
„Það eru ákveðin vonbrigði að íslensk stjórnvöld ætli sér að innleiða þessi viðmið með þeim hætti sem lýst er í frumvarpinu sem hér er til umsagnar.“
ÖBÍ réttindasamtök (ÖBÍ) vilja koma eftirfarandi á framfæri um frumvarp til laga um skipan upplýsingatækni í rekstri ríkisins, þskj. 146 — 141. mál.
Almennt
Það ætti ekki að hafa farið fram hjá neinum að það hefur staðið styr um innleiðingu upplýsingatækni í rekstri hins opinbera þar sem ákveðnir hópar fatlaðs fólks hafa setið eftir og einangrast vegna þess að ekki var hugað að þörfum þeirra við þróun lausna. Óljóst er um hversu stóran hóp um ræðir, þá er ekki vitað hvernig hópurinn er staddur eða nákvæmlega hvaða þarfir um ræðir sökum þess að hið opinbera hefur ekki gert neinar almennar þarfagreiningar eða kannanir.
Þær afmörkuðu kannanir sem gerðar hafa verið sýna að fjölbreyttir hópar upplifa alvarlega vankanta við stafræna umbyltingu, þar er stærstur hópur eldra fólks og þá sérstaklega þau sem eru með aldurstengdar skerðingar, en það eru t.d. sjón, heyrn og hreyfiskerðingar sem koma fram vegna líffræðilegrar hrörnunar. Aðrir hópar sem gjarnan verða undir er fólk með þroskahömlun, hreyfihamlað fólk, fólk með heilabilun og blint og sjónskert fólk. Stór hluti þessa fólks gæti nýtt sér stafrænar lausnir en eru skilin eftir annaðhvort vegna illa hannaðra umsóknar- og innskráningarferla sem ekki taka tillit til tjáskiptaleiða og stoðtækni eða sökum þess að kerfin á bak við eru óaðgengileg.
Það hefur verið tilviljunum háð hvort fatlað fólk hefur haft aðgang að stafrænni þjónustu og upplýsingum, þar sem ekkert samhæft verklag hefur verið og engum stöðlum hefur verið fylgt. Slíkt verkleg er aftur á móti viðhaft nágrannalöndum okkar með því að nota gagnreynd ferli, staðla og eftirfylgd sem hafa verið þróuð út frá aðgengislöggjöf Evrópusambandsins (ESB 882/2102) og hafa verið innleidd alls staðar á Evrópska efnahagssvæðinu og í Noregi. Norska innleiðingin er til fyrirmyndar, en eftir að Norðmenn hikuðu með innleiðingu, líkt og íslensk stjórnvöld, ákváðu þeir að standa mjög myndarlega að henni og voru gerðar metnaðarfullar áætlanir.
Athugasemdir
Það eru ákveðin vonbrigði að íslensk stjórnvöld ætli sér að innleiða þessi viðmið með þeim hætti sem lýst er í frumvarpinu sem hér er til umsagnar. ÖBÍ og aðildarfélög hafa barist árum saman fyrir þessari löggjöf og ítrekað bent á hvernig hægt er að tryggja mannréttindi og spara kostnað hins opinbera með því að beita henni, þá er frumvarpið mjög óræðið í nálgun sinni. Hvergi er að finna kafla um stafrænt aðgengi. Hvergi er gengist við skuldbindingu hvað varðar lögfestingu, heldur einungis talað um heimildir ráðherra til að innleiða staðla og reglugerð. Svo virðist sem fjármálaráðuneytið eigi að sinna innleiðingu, beita stöðlum í sinni hönnun (Stafrænt Ísland) og sinna eftirliti með hönnun – en þá þyrfti ráðuneytið að ávíta sjálft sig fyrir að fylgja ekki viðmiðum. Ef svo er ætlar ráðuneytið að sinna frumkvæðisathugunum á t.d. appi Landsspítalans en á því hefur ekki verið gerð aðgengisúttekt en er engu að síður til notkunar og hópur fólks sem ekki getur nýtt það?
Engin tímamörk er að finna né aðferðarfræði innleiðingar og einungis er hugað að innleiðingu af elstu aðgengisreglugerðinni sem íslensk stjórnvöld hafa þegar skuldbundið sig til að innleiða. Þannig er hægt að ímynda sér áframhaldandi bið, sóun almannafés í óaðgengilegar lausnir og flókin og tilviljunarkennd mannréttindabrot þar sem fjölbreyttur hópur fólks hafa ekki aðgang að upplýsingum og þjónustu frá hinu opinbera. Þetta viðgengst þrátt fyrir ötula baráttu hagsmunasamtaka, neikvæða úrskurði kærunefnda, eftirgrennslan frá ESA og athugasemdir frá umboðsmanni Alþingis.
ÖBÍ hvetur til þess að betur verði tekið á þessum málum og að tryggð verði sjálfsögð mannréttindi fatlaðs fólks um jafnt aðgengi að þjónustu og upplýsingum með því að lögfesta tilskipanir ESB 2016/2102 og ESB 2019/882. Síðarnefnd tilskipun tekur gildi í sumar á Evrópska efnahagssvæðinu og mun skilja Ísland eftir í stafrænni miðöld. þar sem við erum enn að íhuga það hvort hægt sé að veita ráðherra heimild til þess að leggja til að opinberir aðilar veiti fólki jafnt aðgengi að stafrænum innviðum óháð fötlun.
Hér er eingöngu snert á aðgengishluta þessa frumvarps, en það má að sjálfsögðu fagna því að sett verði skýrari viðmið um hver beri ábyrgð og hver hafi skilgreiningarvald þegar kemur að stafrænum lausnum. Það er að mörgu leiti fagnaðarefni að eitt ráðuneyti stígi fram fyrir skjöldu. Lítil sem engin þekking er innan fjármálaráðuneytisins á stöðu eða þörfum fatlaðs fólks og lítur félags- og húsnæðismálaráðuneytið, sem fer með málaflokk fatlaðs fólks, svo á að það beri ekki ábyrgð á stafrænu aðgengi. Sökum þess hefur fatlað fólk og fólk með aldurstengdar skerðingar ítrekað lent á milli skips og bryggju, og mun gera það áfram þrátt verði þetta frumvarp að lögum þar sem hvergi er í sjónmáli áætlun um að taka þessi mál fastari tökum.
Ekkert um okkur án okkar.
Virðingarfyllst,
Alma Ýr Ingólfsdóttir
formaður ÖBÍ réttindasamtaka
Rósa María Hjörvar
stafrænn verkefnastjóri ÖBÍ réttindasamtaka
Skipan upplýsingatækni í rekstri ríkisins
141. mál, lagafrumvarp.
Umsögn ÖBÍ, 7. apríl 2025