Reykjavík, 17. desember 2018
Umsögn Öryrkjabandalags Íslands (ÖBÍ) um drög að 8. breytingu á byggingarreglugerð, nr. 112/2012
Leyfisveitingar og eftirlit
Í reglugerðardrögunum er heimild byggingarstjóra til að framkvæma áfangaúttektir aukin. Það er hættuleg vegferð. Nú þegar ber að fara yfir aðgengi að byggingum við öryggisúttekt, enda er heimilt að taka mannvirki í notkun að henni lokinni og bíða í allt að þrjú ár fram að lokaúttekt. Það þýðir meðal annars að við öryggisúttekt að nýbyggingum þarf aðkoma að vera greið, lóð og útivistarsvæði samkvæmt teikningum og bílastæði hreyfihamlaðra að vera tilbúin. Sé gert ráð fyrir lyftu á hún að vera uppsett og tilbúin til notkunar.
Það hefur sýnt sig að eftirlit með þessum þáttum er oft slakt. Leyfi fást í gegn þó svo að aðgengi sé ekki tryggt og lyftur ekki uppsettar. Það verður að fara eftir samþykktum og forðast undanþágur og fresti. Tímabundið ástand verður þá varanlegt, ekki síst þegar eftirlit er jafnmáttlaust og raun ber vitni. Ef menn ráða ekki við að fara eftir reglum eiga þeir ekki að standa í framkvæmdum.
Best er að óháðar skoðunarstofur hafi það hlutverk að fara yfir hönnunargögn og framkvæma útttektir. Sé það í höndum byggingarstjóra eða byggingarfulltrúa sveitarfélags er vandinn að framfylgja ítrustu kröfum of nálægur.
Allt of margir hönnuðir og iðnaðarmenn fara eingöngu eftir þeim ákvæðum sem standa í sjálfri reglugerðinni, og sumir sleppa því jafnvel, en horfa alfarið framhjá leiðbeiningum Mannvirkjastofnunar um nánari framkvæmd þeirra, sem þó eiga að vera jafngildar reglugerðinni sjálfri. Það þýðir að útfærslur eru ýmis konar og víða horft framhjá notagildi rýmisins.
Í stað þess að auka sveigjanleika verktaka á að setja allt eftirlit í fastari skorður. Með því að setja það í hendur skoðunarstofa sem yrði gert að fara eftir skoðunarlistum og stoðritum Mannvirkjastofnunar væri betur tryggt að mannvirki verði reist eftir ákvæðum algildrar hönnunar.
Þá væri æskilegt að auka eftirlit Mannvirkjastofnunar með því að byggingarfulltrúar geri kröfu um að algildri hönnun sé framfylgt við breytingu á þegar byggðu mannvirki eða breytta notkun, sbr. 6.1.5. gr. byggingarreglugerðar. Samkvæmt 3. mgr. ber hönnuði að skila inn „sérstakri greinargerð um það hvaða ákvæðum óskað er eftir að víkja frá, um ástæður þess að ekki er unnt að uppfylla þau og hvort unnt er með öðrum hætti að tryggja aðgengi þannig að markmið þessa hluta reglugerðarinnar séu uppfyllt.“ Miðað við breytingar á eldri mannvirkjum er ljóst að í mörgum tilfellum er ekki gengið hart eftir slíkum greinargerðum.
Í 1. mgr., 3.9.1. gr. byggingarreglugerðar segir: „Þegar mannvirkjagerð er lokið og innan þriggja ára frá því að mannvirki var tekið í notkun og öryggisúttekt fór fram skal gera lokaúttekt á því [í samræmi við ákvæði skoðunarhandbókar og skoðunarlista.“ Þetta er of langur tími. Margt getur gerst á þremur árum sem er illa afturkræft. Lagt er til að tíminn milli öryggis- og lokaúttektar verði styttur í eitt ár.
Í 3. mgr., 3.9.1. gr byggingarreglugerðar segir: „Byggingarstjóri skal fyrir hönd eiganda mannvirkis óska eftir lokaúttekt.“ Frumkvæðið á ekki að vera í höndum byggingarstjóra, heldur leyfisveitanda. Alltof algengt er að það dragist í mörg ár að framkvæma lokaúttekt. Með því að setja eftirlitið í hendur skoðunarstofa væri hægt að tryggja að lokaúttekt fari fram á réttum tíma.
Hleðslustöðvar fyrir rafbíla
Samfélagið er að rafbílavæðast og hleðslustöðvar spretta upp út um allt. Fatlað fólk þarf og mun þurfa sama aðgengi að hleðstustöðvum og aðrir landsmenn. Nú þegar er ákvæði um tengibúnað vegna hleðslu rafbíla við íbúðir og íbúðarhús í 6.7.1. gr. byggingarreglugerðar. Þar segir:
„[Í nýbyggingum og við endurbyggingu skal gert ráð fyrir tengibúnaði vegna hleðslu rafbíla við hvert bílastæði.] Mannvirkjastofnun skal gefa út leiðbeiningar um framkvæmd þessarar greinar.]“
Í reglugerðardrögunum segir í breytingartillögu við 4. mgr. d-liðar, 6.2.4. gr.: „Þar sem eru hleðslustöðvar fyrir rafbíla við bílastæði hreyfihamlaðra skal aðgengi að þeim vera gott og hindrunarlaust.“
Eins og kemur fram hér að ofan skal gert ráð fyrir tengibúnaði vegna hleðslu rafbíla við hvert bílastæði, líka bílastæði hreyfihamlaðra. Því er orðalagið „þar sem eru,“ ekki rétt.
Þá er orðalagið „gott og hindrunarlaust“ afar loðið. Það er að ýmsu að gæta varðandi uppsetningu hleðslustöðva. Þær mega ekki hefta umferðarleiðir, t.d. með því að vera staðsettar milli bílastæða og það er varasamt að staðsetja þær hinum megin við gönguleið þar sem rafmagnskaplar eru strengdir yfir. Þá þarf búnaðurinn að vera í seilingarhæð fyrir hjólastólanotendur. Það er æskilegt að skýrt og ótvírætt sé í reglugerð hvernig eigi að útfæra aðgengi að rafbílastæðum.
Í breytingartillögu við 6.8.1. gr. reglugerðarinnar er talinn upp lágmarksfjöldi bílastæða þar sem hleðsla rafbíla er möguleg fyrir byggingar til annara nota en íbúðar. Þessar tillögur má túlka þannig að lágmarksfjöldi hleðslustöðva eigi við almenn stæði, og þá er ekki tryggt að hreyfihamlað fólk hafi aðgang að þeim. Bílastæði hreyfihamlaðra eru ekki mörg, og oftar en ekki of fá, við slíkar byggingar. Rétt er að gert sé ráð fyrir hleðslustöð við öll bílastæði hreyfihamlaðra, líka við byggingar til annara nota en íbúðar.
Ekkert um okkur án okkar!
Með vinsemd og virðingu,