
Pexels
„Fatlað fólk er sérstaklega háð tryggri afhendingu raforku óháð búsetu. Lækningatæki á borð við öndunarvélar og skilunartæki nota rafmagn og einnig mörg hjálpartæki …“
Umsögn um tillögu til þingsályktunar um orkuöryggi almennings
ÖBÍ réttindasamtök sendir atvinnuveganefnd Alþingis umsögn varðandi tillögu til þingsályktunar um orkuöryggi almennings. ÖBÍ vill koma á framfæri eftirfarandi athugasemdum, en að mati ÖBÍ er viðkomandi þingsályktunartillaga mikilvæg til að gæta hagsmuna almennings.
Í þingsályktunartillögunni segir að Alþingi ályktar að fela umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra að leggja fram frumvarp sem tryggi orkuöryggi almennings og stuðli um leið að hagkvæmu og stöðugu verðlagi raforku til þessa hóps, eigi síðar en á vorþingi 2025.
Orkumarkaður á Íslandi
Orkumarkaður á Íslandi er einstakur af ýmsu leyti. Íslenski orkumarkaðurinn rekur einangrað raforkukerfi sem er háð sveiflum náttúrunnar og fær orku úr vatnsafli og jarðvarma frá sameiginlegum auðlindum og erfitt er að treysta á varabirgðir orku annars staðar frá.
Almenningur og lítil fyrirtæki (þjónustufyrirtæki, verslarnir, smá iðnfyrirtæki og bændur) nota samtals um 20% orkunnar sem í boði er á Íslandi, en stórnotendur eins og stóriðja notar um 80% orkunnar. Samningsstaða þessara aðila er því misjöfn. Stórnotendur geta gert magnkaup til langstíma á ákveðnu verði en almenningur og litlu fyrirtækin standa veikara varðandi það semja um kaup á orku og eru háð verðbreytingum á hverjum tíma.
Tryggja þarf almenningi öryggi orku á viðráðanlegu verði
Á undanförnum árum hafa stjórnvöldum mistekist að tryggja almenningi orkuöryggi á viðráðanlegu verði. Seinustu ár hafa verð á raforku hækkað langt umfram verðvísitölu eða um 37% í desember árið 2024. Sú umframeftirspurn sem hefur skapast eftir orku undanfarin ár er tilkomin m.a. vegna þess að nýtanleg orka hefur ekki verið beisluð og virkjuð í samræmi við eftirspurn, sem hefur leitt til verðhækkanna á raforku eins og fyrrnefnt dæmi sýnir.
Núverandi ástand sýnir að gæta verður hagsmuna almennings hvað varðar örugga afhendingu orku og að sú orka verði á viðráðanlegu verði. Fatlað fólk sem býr við þröngan kost hefur ekki tök á að mæta hækkun raforku með neinum hætti, ólíkt launþegum, vegna skerðingarákvæða hvað varðar aðrar tekjur.
Orka er nauðsynjavara
Það þarf ekki að lýsa því nákvæmlega hve lífsnauðsynleg orka er fyrir almenning. Íslenski raforkumarkaðurinn er óvenjulega samsettur þar sem hagsmunir stórkaupenda eru meiri en almennings. Á móti má benda á að almenningur hefur í gegnum tíðina byggt upp raforkukerfið með fjárfestingum og hærra raforkuverði. Vert er að benda á að samtímis uppbyggingu raforkukerfisins hefur sparast óheyrilegar háar fjárhæðir í formi þess að Íslendingar þurfa ekki að flytja inn kol og olíu til raforkuframleiðslu.
Fatlað fólk er sérstaklega háð tryggri afhendingu raforku óháð búsetu. Lækningatæki á borð við öndunarvélar og skilunartæki nota rafmagn og einnig mörg hjálpartæki eins og hjólastólar og ýmis konar samskiptatæki. Mörg eiga því líf sitt undir rafmagni. Rauði krossinn hefur farið af stað með verkefnið „3 dagar“ sem ætlað er að vekja almenning til vitundar um mikilvægi þess að eiga vistir til þriggja daga til að vera búinn undir neyðarástand. Í hamförum kemst fólk sem notar öndunarvélar af í örfáar mínútur án rafmagns.
Lokaorð
Eins og fram kemur að ofan hafa ÖBÍ réttindasamtök áhyggjur af stöðu almennings varðandi öryggi á orku og verð á henni. ÖBÍ leggja áherslu á að stjórnvöld sinni sínum skyldum og verji almenning fyrir hökti á afhendingu orku og háu orkuverði.
ÖBÍ er reiðubúið til að fylgja þessari umsögn eftir á fundi velferðarnefndar og áskilur sér rétt til að koma á framfæri frekari athugasemdum.
Ekkert um okkur án okkar!
Alma Ýr Ingólfsdóttir
formaður ÖBÍ réttindasamtaka
Gunnar Alexander Ólafsson
hagfræðingur ÖBÍ réttindasamtaka
Stefán Vilbergsson
verkefnastjóri ÖBÍ réttindasamtaka
Orkuöryggi almennings
16. mál, þingsályktunartillaga
Umsögn ÖBÍ, 1. apríl 2025