Skip to main content
Flóttafólk og innflytjendurUmsögn

Reglugerð um starfsemi og skipulag þróunarsjóðs innflytjendamála

By 30. júlí 2024ágúst 26th, 2024No Comments
Tengill á umsögn

Í tilefni af því að til vinnslu eru drög að reglugerð um starfsemi og skipulag þróunarsjóðs innflytjendamála vilja ÖBÍ réttindasamtök vekja athygli á stöðu fatlaðra innflytjenda.

Tilgangurinn með reglugerðinni samkvæmt drögunum er að efla rannsóknir og þróunarverkefni í tengslum við málefni innflytjenda með það að markmiði að styðja við inngildingu innflytjenda í íslenskt samfélag.

Á meðan ljóst er að mikil þörf er á að styðja við inngildingu innflytjenda í íslenskt samfélag telur ÖBÍ ljóst að þörf er á auknum stuðningi við fatlaða innflytjendur. Í Grænbók um málefni innflytjenda og flóttafólks kom m.a. fram að sértæk staða fatlaðra innflytjenda og fjölskyldna þeirra felist oft í tungumálaáskorunum, þeir búi við veikt félagslegt bakland, séu líklegri til að vera úr hópi lágtekjufólks eða undir fátæktarmörkum og að upplýsingar um málefni er varði fötlun séu óaðgengilegar (bls. 32).

Að mati ÖBÍ skortir á rannsóknir á stöðu fatlaðs fólks hér á landi. Í Grænbók í málefnum innflytjenda og flóttafólks kemur einnig fram að fáar rannsóknir séu til á Íslandi um stöðu fatlaðra innflytjenda. ÖBÍ hvetur því til þess að lögð verði áhersla á að rannsaka stöðu fatlaðra innflytjenda svo leggja megi grunn að bættum stuðningi við hópinn.

Í 5. gr. reglugerðardraganna um auglýsingu um styrki kemur fram að í auglýsingum um styrki úr þróunarsjóði innflytjendamála geti innflytjendaráð ákveðið að leggja áherslu á ákveðin svið í tengslum við málefni innflytjenda og skal það þá koma fram í auglýsingu hverju sinni. ÖBÍ hvetur því til þess að heimildin verði nýtt til þess að leggja áherslu á málefni fatlaðra innflytjenda.

ÖBÍ áskilur sér rétt til að koma á framfæri frekari athugasemdum á seinni stigum verði ástæða til.

Ekkert um okkur án okkar!

Með vinsemd og virðingu,

Alma Ýr Ingólfsdóttir
formaður ÖBÍ

Sigurður Árnason
lögfræðingur ÖBÍ


Drög að reglugerð um starfsemi og skipulag þróunarsjóðs innflytjendamála
Mál nr. S-136/2024. Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið.
Umsögn ÖBÍ, 30. júlí 2024