun haldi áfram með auknum flutningum fólks á milli landa.

Verði frumvarpið að lögum mun það einnig leiða til átthagafjötra fyrir fjölda fólks. Núverandi (ólögleg) framkvæmd TR hefur leitt til þess að fólk, sem flutt hefur til annars lands á tilteknum tíma í lífi sínu og orðið fyrir slysum eða veikst alvarlega, getur ekki flutt aftur til Íslands. ÖBÍ þekkir fjölmörg slík dæmi og þeim mun einungis fjölga verði frumvarpið að lögum.

Þá virðist félagsmálaráðuneytið alveg horfa fram hjá því að ákvæði frumvarpsins geta haft veruleg áhrif á jafnrétti kynjanna. Einstaklingur sem fær á grundvelli hinnar nýju reglu verulega skertar örorkubætur þarf í kjölfarið að leita á náðir sveitarfélagsins til að fá fjárhagsaðstoð að því gefnu að einstaklingurinn eigi ekki maka sem hefur tekjur. Er ljóst að ein af afleiðingum þessa frumvarps verður verulega aukin kúgun kvenna sem búið hafa hluta ævinnar erlendis og eiga maka sem aflar tekna. Þannig munu þær konur eða karlar sem illa fara út úr þessari nýju reglu verða algjörlega háð maka sínum með alla sína framfærslu.

Afleiðing frumvarpsins, verði það að lögum, verður m.a. sú að ábyrgð á framfærslu örorkulífeyrisþega verður velt yfir á sveitarfélög. Fjárhagsaðstoð sveitarfélaga er ætlað að vera tímabundið neyðarúrræði, en ekki kerfi sem stendur undir framfærslu til lengri tíma, eða áratugum saman eins og í tilfelli lífeyrisþega. Auk þess er um að ræða mjög lágar upphæðir eða á bilinu 150 til 201 þúsund kr. á mánuði að því gefnu að fólk geti framvísað þinglýstum leigusamningi. Forsendur fyrir að vísa ábyrgðinni á framfærslunni yfir á sveitarfélagið standast ekki. Ríkið hefur skuldbundið sig, samkvæmt 76. gr. Stjórnarskrár lýðveldisins Íslands og alþjóðlegum mannréttindasamningum, s.s. 11. gr. Alþjóðasamnings Sameinuðu þjóðanna um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi, samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks til að tryggja þeim sem þess þurfa rétt til félagslegs öryggis og að lifa mannsæmandi lífi. Alþjóðlegir sáttmálar áskilja einnig virðingu fyrir eðlislægri mannlegri reisn (inherent dignity) allra einstaklinga. Í því felst að enginn maður skuli þurfa að líða skort og ríki hafa skuldbundið sig til þess að skapa skilyrði til þess að allir geti notið efnahagslegra, félagslegra og menningarlegra réttinda. Þannig er ekki um velferðarmál að ræða eða ölmusu til viðtakenda heldur lagalegan rétt þeirra.

Ekki er að sjá að haft hafi verið samráð við sveitarfélögin við gerð þessa frumvarps en ljóst er að frumvarpið mun hafa töluverð áhrif á fjárhag sveitarfélaga sem munu, verði frumvarpið að lögum, taka við því hlutverki ríkisins að tryggja einstaklingum með skerta búsetu framfærslu.

Þá vekur athygli að ekki skuli í frumvarpi þessu tekið á þessum viðkvæma hóp á sama hátt og lagt hefur verið til að tekið verði á ellilífeyrisþegum með skerta búsetu. Þar hefur verið sett fram sú tillaga að ellilífeyrisþegar sem eiga lítinn eða engan rétt í almannatryggingum verði tryggð a.m.k. 90% framfærsla.  Ekkert slíkt er að finna í þessum tillögum. Í fjármálaáætlun 2020-2024 er lagt til að bæta stöðu aldraðra einstaklinga sem búa á Íslandi en hafa áunnið sér lítil eða engin réttindi í almannatryggingum hér á landi vegna búsetu erlendis. Á sama tíma eru engin áform um að bæta einnig stöðu örorku- og endurhæfingarlífeyrisþega sem eru í svipaðri stöðu vegna lítilla réttinda í almannatryggingum hér á landi.

Af frumvarpinu má ráða að ætlunin sé að koma í veg fyrir tvö „vandamál“:

Annars vegar að greiðslur vegna örorku skarist ekki þannig að einstaklingur geti átt rétt frá tveimur löndum og þannig fengið „of mikið“.

Hins vegar „að koma í veg fyrir þá óeðlilegu niðurstöðu að einstaklingur sem búið hefur á Íslandi í mjög skamman tíma þegar hann verður örorkulífeyrisþegi fái full réttindi á grundvelli tímabila til framtíðar og haldi þeim jafnvel þótt hann flytjist skömmu síðar aftur frá Íslandi“.

Lögin munu ekki nema að litlu leyti ná þessum markmiðum en munu þess í stað fyrst og fremst bitna á fólki sem uppfyllir hvorugt af framangreindu (þ.e. á ekki rétt í öðru landi og fær þannig ekki „of mikið“ og fólk sem ætlar sér aldrei að flytjast frá Íslandi). Væri ætlunin að bregðast við framangreindum atriðum væri auðveldara og réttara að gera það með lagareglum sem beinast beint að þessum „vandamálum“. Það er ekki gert með þessum tillögum heldur eru settar víðtækar almennar reglur sem bitna á miklu fleiri en þeim tilvikum sem þeim er ætlað að grípa.

Eftir standa einstaklingar sem verða fyrir gríðarlega íþyngjandi og ósanngjarnri niðurstöðu. Fólk sem ekkert hefur sér til saka unnið annað en að vera svo óheppið að vera fatlað eða veikt og hafa búið erlendis um tíma, jafnvel mjög skamman tíma. Ekkert við athafnir eða aðstæður þessa fólks gefa sanngjarnt tilefni til þeirra ósanngjörnu skerðinga sem það mun verða fyrir. Verði frumvarpið að lögum mun íslenska almannatryggingakerfið einfaldlega bregðast þessu fólki.

ÖBÍ ítrekar mikilvægi þess að stjórnvöld virði skyldu sína til að hafa virkt og náið samráð við fatlað fólk og hagsmunasamtök þess frá upphafi vinnunnar en þar liggur sérfræðiþekkingin og reynslan.

Ekkert um okkur án okkar!
 
Þuríður Harpa Sigurðardóttir,
Formaður Öryrkjabandalags Íslands