Umsögn ÖBÍ réttindasamtaka
um fjármálaáætlun fyrir árin 2025–2029
1035. mál, þingsályktunartillaga.
Í umsögn þessari kynna ÖBÍ réttindasamtök helstu áherslumál sín í tengslum við fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar fyrir árin 2025-2029.
ÖBÍ fer fram á að stjórnvöld taki tillit til sjónarmiða samtakanna sem öll hafa þann tilgang að gæta að réttindum og velferð fatlaðs fólks.
Líkt og ÖBÍ hefur gert áður hvetja samtökin stjórnvöld til þess að tryggja að sá fjárhagslegi ávinningur sem stjórnvöld áætla af nýju almannatryggingakerfi, sem og það fjárhagslega svigrúm sem verður til við frestun gildistöku þess til 1. september 2025, verði nýtt til að bæta og styrkja kjör fatlaðs fólks.
Örorka og málefni fatlaðs fólks / kjaramál
Frestun gildistöku nýs örorkulífeyriskerfis í því skyni að fjármagna önnur verkefni
Í fjármálaáætlun 2025-2029 kemur fram að ein „veigamikil breyting frá gildandi fjármálaáætlun sem fellur undir félags- og tryggingamál er seinkun gildistöku nýs örorkulífeyriskerfis frá ársbyrjun 2025 til 1. september sama ár. Með breytingunni lækkar framlag sem gert hafði verið ráð fyrir í gildandi fjármálaáætlun til nýs örorkulífeyriskerfis um 10,1 ma.kr. vegna ársins 2025.“ Þessi breyting er gerð til að „skapa svigrúm fyrir aukin útgjöld í tengslum við aðkomu ríkissjóðs að gerð kjarasamninga á almennum markaði sem munu koma fram af miklum þunga á næsta ári“.
Að auki er ætlunin að nýta væntanlega lækkun útgjalda til örorkulífeyriskerfisins vegna lægra nýgengis örorku til að greiða fyrir útgjaldaauka vegna kjarasamninga.
Síðustu ár hefur verið gert ráð fyrir 2,5% fjölgun örorkulífeyristaka (nýgengi), en nú er gert ráð fyrir 1,5% fjölgun (nýgengi). Því er ljóst frestun gildistöku nýs örorkulífeyriskerfis er liður í að fjármagna aðgerðir ríkissjóðs vegna kjarasamninga og fötluðu fólki því ætlað að borga um 75% kostnaðar vegna þeirra aðgerða, með fyrirvara um nákvæma útreikninga.
Í frumvarpi félags- og vinnumarkaðsráðherra um breytingar á ýmsum lögum vegna endurskoðunar örorkulífeyriskerfis almannatrygginga (864. mál) var frestun gildistökunnar hins vegar skýrð á þann veg að breytingarnar krefjist talsverðs undirbúnings af hálfu Tryggingastofnunar hvað varðar tölvukerfi auk undirbúnings vegna innleiðingar þjónustugáttar og samþætts sérfræðimats sem koma eigi í stað gildandi örorkumats.
ÖBÍ réttindasamtök gera alvarlega athugasemd við að frestun gildistöku nýs örorkulífeyriskerfis og lækkun nýgengi örorku verði nýtt sem „sparnaðaraðgerð“ til að fjármagna aðra málaflokka og verkefni, s.s. aðkomu ríkissjóðs að kjarasamningum á almennum markaði.
Um er að ræða fjármagn sem ætlað var að bæta kjör fólks sem stendur fjárhagslega verst í samfélaginu. Um 68% fatlaðs fólks geta ekki mætt óvæntum útgjöldum án þess að stofna til skulda. Þetta er tvöfalt hærra hlutfall en hjá fólki á vinnumarkaði og algjörlega ólíðandi. Ef frestun gildistökunnar fer í gegn er ólíðandi annað en að fjármagninu (10,1 milljarðar) verði varið til að leiðrétta kjör fatlaðs fólks frá og með næstu áramótum.
Hækkun/ekki hækkun fjárframlaga
Í töflu 1 kemur fram að framlög til málefnasviðs Örorku og fatlaðs fólks hækkar töluvert á tímabilinu sem fjármálaáætlun spannar, bæði hvað varðar í prósentum (15,2%) og í krónum talið (ca. 16,5 milljarðar). Þegar framlögin á tímabilinu eru skoðuð í samræmi við verðbólguspá Þjóðhagspá Hagstofu Íslands, er hækkunin öllu minni eða um 1.6 milljarðar miðað við gefnar forsendur áðurnefndrar þjóðarhagsspár. Hækkun framlaga í málaflokkinn tekur mið af upptöku nýs örorkulífeyriskerfis.
Tafla 1 – Framlög til málefna öryrkja og fatlaðs fólks á tímabilinu 2024-2029 [Sjónlýsing á töflum í Alt text]
Undanfarin ár hefur dregið úr nýgengi örorkulífeyristaka og á móti hefur orðið fjölgun endurhæfingarlífeyristaka. Að jafnaði jókst heildarfjöldi örorku- og endurhæfingarlífeyristaka um rúmlega 3% á síðasta áratug en árin 2021 til 2023 var fjölgunin um eitt prósent, en eykst síðan í 2,3% á árinu 2023. Er það í samræmi við þá stefnu að fjölga úrræðum í endurhæfingu til að draga úr nýgengi örorku. Þetta hefur leitt til fjölgunar hjá þeim sem hafa fengið greiddan endurhæfingarlífeyri.
Í kynningu félags- og vinnumálaráðuneytisins kemur fram að nýtt greiðslukerfi örorku muni hækka framlög til málaflokksins um 18,1 ma.kr. á tímabilinu. Að auki kemur fram í kynningunni að kerfislægur vöxtur verði um 6,3 m.kr. á tímabilinu, sem er lækkun frá fyrri fjármálaáætlun vegna lægra nýgengis örorku. Gert er ráð fyrir því að nýgengi örorku fari úr úr 2,5% í 1,5%.
Í fjármálaætluninni er nefnt að bæta þurfi kjör örorkulífeyristaka. Annars vegar hjá þeim sem lakast standa, t.d. þeirra sem hafa litlar eða engar tekjur aðrar en bætur almannatrygginga og eru í leiguhúsnæði eða mjög skuldsettu húsnæði. Hins vegar hjá innflytjendum sem hefur fjölgað og af einhverjum ástæðum hafa ekki áunnið sér rétt til lífeyris í fyrra búsetu- eða starfslandi.
Að mati ÖBÍ þarf að tryggja stuðning við þessa hópa, því ljóst er að margir einstaklingar sem tilheyra þessum hópum hafa mjög takmörkuð efni og úrræði til að bæta sína stöðu og framfærslu.
Í fjármálaáætluninni eru tilgreindir áhættuþættir í þessum málaflokki:
- Að fólk með skerta starfsgetu fái ekki viðeigandi tækifæri á vinnumarkaði, m.ö.o. ekki eru störf til staðar fyrir þau.
Að viðurkennt meðferðar- og endurhæfingarúrræði verði ekki til staðar.
ÖBÍ réttindasamtök taka undir áhyggjur þær sem koma fram í fjármálaáætluninni og það er mat samtakanna að í fjármálaáætluninni skortir áherslur til að takast á við þessa áhættuþætti.
Markmið:
- Fjöldi einstaklinga sem fá fyrsta örorkumat lækki um 12% af mannfjölda 18-66 ára til ársins 2029.
- Að hlutfall einstaklinga með 75% örorkumat lækki um 34% hjá körlum og um 20% hjá konum á árinu 2029, m.v. stöðuna í dag.
- Að sama skapi aukist hlutfall þeirra sem fá hlutaörorkulífeyri.
Samkvæmt upplýsingum frá TR, voru alls 19.423 örorkulífeyristakar með 75% örörkumat 31.12.2023. Þar af voru konur 11,878 (62,2%) og karlar voru 7,545 (38,8%). Ef markmið fjármálaáætlunarinnar gengur eftir, þá munu um 5000 örorkulífeyrisþegar (2,376 konur og 2,565 karlar) færast úr fullu örorkumati, yfir í hlutaörorku og þurfa því að hafa hlutastarf til að bæta tekjur sínar.
Meðal meginmarkmiða málefnasviðs Örorka og málefni fatlaðs fólks skv. fjármálaáætluninni er að fatlað fólk geti lifað innihaldsríku og sjálfstæðu lífi og framfleytt sér með tekjum sínum. Óskertur örorkulífeyrir eftir skatt er á bilinu 302 til 380 þúsund kr. og dugar því engan veginn til framfærslu. Miðgildi heildartekna örorkulífeyristaka er lítið hærra eða um 387 þúsund kr. á mánuði eftir skatt.
Í niðurstöðum könnunar Vörðu rannsóknastofnunar vinnumarkaðarins um stöðu fatlaðs fólks frá desember 2023 er ljóst að fjárhagsstaðan er mjög slæm fyrir stóran hluta hópsins. Þar kemur m.a. fram að:
» Ríflega þriðjungur býr við efnislegan skort eða verulegan efnislegan skort.
» Tæplega sjö af hverjum tíu geta ekki mætt óvæntum 80.000 kr. útgjöldum án þess að stofna til skuldar.
» Meira en helmingur metur fjárhagsstöðu sína nokkuð eða mun verri en fyrir ári síðan.
Undir framtíðarsýn fyrir málefnasviðið segir að lögð verði áhersla á að afkoma örorkulífeyrisþega verði áfram bætt með það að markmiði að bæta sérstaklega kjör þeirra sem lakast standa. Í frumvarpi um um breytingu á ýmsum lögum vegna endurskoðunar örorkulífeyriskerfis almannatrygginga (864. mál) er ekki gert ráð fyrir að bæta kjör þessa hóps.
Örorkulífeyristakar sem fá greidda heimilisuppbót (einhleypir og búa einir) og eru með óskertan örorkulífeyri til framfærsla munu samkvæmt frumvarpinu fá hækkanir á bilinu 803 kr. til 6.803 kr. á mánuði (fyrir skatt) ef frumvarpið verður óbreytt að lögum. Hækkanir til þeirra sem fá ekki greidda heimilisuppbót og eru með óskertan örorkulífeyri til framfærslu eru lítið hærri eða á bilinu 30 til 36 þúsund kr. á mánuði.
Í skjalinu stefnumótun málefnasviða, kafli 27 Örorka og málefni fatlaðs fólks segir að “…þeir sem nú eru á örorku eða nýir sem ljúka endurhæfingu með getu til virkni á vinnumarkaði á bilinu 26-50% fá hlutaörorkulífeyri.” . Hér er mótsögn við frumvarp um endurskoðun örorkulífeyriskerfis almannatrygginga (864.mál), en samkvæmt frumvarpinu geta örorkulífeyristakar í samræmi við örorkumat sem er í gildi 31.8.2025 byggt rétt til örorkulífeyrisgreiðslna skv. ákvæðum sem gilda frá 1.9. 2025, óháð því hvort matið er varanlegt eða tímabundið.
Vinnumarkaður og vinnumarkaðsaðgerðir
Í töflu 2 hér að neðan kemur fram að framlög til málefnasviðs vinnumarkaðar og atvinnuleysis lækkar á tímabilinu, bæði í prósentum (-2,3%) og í krónum talið um einn milljarð. Er lækkun fyrst og fremst vegna þess að tímabundnar fjárveitingar árið 2025 vegna greiðslu launa vegna jarðhræringa í Grindavík (2.4 milljarðar) falla niður. Þegar tekið er tilltið til verðbólguspár Þjóðhagspár Hagstofu Íslands er lækkun á framlögum í málaflokknum um 8,8 milljarðar m.v. forsendur áðurnefndar þjóðarhagsspá.
Lækkun framlaga
Tafla 2 – Framlög til vinnumarkaðar og atvinnuleysis
Í fjármálaáætlunnni segir að atvinnuleysi árið 2023 hafi verið um 3.25% á árinu. Í nýrri Þjóðhagsspá Hagstofu Íslands kemur fram að atvinnuleysi í ár verði 4.2% sem er aukning frá síðasta ári. Ástæður fyrir auknu atvinnuleysi er minni spenna á vinnumarkaði og minnkandi hagvöxtur. Hagstofan spáir minni hagvexti næstu þrjú árin af sömu ástæðum og var nefnt hér að ofan og má því búast við því að atvinnuleysi verði svipað því og það verði í ár (4.2%), ef ekki hærra.
Tafla 3 sýnir minni fjárveitingar í málaflokkinn vinnumarkað og atvinnuleysi á tímabilinu 2025-2029. Það veldur ÖBÍ vonbrigðum. Þær sérstöku fjárveitingar eru of lágar á tímabilinu sem ætlað er að auka vinnumarkaðsaðgerðir til að styðja við fólk með hlutaörorkumat og fyrirséð er að fari út á vinnumarkaðinn, í hlutastörf. Það má áætla að fjöldi þeirra sem verði á hlutaörorku verði á bilinu 5000-6000 manns árið 2029.
Í áætluninni segir að fjölga eigi starfstækifærum í samstarfi við atvinnulíf fyrir fólk með skerta starfsgetu úr 347 (árið 2023) í 580 (árið 2029) sem er fjölgun um 233 störf. Það er jákvætt skref, en í ljósi þess að fyrirhugað er að taka upp nýtt örorkulífeyriskerfi þar sem stór hluti þeirra sem fá lífeyri í hinu nýja kerfi, fá hlutaörorkulífeyri, er ljóst að stórfjölga þarf starfstækifærum fyrir fólk með skerta starfsgetu. Að auki skýtur það skökku við að fjárveitingar til þessa málaflokks eru lægri sem gefur til kynna að atvinnuleysi á tímabilinu verði minna en það er í dag, þegar Þjóðhagsspá Hagstofu Íslands spáir hærra atvinnuleysi á tímabilinu.
Í kynningu Félags- og vinnumálaráðuneytisins koma fram eftirfarandi atriði varðandi vinnumarkað:
- Aukin framlög 2025-2027 100 m.kr. árlega eða 300 m.kr. samtals og varanlega frá 2027 vegna vinnumarkaðsúrræða vegna nýs kerfis örorku og endurhæfingar.
- Aukning árið 2027 um 400 m.kr. vegna vinnumarkaðsaðgerða.
- Aukin framlög vegna vinnusamninga öryrkja verða 50 m.kr. 2025 og 150 m.kr. 2026, alls varanlega 200 m.kr. frá 2027.
Ofangreint sýnir að þau framlög sem sett verða í auknar vinnumarkaðsaðgerðir duga engan veginn til að mæta þeim fjölda fólks sem gert er ráð fyrir að verði á hlutaörorku og þurfi að fara á vinnumarkaðinn til að afla sér frekari tekna.
Í frumvarpi til laga um breytingu á ýmsum lögum vegna endurskoðunar örorkulífeyriskerfis almannatrygginga , segir í greinargerð að gert sé ráð fyrir hátt í 900 millj. kr. til vinnumarkaðsaðgerða. Þessar 900 milljónir eiga að fara í vinnumarkaðsaðgerðir þar með talið greiðslur fyrir virknistyrk. Þessi fjárhæð myndi duga fyrir virknistyrk fyrir um 790 manns, en þá á eftir að mæta kostnaði vegna annarra vinnumarkaðsaðgerðar.
Í kostnaðaráætlun með frumvarpi vegna endurskoðunar örorkulífeyriskerfis almannatrygginga (864. mál) er gert ráð fyrir um 900 milljóna aukningu í vinnumarkaðsaðgerðir á næsta ári, en skv. fjármálaáætluninni mun framlög til málaflokksins lækka um tæpa tvo milljarða. Þetta fer ekki saman og þarf að skýra.
Í fjármálaáætluninni er tilgreindur sem áhættuþáttur að það helsta sem getur komið í veg fyrir að markmið málaflokksins náist er skortur á viðeigandi störfum á vinnumarkaði þannig að sem flest geti verið þátttakendur á vinnumarkaði þrátt fyrir mismikla starfsgetu og óháð þjóðerni, menntun eða aldri.
ÖBÍ tekur undir þessar áhyggjur og bendir á að fjármálaáætlunina skortir áherslur til að takast á við þessa áhættuþætti.
Undir málefnasvið 27 segir að fjölgun innflytjenda, sem af einhverjum ástæðum hafa ekki áunnið sér rétt til lífeyris í fyrra búsetu- eða starfslandi, sé áhættuþáttur. Tryggja þurfi stuðning við þann hóp öryrkja en leiða megi líkur að því að þessir einstaklingar hafi margir mjög takmörkuð efni og úrræði sér til framfærslu. ÖBÍ tekur undir að mikilvægt sé að tryggja stuðning við þessa einstaklinga en fær ekki séð að fyrir liggi að teljandi áætlanir um slíkan stuðning. Í þessu samhengi vill ÖBÍ benda á að greiðsluflokkurinn framfærsluuppbót haldi gildi sínu til að tryggja að greiðslu til þeirra sem ekki hafa fullan búseturétt lækki ekki við fyrirhugaðar breytingar á örorkulífeyri almannatrygginga (sjá umsögn ÖBÍ við frumvarp um endurskoðun örorkulífeyriskerfis almannatrygginga, 864. mál).
Rafbílavæðing
Í rökum fyrir því að lagt er kílómetragjald á raf- og tvinnbíla er bent á að það sé samt sem áður um helmingi ódýrara að reka þá en bíla sem knúnir eru af jarðefnaeldsneyti. Áður en kemur að rekstri þarf fólk þó að geta eignast sparneytna bíla, en raf- og tvinnbílar eru mun dýrari en sambærilegir jarðefnaeldsneytisbílar. Mikilvægt skref til að koma til móts við fatlað fólk sem hefur ekki átt kost á að taka þátt í orkuskiptum var stigið um síðustu áramót þegar breyting var gerð á reglugerð um uppbætur og styrki hreyfihamlaðra einstaklinga vegna bifreiða nr. 905/2021. Þá hækkuðu styrkir og uppbætur í fyrsta sinn í langan tíma og munu nú hækka sjálfkrafa árlega auk þess sem eru vissar ívilnanir til að greiða fyrir kaupum á rafbílum. Á sama tíma runnu út ívilnanir vegna virðisaukaskatts en á móti voru innleiddir óhagstæðari styrkir úr Orkusjóði til kaupa á rafbílum. Það er því erfitt að sjá annað en að við langþráð framfaraskref hafi um leið verið tekið annað skref tilbaka og fatlað fólk sé því áfram í sömu stöðu og áður.
Stafrænt aðgengi
ÖBÍ lýsa yfir miklum áhyggjum af umfjöllun um stafræna þróun í fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar og telur enga innstæðu fyrir þeirri bjartsýni sem þar birtist. Hægt er að benda á hagræðingu í rekstri og aukna framleiðni þegar horft er fram hjá þeim kostnaði sem fylgir töpuðum réttindum fatlaðs fólks og miklu fjárhagslegu tapi fyrir bæði hið opinbera og einstaklinga í viðkvæmri stöðu. Það er ljóst af reynslu að þess mál leysast ekki af sjálfu sér en krefjast skýrrar markmiðasetningar og eftirfylgd.
Það er mjög mikilvægt að stafrænar lausnir, ekki síst þau sem krefjast rafrænna skilríkja, taki mið af möguleikum allra til að nýta sér þær, en sú hefur ekki verið raunin. Því er mikilvægt að koma í veg fyrir að stofnunum og öðrum þjónustuaðilum leyfist að fella alveg út þær þjónustuleiðir sem hafa nýst fólki fram að þessu, með því er gerð aðför að sjálfræði og sjálfstæði hins almenna borgara. Varaleiðin þarf áfram að vera til staðar.
Umboðsmaður Alþingis hefur bent á “að á grundvelli jafnræðissjónarmiða hefði sú stefna [verið mörkuð með breytingu á stjórnsýslulögunum árið 2003] að rafræn stjórnsýsla ætti að vera valkostur fyrir borgarana en ekki skylda. Þá komu fram í lögunum ákveðnar kröfur um leiðbeiningaskyldu stjórnvalda varðandi rafræna meðferð máls svo og meginsjónarmið sem tryggja áttu tæknilegt jafnræði, ef svo má að orði komast.” (arsskyrsla-2022.pdf (umbodsmadur.is)
Umboðskerfi mun þjóna ákveðnum hópi fólks en vel er hægt að koma til móts við flest þau sem nú eiga í erfiðleikum við að nýta sér stafrænar lausnir. Mikilvægt skref í að tryggja aðgengi allra er að innleiða tilskipun um stafrænt aðgengi, WCAG, þegar í stað.
Í málaflokki 27.30 Málefni fatlaðs fólks (bls. 184) segir að “[m]arkmið um að nýsköpun og tækni tryggi aðgengi fatlaðs fólks að upplýsingasamfélaginu hefur einnig verið tekið úr þessari áætlun þar sem markmið og mælikvarðar þóttu ekki best til þess fallin að lýsa stöðu innan málaflokksins. Fjallað er um bætt aðgengi að rafrænum og stafrænum upplýsingum í landsáætlun og lagðar fram tímasettar tillögur að aðgerðum til úrbóta, auk þess sem ofangreindur framtíðarhópur hefur það verkefni að vinna að þróun og nýsköpun í þjónustu við fatlað fólk, m.a. með notkun tæknilausna.” Það er ekki útskýrt hvernig landsáætlun [í málefnum fatlaðs fólks] muni fjármagna téð markmið með öðrum leiðum en einmitt þeim sem heyra undir fjármálaáætlun ríkisins, enda er ekki vitað til þess að landsáætlun hafi tryggða fjármögnun.
Málefni innflytjenda og umsækjenda um alþjóðlega vernd
Undir málefnasviði 10.5 er fjallað um áform um að komið verði upp lokuðum búsetuúrræðum fyrir fólk sem hefur fengið synjun á umsóknum sínum um alþjóðlega vernd. ÖBÍ er alfarið mótfallið áformum um lokuð búsetuúrræði. ÖBÍ telur áform um slíkt óþörf og hvetur stjórnvöld til að falla frá þeim og nýta fjármunina til þarfari verkefna á málefnasviðinu sem hafa gagnsamari og mannúðlegri tilgang. ÖBÍ hvetur stjórnvöld til að íhuga vel þá sviðsmynd sem kann að renna upp verði slík áform að raunveruleika. Í því felst m.a. að fjöldi jaðarsetts fólks sem ekkert hefur sér til sakar unnið verði svipt frelsi sínu og öðrum grundvallar mannréttindum. Hvetur ÖBÍ stjórnvöld til að íhuga það sérstaklega í samhengi við stöðu einstaklinga í viðkvæmri stöðu, þ.m.t. fatlaðs fólks og barna.
Undir málefnasviði 10.5 segir að ekki sé raunhæft að íslenskir innviðir þoli rúmlega 4000 umsóknir um alþjóðlega vernd á ári á komandi árum. Einnig að ljóst sé að íslensk stjórnvöld þurfi að grípa til ákveðinna mótvægisaðgerða í þeirri viðleitni að draga úr fjölda umsækjenda. Í fyrstu bendir ÖBÍ á að fjöldi fólks á flótta í heiminum færist í aukana og ber Íslenska ríkinu að leggja sitt af mörkum í því sameiginlega verkefni betur stæðra ríkja að tryggja fólki á flótta vernd. Ísland þarf að laga áætlanir sína að þessum veruleika.
ÖBÍ bendir á að ekki er heimilt að setja fjöldatakmarkanir á veitingu alþjóðlegrar verndar samkvæmt alþjóðlegum mannréttindaskuldbindingum sem íslensk stjórnvöld hafa undirgengist. Þegar tekið er á móti fólki á flótta er nauðsynlegt að tryggja að til staðar séu innviðir til að tryggja mannsæmandi aðstæður. Ber sérstaklega að gæta þess í tilviki einstaklinga í viðkvæmri stöðu, þ.m.t. fatlaðs fólks. Þegar fatlað fólk á flótta kemur til landsins ber í öllum tilvikum að ganga úr skugga um að þau njóti réttinda sinna, þ.m.t. að teknu tilliti til ákvæða samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.
Að öllu framangreindu virtu telur ÖBÍ að leggja beri áherslu á að ráðstafa fjármagni til að styrkja innviði fremur en að hindra aðgang að verndarkerfinu.
ÖBÍ telur skiljanlegt að leitað sé leiða til að hagræða í verndarkerfinu en leggst gegn hverskonar aðgerðum sem kunna að fela það í sér að réttindi fólks, einkum fólks í viðkvæmri stöðu, verði skert.
Húsnæðis- og skipulagsmál
Aðgengi og sjálfbær uppbygging á íbúðarhúsnæði sem samsvarar eftirspurn og þörfum almennings er ein af forsendum búsetuöryggis og grundvallar stoð til að skapa velsældarsamfélag á Íslandi. Meirihluti mannvirkja á Íslandi er óaðgengilegur fötluðu fólki og örorkulífeyristakar sem reiða sig alfarið á greiðslur Tryggingastofnunar standast ekki lánshæfismat.
Á tímabili fjármálaáætlunar verða stofnframlag aukið um 12,6 ma.kr. sem á m.a. að skapa grundvöll fyrir leiguverði sem samræmist greiðslugetu leigjanda og sé að jafnaði ekki hærri en 25% af tekjum.
Hinsvegar er rétt að upplýsa að tveir af hverjum þremur úr hópi fatlaðs fólks á almennum leigumarkaði býr við þunga byrði af húsnæðiskostnaði á móti ríflega helmingi launafólks, samkvæmt nýrri rannsókn Vörðu um stöðu fatlaðs fólks. Á hinn bóginn er nokkuð svipað hlutfall fatlaðs fólks og launafólks sem býr í leiguhúsnæði á vegum óhagnaðardrifinna leigusamtaka eða sveitarfélaga sem býr við þunga byrði (44% á móti 45,3%). Íslenskur leigumarkaður er mjög frábrugðinn leigumörkuðum flestra OECD-ríkja í ljósi þess að meirihluti leigjenda hér á landi leigir af einstaklingum á almennum markaði en ekki af hinu opinbera eða leigufélögum.
» ÖBÍ leggur til að ríkið framlengi tímabundnar hækkanir stofnframlaga út árið 2029 til að stuðla að fjölbreyttari leigumarkaði og húsnæðisöryggi fatlaðs fólks.
» ÖBÍ leggur til að stjórnvöld beiti sér markvist fyrir framkvæmdum á 3500 íbúðum til viðbótar, í samræmi við mat HMS. Stofnunin áætlar að 1.406 íbúðir sem eru nú í byggingu komi inn á markað árið 2026, sem er nægilega mikið til að sinna um 29% af væntri íbúðaþörf á því ári.
» ÖBÍ leggur til að löggjafinn setji fjárhagslega hvata fyrir byggingaverktaka og leigusala til að byggja, selja og leigja út aðgengileg íbúðarhúsnæði út frá viðmiðum um algilda hönnun. Allar ívilnanir, bæði vegna framkvæmda og útleigu yrði háð úttekt frá Húsnæðis- og Mannvirkjastofnun. ÖBÍ áréttar að nú þegar eru ákvæði og kröfur um aðgengi og algilda hönnun í byggingarreglugerð.
Almennar athugasemdir
ÖBÍ hefur efasemdir um að framsetning fjármálaáætlunar standist kröfur um skýrleika, aðgengileika og gagnsæi. Í þessu sambandi bendir ÖBÍ m.a. á að skjal sem inniheldur umfjöllun um stefnumótun málefnasviða er ekki hluti af fjármálaáætluninni en þó er um að ræða skjal með ítarlegri efnisumfjöllun sem er umtalsvert lengra en fjármálaáætlunin sjálf. Þá er óheppilegt að skjölin hafa engin blaðsíðunúmer. Í þessum sambandi minni ÖBÍ á að fjármálaáætlun á að vera aðgengileg almenningi ekki síður en fagaðilum. Í 1. mgr. 49.gr. laga um opinber fjármál nr. 123/2015 segir að skýrslur og upplýsingar um ríkisfjármál skuli vera greinargóðar, áreiðanlegar og settar fram tímanlega og birtar opinberlega. Í athugasemdum við ákvæðið í frumvarpi því sem varð að lögunum segir að lögð sé áhersla á að upplýsingar um ríkisfjármál séu settar fram á aðgengilegan hátt til að þær geti nýst almenningi jafnt sem fag- og eftirlitsaðilum sem best. Einnig má benda á að skv. 5. tl. 2. mgr. sömu laga er gagnsæi eitt að grunngildum fjármálastefnu og fjármálaáætlunar. ÖBÍ leggur því til að skjalið sem inniheldur ítarlega umfjöllun um hvert málefnasvið (Stefnumótun málefnasviða) verði bætt við sjálfa fjármálaáætlun sem ítarefni.
ÖBÍ réttindasamtök eru sem endranær reiðubúið að fylgja eftir umsögn sinni og óskar eftir að eiga samtal og samvinnu við stjórnvöld og aðra hagaðila um frekari úrvinnslu áætlunarinnar. Þá áskilja samtökin sér rétt til að koma á framfæri frekari athugasemdum á seinni stigum.
Ekkert um okkur án okkar!
Alma Ýr Ingólfsdóttir
Formaður ÖBÍ réttindasamtaka
Bergþór Heimir Þórðarson
Varaformaður ÖBÍ réttindasamtaka
Gunnar Alexander Ólafsson
Hagfræðingur ÖBÍ réttindasamtaka
Sigríður Hanna Ingólfsdóttir
Félagsráðgjafi ÖBÍ réttindasamtaka
Sigurður Árnason
Lögfræðingur ÖBÍ réttindasamtaka
Stefán Vilbergsson
Verkefnisstjóri ÖBÍ réttindasamtaka