Skip to main content
Málefni barnaUmsögn

Frístundaþjónusta fyrir fötluð börn og ungmenni

By 18. desember 2024No Comments

ÖBÍ réttindasamtök taka undir drögin að reglugerð um frístundaþjónustu fyrir fötluð börn og ungmenni og fagna því að betrumbæta eigi regluverkið í kringum þá þjónustu, fötluðum börnum og ungmennum til hagsbóta. ÖBÍ vill koma eftirfarandi áthugasemdum á framfæri.

Í 10. gr. kemur fram að ákvörðun um að veita þjónustu skuli tekin svo fljótt sem kostur er. ÖBÍ gerir athugasemd við þetta orðalag þar sem það er ekki nægilega skýrt. Nauðsynlegt er að setja þjónustuveitanda ákveðin tímamörk til ákvörðunartöku eftir að öll nauðsynleg gögn hafa borist.

Einnig er gerð athugasemd við þann tímaramma sem kemur fram í drögunum um að leiðbeina skuli umsækjanda um önnur úrræði á biðtíma ef fyrirséð er að samþykkt þjónusta geti ekki hafist innan þriggja mánaða frá samþykkt umsóknar. Þetta er alltof langur tími, leiðbeina ætti öllum umsækjendum um önnur úrræði á biðtíma sama hversu langur biðtíminn er og þjónustuveitanda ætti að vera skylt að útvega annað úrræði á biðtíma.

Hvergi kemur fram í reglugerð hvar frístundaþjónusta fyrir fötluð börn og ungmenni skuli vera staðsett. Mikilvægt er að sú þjónusta fari fram sem næst heimili barnsins eða ungmennisins og því ætti að kveða á um staðsetningu hennar í reglugerð með sem skýrasta hætti.

Að lokum vill ÖBÍ ítreka ánægju sína með þessi drög að reglugerð.

Með vinsemd og virðingu,

Alma Ýr Ingólfsdóttir
formaður ÖBÍ

Andrea Valgeirsdóttir
lögfræðingur ÖBÍ


Bréf til Félags- og vinnumarkaðsráðuneytis.
Drög að reglugerð um frístundaþjónustu fyrir fötluð börn og ungmenni. [Forsamráð] Umsögn ÖBÍ, 18. desember 2024