Skip to main content
HúsnæðismálUmsögn

Húsnæðisbætur (grunnfjárhæðir og fjöldi heimilismanna)

By 10. maí 2024maí 15th, 2024No Comments

„Nái markmið frumvarpsins um að styðja heimili á leigumarkaði sem eru undir tilteknum tekju- og eignamörkum fram að ganga mun það bæta lífskjör þeirra sem höllustum fæti standa í samfélaginu.“

Umsögn ÖBÍ réttindasamtaka um frumvarp til laga um breytingu á lögum um húsnæðisbætur

ÖBÍ réttindasamtök fagna markmiðum frumvarpsins og telja hækkun grunnfjárhæða húsnæðisbóta um 25% auk nýrra viðmiða um fjölskyldustærðir til bóta fyrir íslenskt samfélag. Velferðarkerfið er víðtækt öryggisnet sem byggir á samspili fjölbreyttra laga og reglugerða sem hver um sig hafa ólík viðmið um réttindi fólks til lögbundnar þjónustu. Brýnt er að huga að þessum viðmiðum heildstætt svo kjarabætur í einu stuðningsneti verði ekki skertar vegna viðmiða í öðru stuðningsneti. ÖBÍ vill koma eftirfarandi athugasemdum og tillögum á framfæri.

Sérútbúnar bifreiðar og skerðingar húsnæðisbóta

Í dag getur fatlað fólk sótt um styrk vegna kaupa á sérútbúnum bifreiðum og/eða vegna breytinga á bifreiðum sem nauðsynlegar eru viðkomandi til að stunda vinnu, nám, endurhæfingu eða sækja læknisþjónustu, sbr. reglugerð nr. 760/2021 um styrki vegna hjálpartækja. Stærð bifreiðar og umfang breytinga eru persónubundnar og fer eftir aðstæðum hvers og eins. Í þeim tilfellum sem einstaklingur þarf bifreið sem rúmar stórt hjálpartæki á borð við hjólastólalyftu og rafmagnshjólastól þá er ódýrusta útgáfa slíkrar bifreiðar, fyrir nauðsynlega breytingu ca. 10 milljónir. Hafi einstaklingur hug á að taka þátt í orkuskiptunum líkt og margir aðrir landsmenn þá kostar rafmagns útgáfa sambærilegrar bifreiðar tæpar 14 milljónir króna. Í dag eru dæmi um að slík bílakaup skerði bæði sérstakan húsnæðisstuðning sveitarfélaga og húsnæðisbætur frá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun.

  • ÖBÍ leggur til að sérútbúnar bifreiðar fatlaðs fólks bætist við sem 6. tölul. upptalningu á eignum í 74. gr. laga um tekjuskatt sem teljast ekki til framtalsskyldra eigna.

Leiguverð, húsnæðisbyrði og hækkun húsnæðibóta

Nái markmið frumvarpsins um að styðja heimili á leigumarkaði sem eru undir tilteknum tekju- og eignamörkum fram að ganga mun það bæta lífskjör þeirra sem höllustum fæti standa í samfélaginu. Örorkulífeyristakar hafa lítil sem engin bjargráð til að vænka hag sinn og er staða þeirra því talsvert verri og ójöfnari öðrum þjóðfélagshópum þegar horft er til þeirrar hörðu samkeppni sem ríkir á húsnæðismarkaði. Samkvæmt niðurstöðu rannsóknar Vörðu rannsóknastofnun vinnumarkaðarins um stöðu fatlaðs fólks á Íslandi sem kom út í desember 2023, leigja 20,5% fatlaðs fólks íbúð á almennum leigumarkaði. Staða fatlaðs fólks á almennum leigumarkaði er oft erfið en 65,8% upplifa þunga byrði húsnæðiskostnaðar. Því er brýnt að fyrirhuguð hækkun fari á réttan stað og hverfi ekki í formi hækkunar á leiguverði. ÖBÍ telur að fyrirhugaðar breytingar í frumvarpi um breytingar á húsleigulögum sem banna hækkun fjárhæðar tímabundinna leigusamninga á leigutímanum til bóta en betur má er duga skal.

  • ÖBÍ leggur til að óheimilt verði að hækka leigufjárhæð íbúðarhúsnæðis umfram vísitölu hverju sinni.

Samspil húsnæðisbóta og sérstaks húsnæðisstuðnings sveitarfélaganna

ÖBÍ tekur undir ábendingar í greinargerð frumvarpsins um að æskilegt væri að sveitarfélög landsins myndu taka til skoðunar hvort breyta þurfi reglum um hámark samanlagðra húsnæðisbóta og sérstaks húsnæðisstuðnings svo fyrirhugaðar hækkanir skili sér til leigjenda. Mikilvægt er að sveitarfélögin bregðist við fyrrnefndum ábendingum í greinargerðinni og upplýsi löggjafarvaldið.

  • ÖBÍ leggur til að Innviðarráðuneytið óski eftir upplýsingum frá sveitarfélögunum um hvort fyrirhuguð hækkun kalli á breytingar á reglugerð um sérstakan húsnæðisstuðning.

ÖBÍ áskilur sér rétt til að koma á framfæri frekari athugasemdum á seinni stigum.

Ekkert um okkur án okkar!

Með vinsemd og virðingu,

Alma Ýr Ingólfsdóttir
formaður ÖBÍ

Kjartan Þór Ingason
verkefnastjóri ÖBÍ


Húsnæðisbætur (grunnfjárhæðir og fjöldi heimilismanna)
1075. mál, lagafrumvarp.
Umsögn ÖBÍ, 10. maí 2024