Þrátt fyrir að í lögum um mannvirki og byggingarreglugerð séu ákvæði um aðgengi fyrir alla og algilda hönnun er ekkert virkt eftirlit með því að þau ákvæði séu virt. Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks var fullgiltur síðastliðið haust, en enn komast eigendur mannvirkja upp með að reisa og breyta byggingum án þess að virða aðgengiskröfur. Málefnahópur ÖBÍ um aðgengi vill að komið verið á aðgengiseftirliti um allt land. Því verði sinnt af slökkviliðum landsins sem þegar sinna eldvarnareftirliti í öllum sveitarfélögum. Það hefur verið staðfest við málefnahópinn að slökkviliðin geti sinnt aðgengiseftirliti samhliða öðrum verkefnum. Hægt sé að beita dagsektum ef aðgengisstöðlum sé ekki fylgt eftir.
Aðalfundur Öryrkjabandalags Íslands, haldinn 20. – 21. október 2017, skorar á alla þingmenn sem munu taka sæti á Alþingi að loknum alþingiskosningum 28. október nk. að koma á aðgengiseftirliti.