Skip to main content
RéttarkerfiUmsögn

Reglur um störf ráðgjafa nauðungarvistaðra

By 6. október 2022október 7th, 2022No Comments

 Umsögn ÖBÍ um reglur um störf ráðgjafa nauðungarvistaðra samkvæmt lögræðislögum nr. 71/1997.

ÖBÍ fagnar því að settar verði reglur um störf ráðgjafa nauðungarvistaðra, enda er nauðungarvistun verulega íþyngjandi inngrip í líf einstaklinga. Mikilvægt er að aðstoð og ráðgjöf sé tryggð í öllum tilvikum þar sem einstaklingar eru frelsissviptir gegn vilja sínum. Skiptir þar engu hvort vakthafandi læknir eða aðrir sem að nauðungarvistuninni koma „telji“ að ráðgjöf hafi enga þýðingu. Nauðungarvistaður einstaklingar á undantekningarlaust rétt á að njóta ráðgjafar og stuðnings og sá réttur verður ekki af honum tekinn.

2. mgr. 14. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks er skýr um það að ef fatlað fólk er svipt frelsi sínu á einhvern hátt skulu aðildarríkin tryggja því mannréttindi til jafns við aðra í samræmi við alþjóðleg mannréttindalög og að meðferð þess samræmist markmiðum og meginreglum samningsins, meðal annars með því að tryggja því viðeigandi aðlögun.

Lagt er til að eftirfarandi undantekning sem kemur fram í 2. mgr. 2. gr. og 4. gr. reglnanna „nema ástandi hins nauðungarvistaða sé þannig háttað að mati vaktahafandi læknis að það hafi enga þýðingu“ verði felldar brott. Auk þess er lagt til að sama setning í 2. mgr. 27. gr. lögræðislaga verði felld brott.

Í 1. mgr. 2. gr. reglnanna sem hér er til umsagnar er kveðið skýrt á um að nauðungarvistaður einstaklingur eigi óskoraðan rétt til að ræða við ráðgjafa. Það er því ótækt að það sé undir vakthafandi lækni komið hvort nauðungarvistaður einstaklingur eigi rétt eða eigi ekki rétt á að njóta ráðgjafar og stuðnings. Jafnframt er ótækt að vakthafandi lækni sé veitt heimild til að leggja mat á það hvort það hafi þýðingu fyrir nauðungarvistaðan einstaklinga að njóta ráðgjafar.

Í 27. gr. lögræðislaga er sama undantekning og kemur fram í reglum um störf ráðgjafa nauðungarvistaðra þ.e.a.s. að það sé óþarft að nauðungarvistaður einstaklingur njóti ráðgjafar ef talið er að það hafi enga þýðingu. Ákvæðið tilgreinir ekki hver leggur mat á að það hafi enga þýðingu fyrir nauðungarvistaðan einstakling að njóta ráðgjafar. Mikilvægt er að undantekningin „nema það hafi enga þýðingu“ verði felld brott úr lögræðislögum. Nauðungarvistaður einstaklingur á undantekningarlaust rétt á að njóta ráðgjafar og sá réttur verður ekki tekinn af honum enda er skýrt í 1. mgr. 27. gr. lögræðislaga að nauðungarvistaður maður eigi rétt á að njóta ráðgjafar og stuðnings ráðgjafa.

Ekkert um okkur án okkar!

Þuríður Harpa Sigurðardóttir, formaður ÖBÍ

Bára Brynjólfsdóttir, lögfræðingur ÖBÍ


Umsögnin var send í Samráðsgátt stjórnvalda, 6. október 2022. Viðtakandi: Dómsmálaráðuneytið, Borgartúni 26, 105 Reykjavík. Mál nr. 170/2022.  Nánar um málið