Mennta- og menningarmálaráðuneytið
Reykjavík, 19. febrúar 2021
Efni: Umsögn Öryrkjabandalags Íslands (ÖBÍ) um tillögur að breytingu á aðalnámskrá leikskóla, mál nr. 33/2021.
Aðalnámskrá leikskóla er ætlað að samræma menntun, uppeldi og umönnun leikskólabarna að því marki sem þörf er talin á auk þess að vera farvegur til að tryggja jafnrétti allra barna til menntunar og uppeldis í leikskólum landsins.
Í aðalnámskránni kemur fram að tekið sé tillit til alþjóðlegra samninga sem Ísland er aðili að og er Barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna sérstaklega tilgreindur.
ÖBÍ leggur til að Samningur Sameinuðu þjóðanna (SSRF) um réttindi fatlaðs fólks verði einnig lagður til grundvallar í aðalnámskránni enda ítrekar hann réttindi fatlaðra barna enn frekar sem og að það rímar við það sem kemur fram í drögum um menntastefnu 2020-2030 um að innleiða SSRF inn í allt skólastarf.
Samkvæmt aðalnámskránni er stefnan að skapa samábyrgt samfélag þar sem sérhver einstaklingur er þroskaður sem virkur borgari, meðvitaður um gildi, viðhorf og tilfinningar sínar gagnvart hnattrænum áhrifum og jafnræði allra jarðarabúa. Einnig á að skapa tækifæri fyrir alla til að þroskast á eigin forsendum, rækta hæfileika sína og lifa ábyrgu lífi í frjálsu samfélagi.
ÖBÍ telur að til þess að ná þessum markmiðum verði að efla fræðslu um fötlun og margbreytileika í samfélaginu til leikskólabarna, foreldra þeirra og starfsfólks leikskóla.
Námsumhverfi leikskólabarna þarf að henta öllum börnum og foreldrum þeirra. Mikilvægt er að húsnæði leikskóla og leikskólalóð sé aðgengileg öllum og hönnuð samkvæmt stöðlum algildrar hönnunar.
ÖBÍ leggur til að tryggt sé að fötluð börn og fatlaðir foreldrar hafi aðgang að leikskólahúsnæði samkvæmt algildri hönnun og skólalóð og leiktæki séu aðgengileg fyrir fötluð börn.
Lögð er áhersla á samstarf og upplýsingagjöf til foreldra sem er afar mikilvægt.
ÖBÍ leggur til að aukin áhersla verði lögð á að koma til móts við foreldra sem nota óhefðbundnar tjáskiptaleiðir og að tryggt sé að allir foreldrar fái þær upplýsingar sem nauðsynlegar eru á því formi sem foreldrum hentar best. Með því eru hagsmunir barns í forgangi.
Reynslan sýnir að of oft myndast gjá í þjónustu og stuðning við börn milli leikskóla og grunnskóla. Afar mikilvægt er að tengsl skólastiga verði efld og að nauðsynlegar upplýsingar varðandi uppbyggilegar aðferðir sem henta hverju og einu barni fari á skipulega á milli skólastiga.
ÖBÍ leggur til að þegar fatlað barn á í hlut verði ekki haldinn skilafundur í lok skólaárs. Í stað þess verði haldnir reglulegir stöðufundir milli leikskóla og grunnskóla á lokaári leikskólagöngu til að tryggja að fötluð börn fái heildstæða skólaþjónustu og að nám og stuðningur byggi á þeim gagnreyndu aðferðum sem hafi reynst barninu vel í leikskóla. Einnig er lagt til að aðili frá leikskólanum fylgi barni frá leikskóla til grunnskóla og veiti starfsfólki grunnskóla ráðgjöf og þjálfun.
Ekkert um okkur, án okkar!
Þuríður Harpa Sigurðardóttir, formaður ÖBÍ