Skip to main content
HeilbrigðismálSjúkratryggingarUmsögn

Sjúkratryggingar (ýmsar breytingar)

By 19. mars 2025No Comments
Heilbrigðismál-Sérfræðilæknir-AdobeStock_-b-331546261

Umsögn um breytingu á lögum um sjúkratryggingar nr. 112/2008

ÖBÍ réttindasamtök hafa fengið til umfjöllunar ofangreint frumvarp. ÖBÍ vill koma á framfæri eftirfarandi athugasemdum, en að mati ÖBÍ hafa breytingarnar bæði neikvæð og jákvæð áhrif á fatlað fólk.

Grundvallarbreyting á stöðu sjúkratryggða erlendis

ÖBÍ lýsir yfir áhyggjum sínum af þeim harða tóni sem er að finna 15. gr. frumvarpsins en þar segir: “Nú er sjúkratryggðum, sem fellur undir 11.,12. eða 15. gr. laga þessara, nauðsyn að leita sér lækninga þar sem hann er staddur erlendis, í búsetulandi eða í tengslum við störf, og greiða þá sjúkratryggingar kostnað af því eins og um læknishjálp innan lands væri að ræða.”

Í raun þýðir ákvæðið að þurfi sjúkratryggður einstaklingur sem er staddur erlendis utan EES svæðisins á læknisþjónustu að halda, að greiða kostnaðinn úr eigin vasa en fær svo endurgreitt frá Sjúkratryggingum Íslands (SÍ) því sem nemur kostnaði sem hann hefði lagt út fyrir innanlands.

Í greinargerðinni segir um ákvæðið: “Af breytingunum leiðir að einstaklingar þurfa að huga að ferðatryggingum sínum vegna ferðalaga, rétt eins og gildir annars staðar á Norðurlöndum.” Með þessu er verið að taka af sjúkratryggðum einstaklingum ákveðin réttindi sem þeir hafa í dag og vísa þeim til viðkomandi tryggingafélaga.

ÖBÍ getur ekki fallist á breytinguna þar sem vegið er að þeim réttindum sem þegar eru til staðar. Að mati ÖBÍ mun þessi breyting koma sér illa hjá fólki og einna verst gagnvart viðkvæmum og tekjulágum hópum sem eru ekki meðvituð um breytinguna, hafa ekki kost á að kaupa auka ferðartryggingu eða afla sér nauðsynlegra ferðatrygginga. Í greinagerðinni kemur fram að mögulegur sparnaður af þessari aðgerð geti numið 80 millljónum á ári. Að mati ÖBÍ er um grundvallarbreytingu að ræða og í ljósi þess hve lítið fé sparast, leggur ÖBÍ til að þessi grein frumvarpsins verði felld úr frumvarpinu.

Fylgdarmaður verði hluti kostnaðar við flutning á milli sjúkrahúsa

ÖBÍ fagnar breytingu á 28. gr. laganna um flutningskostnað á milli sjúkrahúsa, þar sem lagt er til að við bætist: „þar með talinn kostnaður vegna fylgdarmanns“. Það er mikið réttlætismál fyrir fatlað fólk að flutningskostnaður sem til fellur á flutningi á milli sjúkrastofnana, nái einnig til fylgdarfólks. Hingað til hefur fatlað fólk þurft að leggja út stórar fjárhæðir til að tryggja að fylgdarfólk geti fylgt með í flutningi á milli sjúkrastofnana.

Stytting biðtíma eftir sjúkratryggingu

ÖBÍ styður breytingu á 10. gr. laganna sem fjallar um biðtíma eftir sjúkratryggingu sem eru sex mánuðir. Lagt er til í frumvarpinu að stytta biðtímann niður í þrjá mánuði „til hagsbóta fyrir þá einstaklinga sem flytjast búferlum hingað til lands“.

ÖBÍ veltir upp þeirri spurningu hvort ekki skuli ganga alla leið og fella alveg niður þennan biðtíma eftir sjúkratryggingu og þar með yrði til enn frekari hagsbóta fyrir fólk sem flytur búferlum til landsins. Þetta fyrirkomulag þekkist ekki á hinum Norðurlöndum og er fólki mjög íþyngjandi hvað varðar kostnað og utanumhald.

Lokaorð

Eins og fram kemur að ofan hafa ÖBÍ réttindasamtök áhyggjur af tillögu um grundvallarbreytingu um stöðu sjúkratryggða sem eru erlendis utan EES svæðisins en taka undir á sama tíma þau áform að innifela kostnað fylgdarmanna við flutning á milli sjúkrahúsa sem og stytting biðtíma eftir sjúkratryggingu.

ÖBÍ er reiðubúið til að fylgja þessari umsögn eftir á fundi velferðarnefndar og áskilur sér rétt til að koma á framfæri frekari athugasemdum.

Ekkert um okkur án okkar!

Alma Ýr Ingólfsdóttir
formaður ÖBÍ réttindasamtaka

Rósa María Hjörvar
stafrænn verkefnastjóri ÖBÍ réttindasamtaka

Gunnar Alexander Ólafsson
hagfræðingur ÖBÍ réttindasamtökum


Sjúkratryggingar (ýmsar breytingar)
118. mál, lagafrumvarp.
Umsögn ÖBÍ, 19. mars 2025