Hér má sjá bréf „meirihluta stjórnar“ Tryggingastofnunar ríkisins og hér að neðan fylgja athugasemdir ÖBÍ við málflutning „meirihluta stjórnar“ TR.
Svar „meirihluta stjórnar“ TR er í grófum dráttum útúrsnúningur og því er ekki svarað hvenær byrjað verður að leiðrétta. Svörin eru loðin. Í bréfi „meirihluta stjórnar“ er sem TR reyni að villa um fyrir ástæðum búsetuskerðinga; eins og þær snúist um greiðslur frá öðru landi en ekki búsetu.
Um einstök atriði í svari „meirihluta stjórnar“ hefur ÖBÍ þetta að segja:
Umfjöllun um úrskurðina eru hártoganir. Niðurstöðurnar (m.a.s. eins og TR reifar þær) sýna einmitt að úrskurðarnefndin hefur gert TR afturreka með búsetuútreikninga í a.m.k. þessi þrjú skipti (gætu verið fleiri, við höfum ekki séð alla úrskurði).
Það er ekkert nýtt við þessar reifanir á úrskurðunum, við vissum efni þeirra og TR hnekkir því ekki.
Við bentum sérstaklega á það í bréfinu að TR gæfi í skyn að þetta hefði alltaf verið óumdeilt og staðfest í einu og öllu af úrskurðarnefndum í gegnum tíðina. Það er villandi framsetning og þessar skýringar TR breyta því ekki. Þetta eru allt úrskurðir þar sem slegið er á putta TR við búsetuskerðingar.
Fyrr málin tvö
Fyrstu tvö málin (178/2009 og 221/2009) eru ekki annars eðlis, eins og TR heldur fram. Þetta eru einfaldlega aðrir fletir á búsetuskerðingum (það eru fjölmargir fletir á þeim). Eðlið er þó það sama, þetta eru skerðingar vegna búsetu erlendis. Þessi mál sýna hvað TR hefur í gegnum tíðina viljað búsetuskerða sem víðast í kerfinu og sem flestar tegundir greiðslna. Í þessum tveimur málum var stofnunin stoppuð af í þeirri vegferð og þetta eru því dæmi um það hvernig TR hefur viljað búsetuskerða sem víðast en úrskurðarnefndin verið ósammála.
Þriðja málið
Þriðja málið (stóra málið) „vannst“ með úrskurði 287/2012 en TR fór síðan þá ótrúlegu leið að leggjast á nefndina og þvinga hana til að skipta um skoðun.
Gríðarlega mikilvægt atriði í því máli er þó að það er í raun ekki sambærilegt framkvæmd TR
Eftir að úrskurðurinn féll þá fór TR í það að fá bætur fyrir einstaklinginn í málinu frá Danmörku og náði því í gegn. Eftir að einstaklingurin var farinn að fá bætur frá Danmörku ákvað TR að taka aftur ákvörðun um að búsetuskerða bæturnar. Eftir það staðfesti kærunefndin skerðinguna.
Niðurstaðan í seinna kærumálinu var þannig, a.m.k. að stóru leyti, byggð á greiðslum frá Danmörku en ekki bara búsetunni.
Þetta er alger grundvallarmunur á því hvernig TR hefur gert þetta almennt. Framkvæmdin hjá TR er að horfa bara á búsetuna en ekkert á greiðslurnar frá viðkomandi landi.
Úrskurðarnefndin oft ósammála TR
Allt þetta sýnir þó fyrst og fremst að úrskurðarnefndin hefur nokkrum sinnum verið ósammála TR í búsetuskerðingum.
Þá liggur fyrir að þessi framkvæmd TR er í andstöðu við evrópureglurnar, en TR hefur þó byggt sína framkvæmd á þeim reglum.
Evrópudómstóllinn hefur m.a.s. sagt að reglunum eigi ekki að beita með þessum hætti.
Villandi upplýsingar
Eitt að lokum um reifun TR á úrskurðunum. Núna er TR að reyna að tengja saman skerðingar og greiðslur frá öðru landi. Það verður ekki ítrekað nógu oft að TR hefur ekkert horft á greiðslur frá öðru landi og hefur skert eingöngu á grundvelli búsetunnar sjálfrar, burtséð frá því hvort greiðslur koma frá öðru landi.
Í reifun TR á úrskurði 221/2009 (sem fjallar um einstaklinga sem koma frá löndum utan EES) er að finna mjög villandi, og raunar beinlínis ranga, staðhæfingu. Þar segir TR að frá því að nefndin bannaði TR að búsetuskerða þá sem komu frá löndum utan EES hafi TR hætt því enda komi engar greiðslur á móti frá þeim löndum.
Hér er gefið í skyn að greiðslur komi alltaf á móti frá EES löndum. Það er beinlínis rangt og TR veit að það er rangt. Einungis um 20% eru með greiðslur frá öðru EES landi og því er blekking að láta eins og þetta sé eitthvað sem skipti máli. Raunar hefur aldrei verið litið á hvort greiðslur koma frá öðrum landi og TR ítrekað sagt að þær skipti engu máli.
Í áliti UA segir m.a. um þetta:
„Því hefur heldur ekki verið haldið fram af hálfu nefndarinnar og hefur hún raunar í svörum sínum til mín byggt á því að réttur A þar í landi skipti ekki máli við úrlausn máls hennar hérlendis.“
Grundvallaratriði um ranga framkvæmd TR
Greiðslur frá öðru landi (eða réttara sagt sú afstaða að greiðslur frá öðru landi skipti engu máli) er einmitt grundvallaratriðið í því hversu gríðarlega röng þessi framkvæmd TR hefur verið. ÖBÍ hefur ítrekað bent TR og ÚRVEL á hversu öfugsnúið það er að horfa ekkert til þess hvort greiðslur komi frá öðru landi og að það skili verri niðurstöðu að koma frá landi innan EES en landi utan EES. Þess vegna er ótrúlegt að TR gefi nú í skyn að greiðslur frá öðru landi sé ástæða þess að það sé önnur regla um fólk sem kemur frá EES eða ekki.
Í áliti UA segir einmitt um þetta:
„Jafnframt þarf að hafa í huga að beiting hlutfallsreglunnar virðist byggja á þeirri forsendu að einstaklingur eigi jafnframt rétt til bóta í öðru EES-ríki og fái þar með hlutfallsgreiðslur þaðan eins og rakið hefur verið að framan. Að sama skapi verður reglunni um söfnun tímabila og úthlutun bóta ekki beitt ef slík beiting er til þess fallin að draga úr réttindum sem viðkomandi einstaklingur gæti krafist á grundvelli löggjafar einstaks aðildarríkis, á grundvelli þeirra tryggingatímabila sem einungis heyrði undir þá löggjöf.“
TR segir að UA hafi komist að þeirri niðurstöðu að lagagrundvöllur „væri ekki nægilegur“. Það er mjög vægt til orða tekið. Ljóst er af álitinu að UA telur framkvæmdina í andstöðu við lög um almannatryggingar og EES reglur.