
ÖBÍ / Ruth Ásgeirsdóttir
„Að mati ÖBÍ skortir oft á að tekið sé tillit til stöðu fatlaðs fólks við framkvæmd fullnustugerða hjá sýslumanni.“
ÖBÍ réttindasamtök (ÖBÍ) eru heildarsamtök fatlaðs fólks á Íslandi. Að mati samtakanna kunna að felast tækifæri í þeirri breyttu skipan sem frumvarpið mælir fyrir um til að bæta þjónustu sýslumanns og aðgengi að henni í þágu fatlaðs fólks. ÖBÍ minnir í þessu sambandi á áform ríkisstjórnarinnar um lögfestingu Samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks (SRFF).
Með frumvarpinu er m.a. stefnt að því að bæta þjónustu sýslumanns með notkun stafrænna lausna og stuðla að hraðari innleiðingu þeirra í störfum sýslumanns. ÖBÍ styður þau áform en leggur þó áherslu á að áður en hafist verður handa við innleiðingu slíkra lausna verði tryggt að viðmiðum um stafrænt aðgengi fyrir fatlað fólk verði fylgt. Auk þess að tryggja með því lögboðin réttindi fatlaðs fólks er með slíkri fyrirhyggju komið í veg fyrir mögulegar kostnaðarsamar úrbætur síðar. Samkvæmt b-lið 1. mgr. 9. gr. SRFF ber aðildarríkjum að bera kennsl á og útrýma hindrunum og tálmunum aðgengis fyrir fatlað fólk þar á meðal hvað varðar rafræna þjónustu. Einnig er vísað til tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins nr. 2016/2102 um aðgengi vefsetra opinberra aðila og smáforrita þeirra fyrir fartæki sem tekin hefur verið upp í EES samninginn. Minnt er á yfirstandandi áform ríkisstjórnarinnar um innleiðingu tilskipunarinnar og áform um að innleiða evrópska aðgengisstaðalinn EN 301 549 sem inniheldur WCAG staðalinn sem leiðbeinir um hvernig skuli ganga frá vefefni þannig að það sé aðgengilegt öllum.
Líkt og fram kemur í greinargerð frumvarpsins fara sýslumenn með umboð fyrir Tryggingastofnun og Sjúkratryggingar á landsbyggðinni. Um er að ræða stofnanir sem mikill fjöldi fatlaðs fólks um allt land þarf að sækja þjónustu til. Tryggja verður að fatlað fólk hafi óheftan aðgang að þjónustu þeirra og að jafnræðis sé gætt. Markmið frumvarpsins um hagræðingu í rekstri mega ekki felast í því að skerða aðgengi fatlaðs fólks að þjónustu stofnananna. Sömu sjónarmið eiga við um umsýslu sýslumanns á samningum persónulegra talsmanna fyrir fatlað fólk, sbr. lög nr. 88/2011. ÖBÍ hvetur til þess að stefnt verði að því að bæta aðgengi fatlaðs fólks að allri þjónustu sýslumanna óháð búsetu. Vísað er til 1. mgr. 9. gr. SRFF, en þar segir: „Til að gera fötluðu fólki kleift að lifa sjálfstæðu lífi og taka fullan þátt á öllum sviðum lífsins skulu aðildarríkin gera viðeigandi ráðstafanir til að tryggja fötluðu fólki aðgengi, til jafns við aðra, að efnislegu umhverfi sínu, samgöngum, upplýsingum og samskiptum, þ.m.t. samskiptatækni og -kerfi og að annarri aðstöðu og þjónustu sem opin er eða veitt almenningi hvort sem er í þéttbýli eða dreifbýli“.
Þá vill ÖBÍ nýta tækifærið til að vekja athygli á öðrum málum sem varða störf sýslumanns:
Bifreiðar og aðrir munir sem eru nauðsynlegir vegna örorku eða heilsubrest eru undanþegnir fjárnámi, sbr. 2. tl. 2. mgr. 43. gr. laga nr. 90/1989 um aðför. Komi fram beiðni um fjárnám slíkra bifreiða fær sýslumaður þó í framkvæmd ekki sjálfkrafa upplýsingar um það. Dæmi eru um að gerð séu fjárnám í slíkum bifreiðum þrátt fyrir að um undanþegin nauðsynleg hjálpartæki vegna fötlunar sé að ræða. Að mati ÖBÍ mætti finna lausn á þessu vandamáli með innleiðingu starfrænna lausna.
Sýslumaður hefur það hlutverk að halda utan um gagnagrunn um handhafa stæðiskorta fyrir hreyfihamlað fólk. Samkvæmt 87. gr. umferðarlaga nr. 77/2019 eiga handhafar stæðiskorta fyrir hreyfihamlaða rétt á að leggja bifreiðum í jafnt gjaldskyld sem ógjaldskyld bílastæði án greiðslu. Stæðiskort eru sýnileg í framrúðu bifreiða svo bílastæðaverðir geti sannreynt notandann og gildistímann. Stafrænt myndavélaeftirlit í bílastæðahúsum sem hefur orðið algengt að undanförnu greinir ekki stæðiskort í bifreiðum sem gerir það af verkum að stæðiskorthafar eru rukkaðir þrátt fyrir rétt sinn til að leggja gjaldfrjáls. ÖBÍ leggur til að fundin verði lausn á því vandamáli með starfrænum lausnum hjá sýslumanni.
Að mati ÖBÍ skortir oft á að tekið sé tillit til stöðu fatlaðs fólks við framkvæmd fullnustugerða hjá sýslumanni. ÖBÍ hefur t.a.m. höfðað mál fyrir héraðsdómi vegna framkvæmdar nauðungarsölu á fasteign fatlaðs manns þar sem um slíkt var að ræða að mati samtakanna. Að mati ÖBÍ ætti að gera kröfu um að þekking sé til staðar hjá sýslumanni á málefnum fatlaðs fólks með sama hætti og gerð er krafa um á meðal starfsfólks lögreglu, fangelsa og dómstóla, sbr. 13. gr. SRFF. Einnig ætti að mati ÖBÍ að tryggja fötluðu fólki rétt til að hafa með sér hæfan stuðningsaðila við framkvæmd fullnustugerða á hendur sér með sama hætti og kveðið er á um í 61. gr., 113. gr. og 123. gr. laga um meðferða sakamála nr. 88/2008.
ÖBÍ vekur athygli á mikilvægi þess að við ráðningar í störf hjá sýslumanni verði leitast við að tryggja fötluðu fólki jafnrétti, eftir atvikum með því að tryggja aðgengi og viðeigandi aðlögun . Í því sambandi minnir ÖBÍ á víðtækar breytingar á örorkulífeyriskerfinu sem taka munu gildi 1. september 2025, sbr. lög nr. 104/2024. Með lögunum er stefnt að stóraukinni þátttöku fólks með skerta starfsgetu á vinnumarkaði. Til að svo megi verða er nauðsynlegt að stjórnvöld gangi fram með fordæmi um að tryggja fötluðu fólki jafnrétti á vinnumarkaði, sbr. einnig 27. gr. SRFF.
ÖBÍ mun koma á framfæri frekari athugasemdum á seinni stigum málsins gerist þess þörf.
Ekkert um okkur án okkar!
Með vinsemd og virðingu,
Alma Ýr Ingólfsdóttir
formaður ÖBÍ
Sigurður Árnason
lögfræðingur ÖBÍ
Sýslumaður
186. mál, lagafrumvarp.
Umsögn ÖBÍ, 8. apríl 2025