Skip to main content
Umsögn

Umsögn ÖBÍ um breytingu á reglugerð um skráningu ökutækja og skoðun ökutækja. 2020

By 15. maí 2020No Comments

Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið
Sölvhólsgata 7
101 Reykjavík

Reykjavík, 15. apríl 2020

Efni: Drög að reglugerð um breytingu á reglugerð um skráningu ökutækja og drög að reglugerð um skoðun ökutækja

Eftirfarandi er umsögn ÖBÍ um drög að reglugerð um breytingu á reglugerð um skráningu ökutækja nr. 751/2003 og drög að nýrri reglugerð um skoðun ökutækja, sem liggja fyrir í samráðsgátt.

Athugasemdir ÖBÍ snúa fyrst og fremst að því sem ekki stendur í gildandi reglugerðum og þeim drögum sem nú liggja fyrir, frekar en þeim breytingum sem boðaðar eru.

Í 2. gr. reglugerðar um skoðun ökutækja, nr. 8/2009, er fjallað um gildissvið hennar. Þar segir:

Reglugerðin gildir um reglubundna skoðun ökutækja sem skráð eru hér á landi, þ.á.m. hvaða ökutæki skuli færa til reglubundinnar skoðunar, endurskoðunar og til annarrar skoðunar, hver skuli skoða, tíðni skoðunar, hvað skuli skoða og hvernig.

Þessi hluti 2. gr. er óbreyttur í tillögum að breytingu á reglugerðinni.

Í stuttu máli sagt er um að ræða öll ökutæki sem eru skráð hér á landi, sbr. 1. mgr. 3. gr. breytt ökutæki hreyfihamlaðs fólk, sem hafa fengið ísett hjálpartæki og öryggisbúnað svo sem sjálfskiptingu, breytingar á hemlabúnaði og bensíngjöf og bílalyftu fyrir hjólastólanotendur gilda sömu reglur og fyrir óbreytta bíla. Þeir eru því flestir teknir til aðalskoðunar í fyrsta skipti á fjórða ári eftir að ökutækið var skráð fyrsta sinni, að skráningarárinu frátöldu, síðan annað hvert ár í tvö næstu skiptin og árlega eftir það, sbr. a-lið, 1. mgr. 4. gr.

Í 3. mgr., 44. gr. í reglugerðardrögunum um skoðun ökutækja sem liggja fyrir segir að Samgöngustofa setji verklagsreglur um skoðun „…ökutækja til flutnings fatlaðra og hreyfihamlaðra.“

Það er eindregin skoðun ÖBÍ að setja verði inn reglugerðarákvæði um skráningu og skoðun bifreiða sem breytt hefur verið og bætt við hjálpartækjum og öðrum búnaði vegna fötlunar ökumanns eða annars sem þarf að nota bifreiðina svo sem fjölskyldumeðlims, íbúa á sambýli eða notanda akstursþjónustu fatlaðra.

Það nægir ekki að gefa út verklagsreglur þar að lútandi heldur verða að fyrirfinnast ákvæði um skráningu og skoðun breyttra bifreiða í eigu og rekstri hreyfihamlaðs fólks, en ekki aðeins þeirra bifreiða sem eru í rekstri, t.d. akstursþjónustu fatlaðra, heilbrigðisstofnana, rútufyrirtækja og leigubílsstjóra.

Það er mjög brýnt að koma skikki á skráningu og eftirliti með breyttum bifreiðum hreyfihamlaðs fólks, að skerpa á ábyrgð, setja upp ramma fyrir skráningarskyldu, herða eftirlit, auka kröfur um leyfi til breytinga og þjálfa upp skoðunarmenn.

Ef hemlabúnaður, bensíngjöf eða sjálfskipting gefur sig getur voðinn verið vís. Því miður hefur skráningu þessara bifreiða verið mjög ábótavant og eftirlit og skoðun á þessum mikilvæga öryggisbúnaði verið í skötulíki um margra ára skeið.

Samkvæmt 2. mgr., 1. gr. reglugerðar nr. 751/2003 um skráningu ökutækja bera „eigandi ökutækis, innflytjandi, og eftir atvikum innlendur framleiðandi, … ábyrgð á því að ökutæki sé skráð.“ Mikill misbrestur er á því að haldið sé nógu vel utan um skráningu breyttra bíla.

Aðeins um 20-30% breyttra bifreiða hreyfihamlaðra eru skráðar sem slíkar. Breytingaraðilar skrá margir ekki gerðar breytingar og virðast því vinna eftirlitslaust. Enginn fylgist með því að búnaðurinn sé settur í samkvæmt fyrirmælum framleiðanda og engar kröfur eru gerðar um menntun eða reynslu starfsmanna.

Þá liggur fyrir að skoðunarstöðvar eru vanbúnar til að skoða þessar breyttu bifreiðar og að skortur er á skoðunarmönnum með hæfni til að yfirfara þær. Það þarf að gera samninga við sérhæfðar skoðunarstöðvar með þjálfuðum starfsmönnum til að fara yfir búnaðinn, en þó ekki sömu stöðvar og settu hann í upprunalega.

ÖBÍ leggur til að bætt verði inn í reglugerðir um skoðun og skráningu breyttra bifreiða ákvæðum um hvernig eigi að hátta skráningu og skoðun breyttra bifreiða í eigu og rekstri hreyfihamlaðs til að tryggja öryggi ökumanns, farþega og annarra í umferðinni. ÖBÍ tekur undir með tillögu frá Sjálfsbjörg lsh. um að öryggis- og lyftubúnaður í bifreiðum verði skoðaður innan tveggja ára frá fyrstu skráningu bifreiðar og svo árlega eftir það.

Það er von okkar að tekið verði tillit til þessara athugasemda og þeim gerð skil í reglugerðum sem eru til umsagnar. Það að mikil brotalöm sé á skoðun og eftirliti breyttra bifreiða í eigu og rekstri fatlaðs fólks er óásættanlegt enda getur það valdið alvarlegum umferðaslysum.

ÖBÍ er reiðubúið að senda fulltrúa á fund nefndarinnar ef eftir því verður óskað.

 

Ekkert um okkur án okkar!

Virðingarfyllst,

Þuríður Harpa Sigurðardóttir,
formaður ÖBÍ

Ingveldur Jónsdóttir,
formaður málefnahóps ÖBÍ um aðgengi