„Til ÖBÍ leitar fjöldi einstaklinga sem horfa fram á að framfærsla þeirra muni lækka umtalsvert þegar lögunum er ætlað að taka gildi 1. janúar 2025.“
1. Inngangur
ÖBÍ harmar að í frumvarpinu [Skattar og gjöld (nýsköpun, virðisaukaskattur o.fl.)] er ekki kveðið á um brottfall a-liðar 11. gr. laga um skatta og gjöld, nr. 102/2023 eða frestun á gildistöku ákvæðisins.
Eins og Alþingi er kunnugt um felur ákvæðið í sér afnám persónuafsláttar örorku- og ellilífeyristaka búsettum erlendis. Lög nr. 102/2023 voru til meðferðar hjá efnahags- og viðskiptanefnd á 154. löggjafarþingi. Lögin voru samþykkt af Alþingi en gildistöku a-liðar 11. gr. laganna var frestað til 1. janúar 2025. Í nefndaráliti með breytingatillögu meirihluta efnahags- og viðskiptanefndar dags. 15. desember 2023 á þingskjali nr. 825 var gerður svohljóðandi áskilnaður í tengslum við frestun gildistöku ákvæðisins:
„Meiri hlutinn leggur til að fresta gildistöku a-liðar 11. gr. Meiri hlutinn telur að kanna þurfi áhrif ákvæðisins betur. Þá þurfi að afla frekari upplýsinga um þá sem kunna að verða fyrir áhrifum þegar ákvæðið tekur gildi.“
Sú könnun sem áskilin var í álitinu hefur ekki farið fram og því liggur ekki fyrir hver áhrif ákvæðisins yrðu á lífeyristaka búsettum erlendis taki það gildi. Þar sem þing hefur nú verið rofið telur ÖBÍ útséð um að tillaga um að fella a-lið 11. gr. laga nr. 102/2023 úr gildi getur ekki hlotið tilhlýðilega þinglega meðferð fyrir áætlaða gildistöku ákvæðisins þann 1. janúar 2025. Einnig að fullnægjandi könnun á áhrifum ákvæðisins muni ekki liggja fyrir í tæka tíð.
Í umræðum um það frumvarp sem hér er til umsagnar á Alþingi 24. október s.l. var fjármálaráðherra spurður um hvort ekki stæði til að fresta gildistöku laganna. Svaraði fjármálaráðherra því til að það stæði ekki til. Einnig að fólk sem hefði 75% tekna sinna á íslandi gæti sótt um að hafa skattalega heimilisfesti hér á landi og að þeir sem ekki nytu persónuafsláttar frá Íslandi myndi gera það í búseturíki sínu. ÖBÍ vill annars vegar benda á að ekki allir lífeyristakar búsettir erlendis geta sótt um að hafa skattalega heimilisfesti þrátt fyrir að hafa 75% tekna sinna hér á landi. Hins vegar að persónuafsláttur eða sambærileg úrræði eru ekki veitt í öllum ríkjum. Í kaflanum hér á eftir eru fjallað ítarlegar um þær afleiðingar sem lögin hafa fyrir lífeyristaka búsettum erlendis og þá óvissum sem að öðru leiti ríkir um áhrif laganna.
2. Um áhrif gildistöku a-liðar 11. gr. laga nr. 102/2023
Til ÖBÍ leitar fjöldi einstaklinga sem horfa fram á að framfærsla þeirra muni lækka umtalsvert þegar lögunum er ætlað að taka gildi 1. janúar 2025. Að óbreyttu muni framfærsla þeirra lækka sem nemur persónuafslætti á Íslandi. Fjárhæð persónuafsláttar fyrir árið 2025, m.v. fyrirhugaða 6,3% hækkun persónuafsláttar samkvæmt fyrirliggjandi fjárlagafrumvarpi myndi nema 69.016 kr. á mánuði eða 828.192 kr. fyrir allt árið. Ljóst er að slík lækkun er mikið fjárhagslegt áfall fyrir örorkulífeyristaka en um er að ræða þann hóp sem hvað verst má við lækkun á framfærslu sinni.
Í greinargerð með frumvarpi að lögum nr. 102/2023 segir að persónuafsláttur sé almennt veittur í því ríki þar sem viðkomandi er búsettur. Þar segir einnig að ekki sé fyrirséð að breytingin hafi mikil áhrif á núverandi réttarástand þar sem flestir tvísköttunarsamningar Íslands heimili eingöngu búseturíkinu skattlagningarrétt á lífeyri. Þá var vísað til þess að ef einstaklingur er búsettur innan Evrópska efnahagssvæðisins og er með meiri hluta tekna sinna frá Íslandi geti hann sótt um að vera skattlagður líkt og hann væri með heimilisfesti hér á landi, sbr. 70. gr. a. laga um tekjuskatt nr. 90/2003 (tekjuskattslög). Með vísan til þeirrar umfjöllunar sem hér fer á eftir telur ÖBÍ framangreind rök fyrir lagabreytingunni ekki gefa rétta mynd af áhrifum laganna.
Það fer eftir löggjöf hvers ríkis hver áhrif laganna verða fyrir einstaklinga sem búsettir eru erlendis en fá greiddan lífeyri frá Íslandi. Í sumum ríkjum er ekki veittur neinn persónuafsláttur líkt og á Íslandi og í slíkum tilvikum fengju lífeyristakar persónuafslátt í hvorugu ríkinu tækju lögin gildi. Dæmi um ríki sem ekki hefur samskonar persónuafslátt er Noregur. Sem fyrr segir hefur könnun á áhrifum laganna ekki farið fram og því liggja áhrif í viðeigandi búseturíkjum ekki fyrir. Tekjuárið 2023 bjuggu 5.136 lífeyristakar í 24 tilgreindum ríkjum auk fleiri ríkja sem skilgreind eru sem önnur ríki (24 lífeyristakar) og „Útlönd ótilgreint“ (80 lífeyristakar).
Hvorki með frumvarpi að lögum nr. 102/2023 né svörum fjármálaráðherra við fyrirspurnum um málið hefur verið gengið úr skugga um að tvísköttunarsamningar tryggi að þeir sem missa persónuafslátt sinn vegna gildistöku laganna fái úr því bætt í búseturíki. Ísland á aðild að 42 tvísköttunarsamningum og ljóst að við ýmis ríki hefur ekki verið gerður tvísköttunarsamningur. Ákvæði þeirra samninga sem eru í gildi um skattlagningu á lífeyri eru ólík og áhrif laganna á lífeyristaka því einnig ólík eftir búseturíki. Í greinargerðinni með lögunum segir að flestir tvísköttunarsamningar Íslands heimili eingöngu búseturíkinu skattlagningarrétt á lífeyri.
ÖBÍ bendir á að ólíkar reglur gilda um lífeyri eftir því hvort um er að ræða lífeyri úr almannatryggingum, almennum lífeyrissjóðum eða lífeyrissjóðum opinberra starfsmanna. Þá er bent á að 57% þeirra lífeyristaka sem eru búsett erlendis falla undir einn tvísköttunarsamning, þ.e. tvísköttunarsamning Norðurlandanna. Sá samningur kveður á um að upprunaríki, þ.e. Ísland í þessu samhengi, megi skattleggja lífeyri úr almannatryggingum og almennum lífeyrissjóðum. Af tvísköttunarsamningunum 42 heimila 13 að upprunaríki skattleggi lífeyri úr almannatryggingum. Samkvæmt nokkrum samningum, þ.m.t. við Bandaríkin og Bretland, er það eingöngu upprunaríkið sem má skattleggja lífeyri úr almannatryggingum. Samanlagður fjöldi lífeyristaka búsettur í þessum tveimur ríkjum tekjuárið 2023 er 412. ÖBÍ fær ekki betur séð en að þeir einstaklingar muni missa persónuafslátt sinn við gildistöku laganna. Óljóst er hvort þeir einstaklingar fái það bætt upp með einhverjum hætti með skattalöggjöf búseturíkjanna.
Heimild til að sækja um undanþágu skv. 70. gr. a. tekjuskattslaga stendur ekki öllum til boða. Heimildin er aðeins í boði fyrir þá sem eru búsettir á EES svæðinu, innan EFTA ríkjanna og í Færeyjum. Heildarfjöldi lífeyristaka búsettir erlendis sem fengu lífeyrisgreiðslur frá Íslandi tekjuárið 2023 var 5.258. Þar af má áætla að um 12% séu búsettir utan fyrrnefndra ríkja. Sá fjöldi, yfir 650 einstaklingar, getur ekki sótt um undanþáguna. Sem dæmi má nefna að samanlagður fjöldi lífeyristaka sem eru búsettir í Bandaríkjunum og Bretlandi er sem fyrr segir 412 og geta þeir ekki nýtt sér heimildina. Þá gildir heimild 70. gr. a. tekjuskattslaga aðeins fyrir þá sem eru með 75% af heildartekjum sínum frá Íslandi eða meira. Þeir sem eru með 74% eða minna af heildartekjum sínum á Íslandi geta ekki nýtt sér heimildina.
Þá geta fylgt því ýmsir ókostir að vera búsettur erlendis en bera skattskyldu líkt og viðkomandi væri búsettur á Íslandi, sbr. heimild 70. gr. a. tekjuskattslaga. Þeim sem eru með skattalega heimilisfesti á Íslandi ber að greiða tekjuskatt, útsvar, auðlegðarskatt, fjármagnstekjuskatt, gjald í framkvæmdasjóð aldraðra og útvarpsgjald sem þau væru búsett hér á landi. Ljóst er að í mörgum tilvikum er um að ræða útgjöld sem ekki gagnast þeim sem ekki eru búsettir hér á landi. Útvarpsgjald nemur t.a.m. 20.900 kr. vegna ársins 2024 og gjald í framkvæmdasjóð aldraðra er 13.749 kr. við álagningu 2024.
Annar ókostur er að sá sem ber takmarkaða skattskyldu á Íslandi greiðir 12% skatt af vaxtatekjum en 22% ef hann yrði skattlagður skv. heimild 70. gr. a. tekjuskattslaga, sbr. a-lið 8. tl., 1. mgr. 70. gr. laganna. ÖBÍ telur að kanna verði einnig hvort einstaklingur sem greiðir skatta líkt og hann væri búsettur á Íslandi verði af opinberri þjónustu í búseturíki, t.d. heilbrigðisþjónustu, nema að viðkomandi greiði einnig tiltekna skatta og gjöld þar. Aukin kjaraskerðing fælist í því að greiða fyrir slíka opinbera þjónustu í tveimur ríkjum að óþörfu.
Þá bendir ÖBÍ á að samkvæmt tekjuskattslögum er sótt um undanþágu skv. 70. gr. a. tekjuskattslaga eftir á. Þeir sem vilja sækja um vegna tekjuársins 2025 fá ekki persónuafslátt það ár og geta fyrst óskað eftir honum árið 2026. Ef þau fá umsóknina samþykkta byrja þau að líkindum að fá endurgreiðslu á ofgreiddum skatti í júní 2026, þ.e. einu og hálfu ári eftir að tekjuárið hófst. ÖBÍ telur ljóst að örorkulífeyristakar eru sá hópur sem er hvað verst undir það búinn að taka á sig tímabundna lækkun á framfærslu og áralanga bið eftir leiðréttingu. Einnig er ljóst að sá sem óskar eftir undanþágunni veit ekki fyrr en að lokinni álagningu á árinu 2026 hvort tekjur hans frá Íslandi árið 2025 náðu því að vera 75% af heildartekjum. Fyrr veit hann ekki hvort hann á rétt á að nýta heimildina.
Með vísan til alls framangreinds skora ÖBÍ réttindasamtök á Alþingi að fella úr gildi a-lið 11. gr. laga nr. 102/2023 eða fresta gildistöku ákvæðisins um að minnsta kosti eitt ár.
Ekkert um okkur án okkar!
Alma Ýr Ingólfsdóttir
formaður ÖBÍ réttindasamtaka
Sigríður Hanna Ingólfsdóttir
félagsráðgjafi ÖBÍ réttindasamtaka
Gunnar Alexander Ólafsson
hagfræðingur ÖBÍ réttindasamtaka
Sigurður Árnason
lögfræðingur ÖBÍ réttindasamtaka
Skattar og gjöld (nýsköpun, virðisaukaskattur o.fl.)
300. mál, lagafrumvarp.
Umsögn ÖBÍ, 31. október 2024