Skip to main content
AðgengiUmsögn

Reglur um sérmerkt bílastæði fyrir hreyfihamlað fólk

By 27. mars 2023No Comments

ÖBÍ réttindasamtök fagna því að til standi að setja nýjar og skýrari reglur um sérmerkt bílastæði fyrir hreyfihamlað fólk á landi í eigu Reykjavíkurborgar og gera eftirfarandi athugasemdir við drög að reglunum.

Í 3. mgr. 2. gr. þarf að koma fram að við synjun vegna ófullnægjandi umsóknar innan uppgefinna tímamarka eigi umsækjandi kost á að sækja um aftur. Lagt er til að eftir „…annarra aðila en umsækjanda“ bætist við: „Umsækjandi hefur kost á að leggja inn nýja umsókn.“

Í b-lið, 1. mgr., 4. gr. er gert ráð fyrir að umsækjanda sé skylt að upplýsa um hvaða hjálpartæki hann notar. Hreyfihömlun felur ekki nauðsynlega í sér notkun hjálpartækja og því er rétt að bæta „hvort og“ við „hvaða“.

Í 2. mgr., 5. gr. kemur fram að umhverfis- og skipulagsráði sé heimilt að synja veitingu sérmerkts bílastæðis, en ekki með hvaða rökum. Þá geti ráðið leitað álits Bílastæðasjóðs. Hér þarf að bæta við að við álitamál eða synjanir sé umhverfis- og skipulagsráði gert skylt að leita álits aðgengisfulltrúa Reykjavíkurborgar, sem er tengiliður við aðgengis- og samráðsnefnd.

F.h. ÖBÍ réttindasamtaka

Stefán Vilbergsson
verkefnastjóri


Reglur um sérmerkt bílastæði fyrir hreyfihamlað fólk. Reykjavíkurborg.
Umsögn ÖBÍ, 27. mars 2023