Norðurlöndin njóta alþjóðlegrar virðingar að því er varðar mannréttindi og jafnrétti. Lýðfræðileg þróun felur í sér að norræn samfélög þurfa að geta mætt þörfum aukins fjölda aldraðra þar sem skert eða mismunandi færni er eðlilegur hluti samfélagsins. Á Norðurlöndum er þátttaka allra almannahagur. Löndin leitast við að ná fram sjálfbærri samfélagsþróun sem byggir á tækifærum borgaranna til einstaklingsfrelsis og sjálfsþroska.
Með samstarfi varpa Norðurlöndin ljósi á notagildi og verðmæti sem felast í samfélagi fyrir alla og algildri hönnun stafræns og ytra umhverfis. Algild hönnun felur í sér snjallt og gott samfélagsskipulag sem stuðlar að hagvexti og aukinni hagsæld fyrir bæði velferðarkerfi og atvinnulíf.
Í yfirlýsingu samstarfsráðherra Norðurlanda frá febrúar 2014 um framtíðarsýnina Norðurlönd – Saman erum við öflugri er meðal annars sett fram framtíðarsýn um ákjósanlegar forsendur frjáls flæðis borgaranna milli Norðurlanda og að Norðurlöndin eigi að vera nýskapandi svæði með áherslu á velferð, menntun, sköpunarkraft, frumkvöðlastarf, sjálfbærni og rannsóknir. Samstarfsráðherrarnir vilja einnig tryggja að norrænt samstarf í alþjóðamálum sé viðbót við það samstarf sem fer fram í öðrum stofnunum. Norrænt samstarf á að skapa norrænt notagildi, fela í sér virðisauka fyrir alla og leiða til skýrrar niðurstöðu. Samstarf við Eystrasaltsríkin er einnig mikilvægt.
Virðisaukinn í norrænu samstarfi í samanburði við samstarf innan ESB, Evrópuráðsins, SÞ og annars alþjóðlegs samstarfs, felst meðal annars í öllu því sem líkt er með okkur og í því að norrænt samstarf getur verið margþættara. Við getum rætt í þaula og borið saman menntun og góð dæmi um málefni sem varða þátttöku allra, velferð og lýðfræðilega þróun.
Þrír þættir sjálfbærrar þróunar (félagslegir, efnahagslegir og vistfræðilegir) eru mikilvægur hluti hugmyndafræði norræns samstarfs og skapa forsendur til jafnra tækifæra, félagslegrar samstöðu og öryggis fyrir alla. Stefna Norrænu ráðherranefndarinnar um sjálfbæra þróun Gott líf á sjálfbærum Norðurlöndum2 og nýja samstarfsáætlunin um sjálfbæra þróun Generation 20303 styðja framkvæmd áætlunar Sameinuðu þjóðanna Dagskrá 20304 á Norðurlöndum. Á grundvelli boðskaparins í Dagskrá 2030 Leave no one behind er mikilvægt að Norðurlöndunum takist að samþætta sjónarmið kynja, barna og ungmenna og fatlaðs fólks. Vinna í átt að sjálfbærnimarkmiðum á einnig að ná til og vera fötluðu fólki til góða. Samþætta verður sjónarmiðin frá upphafi og í framkvæmdinni allri. Þetta er, enn og aftur, almannahagur.
Stefna í málefnum fatlaðs fólks snýst um að skapa sjálfbært samfélag þar sem enginn er skilinn útundan. Markmiðið með stefnu í málefnum fatlaðs fólks er þátttaka fatlaðs fólks á öllum sviðum samfélagsins. Stefnan einkennist æ meir af áherslunni á réttindi sem birtist á alþjóðavísu í samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, UNCRPD5. Öll Norðurlöndin hafa fullgilt samninginn.
Þessi framkvæmdaáætlun er stefnumótandi samstarfsskjal Norrænu ráðherranefndarinnar um málefni fatlaðs fólks og er byggð á tilmælum frá vinnu við framkvæmd fyrri framkvæmdaáætlunar 2015–2017, þátttöku fatlaðs fólks og stefnumótun fyrir norrænt og annað alþjóðlegt samstarf sem máli skiptir fyrir sjálfbæra þróun. Sérstaklega má nefna áætlun SÞ, Dagskrá 2030 um sjálfbæra þróun, tilskipanir og reglur ESB um aðgengi og þátttöku, stefnu Evrópuráðsins um þátttöku fatlaðs fólks, forgangsröðun í norrænu samstarfi um félags- og heilbrigðismál ásamt yfirlýsingu norrænu samstarfsráðherranna um framtíðarsýnina Saman erum við öflugri.