Skip to main content
Umsögn

Umsögn ÖBÍ – Leiðbeinandi reglur fyrir sveitarfélög um styrki til náms og verkfæra- og tækjakaupa fatlaðs fólk

By 13. júní 2019No Comments
Lógó ÖBÍ á bréfsefniFélagsmálaráðuneytið
Skógarhlíð 6
105 Reykjavík
 
 
Reykjavík, 8. febrúar 2019
 
Efni: Leiðbeinandi reglur fyrir sveitarfélög um styrki til náms og verkfæra- og tækjakaupa fatlaðs fólk
Það segir í reglunum að sveitarfélögum sé heimilt að veita fötluðu fólki styrki eða fyrirgreiðslu vegna félagslegrar hæfingar og endurhæfingar til verkfæra- og tækjakaupa eða aðra fyrirgreiðslu vegna heimavinnu eða sjálfstæðrar starfsemi að endurhæfingu lokinni og til greiðslu námskostnaðar sem ekki er greiddur samkvæmt ákvæðum annarra laga.
 

Verkfæri og tæki eru ekki sérstaklega skilgreind í reglunum og því er óljóst hver munurinn er á þeim og hjálpartækjum, en sveitarfélögum er skylt að annast afgreiðslu umsókna vegna hjálpartækja til fatlaðra einstaklinga til náms (16 ára og eldri) og atvinnu (18 ára og eldri), skv. 7. gr. reglugerðar um styrki vegna hjálpartækja nr. 1155/2013. Það er æskilegt að skilgreining fylgi.

Þá væri æskilegt að skilgreina viðeigandi aðlögun, en hún merkir nauðsynlegar og viðeigandi breytingar og lagfæringar, sem eru ekki umfram það sem eðlilegt má teljast eða of íþyngjandi, þar sem þeirra er þörf í sérstöku tilviki, til þess að tryggt sé að fatlað fólk fái notið eða geti nýtt sér, til jafns við aðra, öll mannréttindi og grundvallarfrelsi.

Í dæmum um mögulega forgangsröðun eða áherslusvið við úthlutun styrkja í 2. mgr., 2. gr., er talið eðlilegt að sveitarfélag þar sem framhaldsskóli er starfræktur eigi kost á því að kaupa fartölvu sem gagnast við námið. Hér er gengið út frá mismunun milli nemenda út frá búsetu sem eðlilegum hlut.

Í reglurnar vantar alveg leiðbeiningar um skörun á þjónustu milli sveitarfélaga, t.d. ef einstaklingur stundar nám eða vinnu í öðru sveitarfélagi.

Einnig er tekið sem dæmi að sveitarfélag geti forgangsraðað styrkjum eftir því hvernig hæfing geti nýst á vinnumarkaði, með tilliti til aldurs umsækjenda. Hér er hugsanlega verið að veita heimild til að mismuna fólki vegna þess að lítið sé eftir af starfsaldri.

Í 4. gr. er sett sem málefnalegt skilyrði að fyrir liggi staðfesting á skráningu í nám eða námskeið. Yfirleitt þarf að greiða staðfestingargjald við skráningu í nám eða námskeið. Ef einstaklingur er háður því að fá styrk til tækja- eða verkfærakaupa til að stunda téð nám, ætti hann ekki að þurfa að greiða staðfestingargjald upp á von og óvon.

Í 4. gr. er það skilyrði sett að umsækjandi eða talsmaður hans „…lýsi því yfir að aðrir möguleikar til styrkja hafi verið kannaðir og nýttir. Í þessu sambandi er vísað til sjóða stéttarfélaga sem umsækjandi greiðir til, lögbundinna framlaga vegna hjálpartækja og þess ef nám er lánshæft samkvæmt lögum og úthlutunarreglum Lánasjóðs íslenskra námsmanna.“ Ekki er eðlilegt að krefjast þess að umsækjandi sæki í eigin sjóði vegna kaupa á tækjum eða verkfærum sem teljast nauðsynleg, sveitarfélögum ber sjálfum að veita lögbundin framlög vegna hjálpartækja eins og komið er inn á hér að ofan og þá er ekki eðlilegt að krefjast þess að umsækjandi sæki um námslán til kaupa á tækjum eða verkfærum sem teljast nauðsynleg. Það eykur ekki möguleika einstaklingsins til að sækja sér menntun ef umsókn um styrk til skólagjalda er synjað vegna þess að námið er lánshæft. Þá verður að líta til þess að fatlað fólk getur oft ekki stundað fullt nám, sem kemur niður á lánshæfni þess.

Í 4.gr. er tekið fram að aðstoðin sé einstaklingsbundin en renni ekki til fyritækis. Styrkur til að veita viðeigandi aðlögun á vinnustað er sannarlega einstaklingsbundin en getur þó verið í því formi að það sé til að mynda breyting á húsnæði fyrirtækis.

Í 4. gr. er fjallað um þau gögn sem umsækjandi þarf að skila inn vegna umsóknar og eru örorkuskírteini og læknisvottorð þar talið upp. Fatlað fólk er ekki allt með örorkuskírteini og því væri einkennilegt að það væri skilyrði fyrir úthlutun. Ef umsækjandi hefur þegar skilað inn læknisvottorði til sveitarfélagsins vegna sinnar fötlunar ætti ekki að vera skilyrði að viðkomandi skili inn læknisvottorði að nýju í sambandi við styrki. Það er ólíðandi að fatlað fólk sé sífellt krafið um læknisvottorð til að staðfesta sína fötlun.

Í 1. mgr., 8. gr. er sveitarfélagi „…heimilt að úthluta einu sinni á ári á grundvelli auglýsingar, sbr. 7. gr., eða afgreiða umsóknir innan tiltekins tímabils.“ Ekki er rétt að miða úthlutanir við ákveðnar dagsetningar eða tímabil, heldur vinna þær á ársgrundvelli. Nám eða starf getur staðið til boða hvenær sem er árs. Það er ekki æskilegt að einstaklingar verði að hafna úrræðum vegna þess að úthlutunarfrestur er nýliðinn.

Þá er sveitarfélögum gefin heimild skv. 2. og 3. mgr, 8. gr. að takmarka úthlutanir til einstaklings við ákveðið hlutfall eða tíðni. Rétt er að takmarka ekki möguleika einstaklinga á hæfingu eða endurhæfingu með þessum hætti, heldur ganga út frá virkni hans sem forgangsatriði.

Ekkert um okkur án okkar!
 
Fyrir hönd Öryrkjabandalags Íslands (ÖBÍ), 
Þórdís Viborg og Stefán Vilbergsson