ÖBÍ réttindasamtök fagna því að frumvarp til laga liggi fyrir um Mannréttindastofnun Íslands sem uppfylla eigi Parísarviðmið Sameinuðu þjóðanna, eins og skylda ber til samkvæmt 33. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks (SRFF). Þá lýsa samtökin ánægju með að stofnunin eigi að heyra undir Alþingi.
ÖBÍ vill árétta mikilvægi þess að stofnunin sé óháð og hafi nægjanlegt fjármagn og mannafla til að geta uppfyllt hlutverk sitt sbr. 2. gr. frumvarpsins. Eftirlitsstofnanir á Íslandi hafa oft verið vanfjármagnaðar, nærtækt dæmi er réttindagæslumenn fatlaðs fólks, sem eiga að starfa innan Mannréttindastofnunar Íslands, sbr. 9. gr, og hafa ekki geta sinnt verkefnum sínum sem skyldi vegna skorts á rekstrarfé og starfsfólki.
Starfsemi Mannréttindastofnunar er að mörgu leyti óljós í frumvarpinu. Gert er ráð fyrir starfandi framkvæmdastjóra sem starfar í umboði stjórnar, auk þess sem starfandi er ráðgjafanefnd. „Framkvæmdastjóra er heimilt að ráða sérfræðinga til að vinna að einstökum verkefnum og gera samninga við stofnanir eða samtök um einstök verkefni,“ sbr. 5. gr. Hvað fela einstök verkefni í sér og hvers vegna er lögð áhersla á verkefni frekar en málaflokka? Hvað er gert ráð fyrir mörgum stöðugildum?
Það er brýnt að innan Mannréttindastofnunar Íslands sé starfandi fagfólk með mikla þekkingu á mannréttindum og fjölbreyttum aðstæðum mismunandi þjóðfélagshópa, sem krefjast yfirsýnar og samræmingar. Ráðgjöf og fræðsla til almennings útheimtir fjölbreytta þekkingu starfsfólks og gera þarf ráð fyrir að þau sem til stofnunarinnar leita þurfi aðstoð túlka, þýðenda og lögfræðinga. ÖBÍ leggur til deildaskiptingu innan stofnunarinnar með áherslu á hvern minnihlutahóp fyrir sig, en að þverfagleg þekking milli deilda verði tryggð.
Í frumvarpinu er ekki gert ráð fyrir því að stofnunin taki til meðferðar kvartanir frá einstaklingum, en leiðbeini og aðstoði öll sem til hennar leita. Fólk í viðkvæmri stöðu, svo sem fatlað fólk, skortir oft getu, þekkingu og úthald til að reka sjálf sín mál. Það er því mjög mikilvægt að Mannréttindastofnun taki einstaklingsmál til meðferðar og setji sér viðmið um hvenær það er gert, og aðstoði einstaklinga við að leggja fram sín erindi við viðkomandi úrskurðarnefnd eða dómsaðila.
Mikilvægt er að tryggja sjálfstæði og gott vinnuumhverfi réttindagæslumanna fatlaðs fólk svo þeir geti sinnt því mikilvæga og brýna starfi sem til er ætlast.
ÖBÍ telja eðlilegt að stjórnar- og nefndarfólk fái greitt fyrir sín störf í þágu stofnunarinnar og mannréttinda.
ÖBÍ bendir á að samtökin heita nú ÖBÍ réttindasamtök, en ekki Öryrkjabandalag Íslands, sem ber að leiðrétta í h-lið, 2. mgr., 6. gr.
ÖBÍ áskilur sér rétt til að koma á framfæri frekari athugasemdum á seinni stigum.
Ekkert um okkur án okkar!
Með vinsemd og virðingu,
Þuríður Harpa Sigurðardóttir
formaður ÖBÍ
Stefán Vilbergsson
verkefnastjóri ÖBÍ
Frumvarp um Mannréttindastofnun Íslands
Mál nr. 110/2023. Forsætisráðuneytið.
Umsögn ÖBÍ, 21. júlí 2023