Skip to main content
AðgengiAlmannatryggingarFlóttafólk og innflytjendurHeilbrigðismálHúsnæðismálMálefni barnaSRFFUmsögn

Grænbók í málefnum innflytjenda og flóttafólks

By 8. desember 2023janúar 29th, 2024No Comments

„ÖBÍ áréttar að fatlað fólk á flótta er viðkvæmur hópur og minnir íslensk stjórnvöld á að unnið er að lögfestingu samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks en samningurinn skuldbindur aðildarríki, Ísland, til þess að fara ekki gegn ákvæðum hans, þ.m.t. fötluðu fólki á flótta.“

Umsögn ÖBÍ réttindasamtaka um grænbók í málefnum innflytjenda og flóttafólks, mál nr. 232/2023

ÖBÍ réttindasamtök (ÖBÍ) telja mikilvægt að heildstæð stefnumótun í málefnum innflytjenda og hælisleitenda byggi á alþjóðlegum kröfum á sviði mannréttinda og taki tillit til fjölbreytta stöðu fólks með erlendan bakgrunn. Fatlað fólk er fjölbreyttur hópur sem mætir ýmsum hindrunum í daglegu lífi og því brýnt að fatlað fólks sé upplýst um sín mannréttindi og bjargráð til að geta tekið virkan þátt í samfélaginu til jafns við ófatlað fólk. Sú staða á sérstaklega við um fatlaða innflytjendur og fatlað fólk á flótta sem er ólíklegra til að þekkja réttindi sín og/eða búa við sterkt félagslegt tengslanet sér til halds og trausts. ÖBÍ vill því koma eftirfarandi athugasemdum á framfæri.

1.
ÖBÍ réttindasamtök fagna auknum stuðningi við fjölskyldur fatlaðra barna af erlendum uppruna, en lýsir furðu á því að stjórnvöld hafi litið fram hjá Sjónarhóli í þeim aðgerðum. Sjónarhóll er óháð ráðgjafarmiðstöð með tuttugu ára sögu sem vinnur að því að styrkja og efla fjölskyldur barna með stuðningsþarfir og veita foreldrum og fagfólki fræðslu um réttindi barna og möguleg úrræði. Ráðgjafar Sjónarhóls eru fagmenntaðir, með fjölbreyttan bakgrunn og búa yfir mikilli reynslu þegar kemur að málefnum barna með stuðningsþarfir. Sjónarhóll hefur verið leiðandi í uppbyggingu nýs landsteymis stjórnvalda sem byggir á grunni farsældarlaga og þeirri sýn að kerfin eigi að sameinast um að hvert barn fái þann stuðning sem þarf hverju sinni. Þá er vert að nefna vef Sjónarhóls sem er í þróun sem notendavænt rafrænt fræðslu- og upplýsingatorg fyrir fjölskyldur barna með stuðningsþarfir. Vefurinn er enn sem komið er á íslensku, en drög hafa verið lögð að því að færa efni hans yfir á fleiri tungumál.

Að mati ÖBÍ væri það í samræmi við áherslur Samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks (SRFF) um aðgengi fyrir alla og algilda hönnun að útfæra öfluga rafræna ráðgjafamiðstöð fyrir allar fjölskyldur barna með stuðningsþarfir með áherslu á fjölbreytta miðlun, traust og frumkvæði að samskiptum við fjölskyldur og fagaðila. Fatlað fólk og fötluð börn eru fjölbreyttur hópur og mikilvægt að rafræn rágjafarmiðstöð sé starfrækt af teymi sérfræðinga með burði til að leiðbeina fjölskyldum fatlaðra barna í gegnum ólgusjó kerfisins.

Stjórnvöld eru hvött til að gera grein fyrir ákvörðun sinni og rökstyðja af hverju þau telja starfsemi rafrænnar ráðgjafarstöðvar betur borgið annars staðar en hjá faglegri óháðri ráðgjafarmiðstöð með áratuga farsæla reynslu á sínu sviði. ÖBÍ hvetur stjórnvöld til að byggja á og nýta dýrmæta reynslu og þekkingu Sjónarhóls og styðja stöðina til góðra verka í þágu barna með stuðningsþarfir óháð uppruna.

2.
Öflugt almannatryggingakerfi sem tryggir félagslegt öryggi, framfærslu og sjálfstætt líf er eitt af forsendum þess að hægt sé að skapa velsældarsamfélag á Íslandi. Við lestur grænbókarinnar er ekki að sjá umfjöllun um stöðu innflytjenda og flóttafólks gagnvart almannatryggingakerfinu. Greiðslur í almannatryggingum eru reiknaðan út frá hlutfalli búsetu á Íslandi eftir 16 ára aldur og fram til fyrsta mats. Þetta er þess valdandi að fólk sem flyst til Íslands eftir 16 ára aldur og fær örorku- eða endurhæfingarmat skv. almannatryggingakerfinu í kjölfar veikinda eða slysa fær hlutfallslegar greiðslur.

Einstaklingar sem búið hafa um stuttan tíma á Íslandi og lenda í alvarlegum slysum eða fá alvarlega sjúkdóma sem valda óvinnufærni hafa skert réttindi. Þetta á bæði við um hjá lífeyrissjóðum og í almannatryggingum. Í núverandi almannatryggingakerfi er mikil áhersla á (starfs)endurhæfingu og að örorka sé ekki metin fyrr en endurhæfing er talin fullreynd eða ekki líkleg til að skila árangri. Því er mjög mikilvægt að innflytjendur og flóttafólk eigi jafnan möguleika á við aðra að fá endurhæfingu við hæfi og geti nýtt sér aðstoð fagfólks í endurhæfingu.

Færni í íslensku og skortur á upplýsingum má ekki verða til þess að fólk geti ekki nýtt sér endurhæfingarúrræði sem eru í boði og réttindi sín innan almannatryggingakerfisins. Áherslur stjórnvalda um að tryggja góða og skilvirka upplýsingaþjónustu til innflytjenda og flóttafólks um réttindi sín og skyldur hér á landi, jafnt á einföldu máli sem og öðrum tungumálum en íslensku eru til bóta. Hinsvegar gagnast upplýsingarnar takmarkað ef viðkomandi veit ekki hvar þær eru að finna.

ÖBÍ leggur til að stjórnvöld undirstriki mikilvægi samræmdar frumkvæðisskyldu opinbera stofnanna í áherslum sínum með það að markmiði að enginn falli á milli skips og bryggju í velferðakerfinu.

3.
Eins og fram kemur í lið 3.3.2 er húsnæði ein af grunnþörfum fólks og innflytjendur eru líklegri en innlendir til að vera á leigumarkaði. Meirihluti íbúðarhúsnæðis á Íslandi er óaðgengilegur fötluðu fólki og þjóðin er skarpt að eldast. Samfélagið þarf húsnæði sem er aðgengilegt og endist. Þá er íslenskur leigumarkaður mjög frábrugðinn leigumörkuðum flestra OECD ríkja í ljósi þess að meirihluti leigjenda hér á landi leigja af einstaklingum á almennum markaði en ekki af hinu opinbera eða leigufélögum. Sú staðreynd vegur þungt þegar horft er til fjölda skammtíma leigusamninga, skorts á fyrirsjáanleika um þróun leiguverðs og óstöðugleika á leigumarkaði.

Í nýrri skýrslu um húsnæðismál fatlaðs fólks kemur fram að fatlað fólk er líklegra til að vera á leigumarkaði og ólíklegra til að komast í gegnum greiðslumat. Jafnframt sýna tölur úr minnisblaði úr nýrri rannsókn um stöðu fatlaðs fólks á Íslandi sem Varðan rannsóknarstofnun vann fyrir ÖBÍ réttindasamtök að einungis 30,9% fatlaðra innflytjenda búa í eigin húsnæði. Þá upplifa 59,9% í sama hópi þunga byrði af húsnæðiskostnaði.

ÖBÍ telur brýnt að framkvæmdavaldið beiti sér markvisst til að tryggja húsnæðisöryggi á Íslandi, enda líf fólks í húfi. Dæmi af brunanum á Hvaleyrarbraut í Hafnarfirði og í Funahöfða í Reykjavík þar sem einn maður lést undirstrika alvarleika þeirra stöðu sem upp er komin á húsnæðis- og leigumarkaði sökum skorts á löglegu íbúðarhúsnæði. Sú staða bitnar fyrst og fremst á þeim sem höllum fæti standa í samfélaginu og hafa engin önnur bjargráð til að tryggja sér og sínum þak yfir höfuðið.

ÖBÍ óskar eftir að stjórnvöld greini ítarlega frá hvernig þau hyggjast bregðast við þessari alvarlegu stöðu í stefnumótun í málefnum innflytjenda og flóttafólks.

4.
Þekking, jafnt aðgengi fólks að heilbrigðiskerfinu og snemmtæk íhlutun er lykillinn að heilnæmu lífi og lífsöryggi samfélagsins. Í nýrri rannsókn Vörðu kemur fram að efnhagsstaða hefur bein áhrif á aðgengi fatlaðs fólks að heilbrigðiskerfinu. Samkvæmt niðurstöðunum hefur 46,9% fatlaðs fólks neitað sér um tannlæknaþjónustu og 41,8% neitað sér um sálfræðiþjónustu á síðastliðnum tólf mánuðum. Um þriðjungur hafði neitað sér um sjúkraþjálfun (34,5%) og fjórðungur um þjónustu sérfræðilækna (29,1%), hjálpartæki (29,1%), geðheilbrigðisþjónustu (27,9%), að leysa út lyf (23,8%) og heilbrigðisþjónustu almennt (23,8%). Því er vert að velta fyrir sér stöðu fatlaðs fólks með erlendan bakgrunn, í ljósi þess að sá hópur hefur enn lakara aðgengi að upplýsingum um réttindi og úrræði.

Í lið 3.6.5 í grænbókinni kemur fram að um 8% þeirra sem leituðu eftir þjónustu VIRK um endurhæfingu árið 2022 voru einstaklingar með erlendan bakgrunn. Þegar litið er nánar á þann hóp kemur í ljós að fólk með erlendan bakgrunn er líklegri til að leita til VIRK vegna líkamslegs heilsubrest samhliða einstaklingum með engan erlendan bakgrunn. Sú staða gæti skýrst af dreifingu starfandi innflytjenda eftir atvinnugrein, en samkvæmt töflu 2 í grænbókinni starfa 14.580 innflytjenda á Íslandi við byggingarstarfsemi, mannvirkjagerð, framleiðslu, námugröft, veitustarfsemi og meðhöndlun úrgangs, en þessum störfum fylgir ekki einungis líkamlegt álag heldur einnig slysahætta.

Vinnuslys og áverkar sem fá ekki meðhöndlun geta leitt til fötlunar. Því þurfa stjórnvöld að tryggja að enginn neyðist til að neita sér um heilbrigðisþjónustu á grundvelli efnahags.

5.
ÖBÍ tekur undir áherslur í hluta 3.7.5 grænbókarinnar er varðar mikilvægi mannúðarsjónarmiða við móttöku flóttafólks, en jafnframt að litið skal til sértækra mannúðarsjónarmiða við ákvörðun um heimild til dvalar hér á landi teljist fólk ekki flóttafólk samkvæmt skilgreiningu þess hugtaks. Því skýtur það skökku við að áherslur ríkisstjórnarinnar í grænbókinni samræmast ekki frumvarpi ríkisstjórnarinnar um breytingar á lögum um útlendinga (alþjóðleg vernd), mál nr. 236/2023. Með frumvarpinu mun ríkistjórnin fella úr gildi 74. gr. laganna sem heimilar veitingu dvalarleyfa á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Orð og gjörðir verða að fara saman til að tryggja trúverðugleika laga og alþjóðlegra skuldbindinga.

ÖBÍ telur mikilvægt að þeir sem hingað leita eftir alþjóðlegri vernd fái skilvirka, mannúðlega og vandaða málsmeðferð líkt og tekið er fram í kaflanum um forsögu máls og tilefni. ÖBÍ áréttar að fatlað fólk á flótta er viðkvæmur hópur og minnir íslensk stjórnvöld á að unnið er að lögfestingu samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks en samningurinn skuldbindur aðildarríki, Ísland, til þess að fara ekki gegn ákvæðum hans, þ.m.t. fötluðu fólki á flótta. Ómannúðleg meðferð íslenskra stjórnvalda í máli Husseins Hussein, fatlaðs umsækjanda um alþjóðlega vernd undirstrikar mikilvægi þess að vanda vel til verka í þessum viðkvæma málaflokki.

6.
ÖBÍ fagnar þjónustusamningi Félags- og vinnumarkaðsráðuneytisins við Félag heyrnalausra um ýmiss konar stoðþjónustu við döff flótta fólk hér á landi. Heyrnalausu flóttafólki hefur fjölgað hratt hér á landi og inngilding þess krefst sérfræðiþekkingar sem Félag heyrnarlausra býr yfir. Samningurinn hljóðaði upp á átta miljónir og rennur úr gildi í lok árs 2023.

ÖBÍ hvetur stjórnvöld til að framlengja þjónustusamningi ráðuneytisins og efla stöðu og aðgengi heyrnalausra flóttamanna að íslensku samfélagi. Jafnframt leggur ÖBÍ til að stjórnvöld bæti við áherslu um íslenskt táknmál í lið tvö um lykilsviðfangsefni grænbókarinnar er snýr að eflingu kennslu í íslensku sem annað mál, tryggt aðgengi að fjölbreyttu námi fyrir ólíkan aldur og jafnt aðgengi um land allt.

ÖBÍ áskilur sér rétt til að koma á framfæri frekari athugasemdum á seinni stigum.

Ekkert um okkur án okkar!

Með vinsemd og virðingu,

Alma Ýr Ingólfsdóttir
formaður ÖBÍ

Kjartan Þór Ingason
verkefnastjóri ÖBÍ


Grænbók í málefnum innflytjenda og flóttafólks
Mál nr. 232/2023. Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið.
Umsögn ÖBÍ, 8. desember 2023