ÖBÍ fagna því að framkvæmdaáætlun í kynjajafnréttismálum liggi fyrir en bendir jafnframt á að þær aðgerðir sem boðaðar eru í áætluninni til að jafna stöðu kynjanna þurfi að hugsa einnig út frá réttindum fatlaðs fólk, en það er jafnan í slæmri stöðu hvað þær áherslur varðar. Fatlaðar konur eru svo oftast í mestri hættu allra þjóðfélagshópa á að verða fyrir mismunun, órétti og misbeitingu. Það á jafnt við um hættu á því að vera beitt ofbeldi, til slæmrar fjárhagslegrar afkomu, stöðu í hamförum, aðstöðu í fangelsum eða öðru.
Áður en áætlanir og kerfi eru innleidd þarf ávallt að kynna sér þarfir og réttindi fatlaðs fólks til þess að forðast útskúfun og jaðarsetningu. ÖBÍ starfrækir sex málefnahópa sem fylgja eftir breiðri réttindabaráttu samtakanna. Áherslur þeirra eru aðgengismál, atvinnu- og menntamál, barnamál, heilbrigðismál, húsnæðismál og kjaramál. Stjórnvöld eru hvött til þess að leita til ÖBÍ og annarra samtaka fatlaðs fólks þegar áætlun í kynjajafnréttismálum kemur til framkvæmdar.
Að gefnu tilefni er ítrekað að stjórnvöldum er skylt að hafa virkt samráð við heildarsamtök fatlaðs fólks um ákvarðanir sem varða hagsmuni þess, samkvæmt ákvæðum samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks (SSRF), enda segir þar í 3. mgr. 4. gr., „aðildarríkin skulu, þegar þau undirbúa og beita löggjöf sinni og stefnu samningi þessum til framkvæmda og vinna að ákvarðanatöku um málefni fatlaðs fólks, hafa náið samráð og tryggja virka þátttöku fatlaðs fólks, þ.m.t. fötluð börn, með milligöngu samtaka sem koma fram fyrir þess hönd“.
Ekkert um okkur án okkar!
Með vinsemd og virðingu,
Alma Ýr Ingólfsdóttir
formaður ÖBÍ réttindasamtaka
Stefán Vilbergsson
verkefnastjóri ÖBÍ réttindasamtaka
Framkvæmdaáætlun í kynjajafnréttismálum fyrir árin 2025–2028
259. mál, þingsályktunartillaga.
Umsögn ÖBÍ, 5. nóvember 2024