ÖBÍ réttindasamtök (ÖBÍ) fagna framkomnu frumvarpi, en tilgangur þess er að skýra og skerpa tilkekin ákvæði laga um Sjúkratryggingar Íslands. ÖBÍ fagnar breytingu á 28. gr. laganna um flutningskostnað á milli sjúkrahúsa, þar sem lagt er til að við bætist: „þar með talinn kostnaður vegna fylgdarmanns“. Það er mikið réttlætismál fyrir fatlað fólk að flutningskostnaður sem til fellur á flutningi á milli sjúkrastofnana, nái einnig til fylgdarfólks. Hingað til hefur fatlað fólk þurft að leggja út stórar fjárhæðir til að tryggja að fylgdarfólk geti fylgt með í flutningi á milli sjúkrastofnana.
ÖBÍ styður breytingu í frumvarpinu á biðtíma eftir sjúkratryggingu sem er í dag sex mánuðir. Lagt er til í frumvarpinu að stytta biðtímann niður í þrjá mánuði „til hagsbóta fyrir þá einstaklinga sem flytjast búferlum hingað til lands“. ÖBÍ veltir því fyrir sér hvort ekki eigi að ganga alla leið og fella alveg niður þennan biðtíma eftir sjúkratryggingu til enn frekari hagsbóta fyrir fólk sem flytur búferlum til landsins. Þetta fyrirkomulag þekkist ekki á hinum Norðurlöndum og er fólki mjög íþyngjandi.
Til viðbótar er í frumvarpinu skýrari ákvæði um að greiðsluþátttaka vegna veikinda og slysa utan Evrópska efnahagssvæðisins (EES) verði ekki almenn heldur gildi um afmarkaða hópa, svo sem einstaklinga sem stunda nám í öðru landi. Gangi þessi breyting eftir, leggur ÖBÍ megináherslu á að hún verði vel auglýst meðal almennings.
ÖBÍ telur að fái frumvarpið framgang, muni það hafa jákvæð áhrif.
Ekkert um okkur án okkar.
Virðingarfyllst,
Alma Ýr Ingólfsdóttir
formaður ÖBÍ réttindasamtaka
Rósa María Hjörvar
verkefnastjóri ÖBÍ réttindasamtaka
Gunnar Alexander Ólafsson
hagfræðingur ÖBÍ réttindasamtaka
Sjúkratryggingar (ýmsar breytingar)
260. mál, lagafrumvarp. Velferðarnefnd Alþingis.
Umsögn ÖBÍ, 23. október 2024