Skip to main content
AðgengiMálefni barnaUmsögn

Markaðssetningarlög

By 6. júní 2024No Comments

Mikilvægt er að markaðssetningarlög verndi almenning, ekki síst fólk í viðkvæmri stöðu, gagnvart vafasömum viðskiptaháttum og tryggi jafna aðstöðu allra til að kynna sér vörur og þjónustu á markaði.

Í frumvarpinu er sérstaklega fjallað um að börn og ungmenni þurfi að vera vernduð gegn óvæginni markaðssetningu, en aðrir geta legið vel við höggi.

Það þarf að koma böndum á markaðssetningu á netinu þar sem þróunin er ör og ýmsar hættur sem steðja að fyrir neytendur. Þróun gervigreindar er hamslaus og möguleikum markaðsafla til að sérsníða aðgerðir gagnvart ákveðnum hópum verða fjölgar ört.

Í frumvarpinu eru vörur eða þjónusta skilgreind sem „fasteignir, stafræn þjónusta og stafrænt efni, auk réttinda og skuldbindinga,“ sbr. orðskýringar í 2. gr. frumvarpsins. Sérstaklega talað um netmarkaði, þ.e. þjónustu „sem notar hugbúnað, þ.m.t. vefsetur, hluta af vefsetri eða smáforrit, sem starfrækt er af atvinnurekanda eða fyrir hönd hans og sem gerir neytendum kleift að ganga frá fjarsölusamningum við aðra atvinnurekendur eða neytendur.“

Hér er rétt að benda á að Ísland hefur enn ekki gert ráðstafanir til að innleiða Evrópsku aðgengisaðgerðina (e. European Accessibility Act (EAA)) , sem á að koma til framkvæmda í Evrópusambandslöndunum í júní 2025. Tilskipunin skuldbindur opinbera aðila og fyrirtæki á markaði til að gera vörur og þjónustu aðgengilega öllum. Það á m.a. við um bankaþjónustu, almenningssamgöngur, tölvur, sjónvarp, rafbækur og netverslanir.

Þá hefur Ísland enn ekki innleitt vefaðgengistilskipun ESB 2016/2102 og WCAG 2.1 staðalinn sem er forsenda þess að stafrænt efni sé öllum aðgengilegt. Tilskipunin var innleidd í Evrópusambandslöndunum árið 2016 og í Noregi vorið 2021. Mikilvægt er það sé sett í forgang íslenskra stjórnvalda að innleiða ofangreindar aðgerðir, tilskipanir og staðla.

Að lokum er rétt að minnast á mikilvægi skilvirkra kæruleiða. Almenningur þarf að þekkja rétt sinn og vita hvert á að leita. Eftirlitsúrræðin þurfa einnig að vera skýr og viðurlögum beitt.

Að gefnu tilefni er ítrekað að stjórnvöldum er skylt að hafa virkt samráð við heildarsamtök fatlaðs fólks um ákvarðanir sem varða hagsmuni þess, samkvæmt ákvæðum samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks (SSRF), enda segir í 3. mgr. 4. gr., „aðildarríkin skulu, þegar þau undirbúa og beita löggjöf sinni og stefnu samningi þessum til framkvæmda og vinna að ákvarðanatöku um málefni fatlaðs fólks, hafa náið samráð og tryggja virka þátttöku fatlaðs fólks, þ.m.t. fötluð börn, með milligöngu samtaka sem koma fram fyrir þess hönd“.

Ekkert um okkur án okkar!

Með vinsemd og virðingu,

Alma Ýr Ingólfsdóttir
formaður ÖBÍ

Stefán Vilbergsson
verkefnastjóri ÖBÍ


Markaðssetningarlög
1077. mál, lagafrumvarp.
Umsögn ÖBÍ, 6. júní 2024