Skip to main content
Umsögn

Umsögn ÖBÍ um akstursþjónustu fatlaðs fólks á höfuðborgarsvæðinu

By 19. maí 2020No Comments

Velferðarsvið Reykjavíkurborgar
Borgartún 12-14
105 Reykjavík

Reykjavík, 24. janúar 2020

Umsögn Öryrkjabandalags Íslands (ÖBÍ) um drög að sameiginlegum reglum um akstursþjónustu fatlaðs fólks á höfuðborgarsvæðinu

ÖBÍ hefur fengið sent til umsagnar drög að reglum og þjónustulýsingu vegna akstursþjónustu fatlaðs fólks í þrem skjölum.

a) Drög að sameiginlegri akstursþjónustu fatlaðs fólks á höfuðborgarsvæðinu – sameiginlegar reglur.
b) Drög að sameiginlegri akstursþjónustu fatlaðs fólks á höfuðborgarsvæðinu – þjónustulýsing.
c) Drög að sameiginlegum reglum um akstur fatlaðra grunnskólabarna og viðauki við þjónustulýsingu.

Hér á eftir fara athugasemdir ÖBÍ um þessi drög, en rétt er fyrst að benda á áherslur ÖBÍ um akstursþjónustu fatlaðs fólks sem sendar voru sem erindi til vinnuhóps um endurskoðun um útboðsmál akstursþjónustu fatlaðs fólks á höfðuborgarsvæðinu, dags. 30. janúar 2019.

Áherslur ÖBÍ:
Í erindi ÖBÍ frá 30. janúar 2019 koma fram þær áherslur að:
• bílastyrkur Tryggingarstofnunar eigi ekki að hafa áhrif á þjónustuna
• einstaklingur sem náð hefur 67 ára aldri og hefur átt rétt á að nota akstursþjónustuna fram að því eigi að halda þeim rétti áfram
• ekki eigi að forgangsraða m.t.t. áfangastaðar og eðli ferðar
• ekki eigi að setja þak á ferðir
• bílstjórar eigi að aðstoða farþega með farangur ef þurfa þykir
• sveigjanleiki í ferðum eigi að gilda um heimferðir
• ekki eigi að afmarka ferðir við mörk sveitarfélags
• ekki eigi að standa fast á tveggja tíma pöntunarfyrirvara ferða
• starfsmenn fái rétta og tímanlega þjálfun
• myndavélar og hljóðupptaka séu í öllum akstursþjónustubílum, auk þess sem annar öryggisbúnaður verði að vera í lagi

Á kynningu á drögum um reglum og þjónustulýsingu vegna akstursþjónustu fatlaðs fólks á skrifstofu SSH þann 10. janúar 2020 kom fram að: 
• ferðafjöldi verður ekki takmarkaður
• bílastyrkur Tryggingarstofnunar mun ekki lengur hafa áhrif á þjónustuna
• hærra verð verður lagt á ferðir sem pantað er samdægurs
• myndavélar verða í öllum sérútbúnum bílum, með hljóðupptöku að fengnu leyfi frá Persónuvernd
• app mun halda utan um ferðirnar og sms tilkynningum hætt
• aksturstími verður styttur frá 01:00 til 24:00
• akstur verður lengri á hátíðardögum
Þá voru lögð fram rök fyrir því að fólk sem notar akstursþjónustuna eigi líka að fá ókeypis í strætó. Það er enda í samræmi við áherslur sveitarfélaganna um að „efla notendur til aukins sjálfstæðis og frekari virkni í notkun almenningssamgangna samhliða akstursþjónustu,“ sbr. kafla 1 í sameiginlegum reglum.

Þjónustulýsing:
• Í kafla 3.1.4 hefur þjónustutími verið styttur frá 01:00 til 24:00. Það getur valdið notendum þjónustunnar margvíslegum óþægindum og orðið til þess að þeir geti ekki farið á viðburði sem dragast fram yfir miðnætti, svo sem tónleika og bíósýningar. Félagsleg áhrif geta einnig verið þau að þeir verði að fara fyrr heim en þeir sem nýta sér strætó og miða við að geta tekið hann eftir miðnætti. Þetta skiptir ungt fólk sérstöku máli. Þjónustutími strætó, sem akstursþjónusta fatlaðra miðast við, er áfram til kl. 01:00. Þjónustutími akstursþjónustunnar þarf áfram að vera til kl. 01:00.
• Í kafla 3.1.6 segir að “Miðað er við að pantað sé með minnst tveggja klst. fyrirvara.“ Það á að vera hægt að óska eftir bíl með stuttum fyrirvara, þó svo að ekki sé hægt að tryggja að hann geti komið innan tveggja tíma. Það er, ef bíll sé laus eigi þjónustan að vera sveigjanleg og reyna að koma til móts við notendur hennar. Það má þó koma fram í skilmálum við notendur að ekki sé hægt að tryggja að bíll sé laus fyrr en eftir tveggja tíma frá pöntun.
• Æskilegt væri að bílstjórar aðstoði við að bera matvöru og slíkt inn og úr bíl og helst inn á heimili, eigi notandi erfitt með það. Tengist „Við sérstakar aðstæður skulu bílstjórar aðstoða notendur frá og að anddyri sé þess þörf.“ í 3.1.7.
• Í 3.1.7 segir að: „Notendur þurfa að vera tilbúnir til brottfarar í anddyri brottfararstaðar eða við hann 5 mínútum fyrir og 10 mínútum eftir pantaðan/áætlaðan komutíma bíls skv. tilkynningu í smáforriti.“ Miða skal við pantaðan en ekki áætlaðan komutíma. Ekki getur verið réttlætanlegt að bílstjóri keyri burt að 3 mínútum liðnum hafi hann komið fyrir þann tíma sem notandi hefur pantað og miðað við.
• Í kafla 3.2.5: Ekki er fjallað sérstaklega um hvaða öryggisbúnaður eigi að vera í bílunum. Reglugerð um gerð og búnað ökutækja er í vinnslu og væntanleg í vor, ásamt skoðunarhandbók Samgöngustofu. Rétt væri að vísa í hana. En það verður að koma fram að allir bílar eigi að vera útbúnir myndavélum með hljóðupptöku.
• Í kafla 3.1.9 segir: „Notanda er heimilt að hafa með sér einn farþega, enda greiði notandinn gjald fyrir hann. Börn undir grunnskólaaldri í fylgd með fötluðum foreldrum greiða ekkert. Gefa verður upplýsingar um viðbótarfarþega við pöntun.“ Eðlilegt er að öll börn á grunnskólaaldri fái að fylgja fötluðum foreldrum sínum í akstursþjónustu fatlaðra.
• Í kafla 3.3.3: Spurning er hvaða upplýsingar eiga erindi við starfsfólk sveitarfélaganna. Passa þarf upp á persónuverndarþáttinn.

Sameiginlegar reglur.
• Í kafla 1 segir: „Hafi einstaklingur sem orðinn er 67 ára talist fatlaður samkvæmt lögum nr. 38/2018 um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir og áður notað akstursþjónustu fatlaðs fólks fram að þeim aldri á hann rétt á henni áfram á meðan þörf krefur.“ Það er hæpið að meina fólki um akstursþjónustu fatlaðra enda getur fólk verið fatlað og fatlast óháð aldri. Fatlað fólk sem nær 67 ára aldri er áfram fatlað. Ekki nota heldur allir akstursþjónustuna fram að því en gæti þurft á henni að halda eftir að þeim aldri er náð. Í raun ætti aldursbreyta ekki að fyrirfinnast í reglum um akstursþjónustu fatlaðra heldur sé notað sama mat á þörf fyrir þjónustuna fyrir fólk sem náð hefur 67 ára aldri og aðra. Að minnsta kosti ætti í stað „áður notað“ að standa „áður átt rétt á að nota.“

• Í kafla 1 segir: „Skilyrði er að um sé að ræða varanlega hreyfihömlun eða hreyfihömlun sem hefur varað í þrjá mánuði eða lengur.“ Af hverju þetta skilyrði? Af hverju ætti einstaklingur að þurfa að sitja heima hjá sér í þrjá mánuði áður en hann fær að nota þjónustuna? Það má vel gefa út leyfi til styttri tíma en 2 ára, eins og gert er ráð fyrir í 2. mgr., 2. kafla.
• Í kafla 1 segir: „Með auknu upplýsingaflæði, leiðbeiningum og þjálfun munu sveitarfélögin vinna í sameiningu og í samstarfi við Strætó bs. að því að efla notendur til aukins sjálfstæðis og frekari virkni í notkun almenningssamgangna samhliða akstursþjónustu.“ Vissulega þarf að bæta þessa þætti en helsta ástæða fyrir því að fatlað fólk notar almenningssamgöngur lítið er vegna lélegs ástands biðstöðva sem eru á ábyrgð sveitarfélaganna.
• Í kafla 2 segir: „Þegar notandi akstursþjónustu fatlaðs fólks dvelur tímabundið utan þjónustusvæðis samkvæmt reglum þessum og óskar eftir akstursþjónustu þar sem hann er staddur, er það heimilt ef fyrirliggjandi er samþykkt viðkomandi sveitarfélags um akstursþjónustu. Þá skal einnig liggja fyrir samþykki dvalarsveitarfélags um veitingu þjónustunnar. Samþykkt skal vera tímabundin, að hámarki í þrjá mánuði.” Það á að vera nóg að vera samþykktur inn í akstursþjónustu í sínu heimasveitarfélagi, enda greiði það dvalarsveitarfélagi fyrir þjónustuna.
• Í kafla 8 segir: „Akstursþjónusta skal taka mið af þörfum hvers og eins. Félagsþjónustu hvers sveitarfélags er heimilt að setja þak á fjölda ferða.“ Slík takmörkun er ekki í samræmi við ákvæði samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólk, nýjar leiðbeinandi reglur um akstursþjónustu fatlaðra né kynningu á þessum reglum þ. 10. janúar 2020. Allar takmarkanir á fjölda ferða þurfa að fara úr reglunum og taka á mið af óskum og vilja hvers og eins.
• Í kafla 10 segir: „Ferð er skilgreind í reglum þessum sem akstur frá A til B innan þjónustusvæðisins.“ Við höfum lagt áherslu á að þar sem akstursþjónustan sé ígildi strætós og landsbyggðarstrætó sé óaðgengilegur megi akstursþjónustan ekki takmarkast við mörk sveitarfélagsins. Gjaldskráin megi vel hækka í samræmi við gjaldskrá Strætó eftir því hvert farið er.
• Í kafla 13 þarf að segja sérstaklega að allir bílar eigi að vera útbúnir myndavélum með hljóðupptöku, eins og talað hefur verið um. Þá þarf að tala um að öryggisbúnaður í bifreiðum eigi að fylgja ákvæðum væntanlegrar reglugerðar um gerð og búnað ökutækja og væntanleg í skoðunarhandbók Samgöngustofu.

Sameiginlegar reglur um skólaakstur fatlaðra grunnskólabarna.
• Stuðst er við „leiðbeinandi reglur velferðarráðuneytisins fyrir sveitarfélög um ferðaþjónustu fyrir fatlað fólk frá 24. janúar 2012.” Nýjar leiðbeinandi reglur eru í vinnslu og verða væntanlega gefnar út í byrjun febrúar. Réttara væri að taka mið af þeim.
• Í kafla 1.1 segir: „Átt er við skipulagðan sameiginlegan akstur grunnskólabarna í og úr skóla á fyrirfram ákveðnum tíma á morgnana þannig að nemendur séu mættir í skólann á tilsettum tíma og heim síðdegis þegar skóla lýkur.“ Væntanlega á aksturinn ekki aðeins við um skóla heldur einnig frístundaheimili.
• Í kafla 3.3.1 segir: Ábendingar foreldra um þjónustuna sem berast til skólaþjónustu sveitarfélaganna skal senda í tölvupósti til Strætó bs. Starfsmaður í þjónustuveri miðlar upplýsingum til skilgreindra aðila hjá skólaþjónustu hlutaðeigandi sveitarfélags.“ Þetta virðist vera óþarflega flókin samskiptaleið sem býður upp á hættu á því að ábendingar glatist á leiðnni.

Ekkert um okkur án okkar.

Með vinsemd og virðingu, 

Ingveldur Jónsdóttir, formaður málefnahóps ÖBÍ um aðgengi

Stefán Vilbergsson, verkefnastjóri


Fylgiskjal: 2019-01-30 Athugasemdir við reglur og þjónustulýsingu akstursþjónustu fatlaðs fólks á höfuðborgarsvæðinu