
„Að mati ÖBÍ eru það mikil vonbrigði að ekki er lagt fé í byggingu nýrrar geðdeildar Landspítala, sérstaklega í ljósi fyrirhugaðar aukningar í geðrænum áskorunum.“
Í umsögn þessari kynna ÖBÍ réttindasamtök (ÖBÍ) helstu áherslumál sín í tengslum við fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar fyrir árin 2026-2030. ÖBÍ eru sem endranær reiðubúið að fylgja eftir umsögn sinni og óskar eftir að eiga samstarf frekari úrvinnslu áætlunarinnar.
1. Örorka og málefni fatlaðs fólks / kjaramál
Samkvæmt fjármálaáætluninni verða framlög til málefnasviðs Örorku og málefni fatlaðs fólks aukin um 4,9 milljarða umfram þróun verðbólgu á tímabilinu. Þó um „aukningu“ fjárveitinga til málaflokksins sé um að ræða, þá verður að skoða kerfislægan vöxt sem miðar við mannfjöldaspá. Kerfislægur vöxtur er metinn 8,6 ma.kr. á tímabilinu og því þyrfti að auka framlögin um 3,7 milljarða til viðbótar til að viðhalda framlögum við verðbólgu.
ÖBÍ leggst gegn því að fella niður framlag til jöfnunar örorkubyrgði almennra lífeyrissjóða árið 2026. ÖBÍ telur ljóst að það muni hafa í för með sér kjaraskerðingu á meðal örorkulífeyristaka.
ÖBÍ fagnar áformum ríkisstjórnarinnar um að lögfesta Samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks (SRFF). Lögfestingin ein og sér tryggir þó ekki að fatlað fólk hljóti lögbundna þjónustu. Ríkið ásamt sveitarfélögum þurfa að tryggja þjónustu þá sem samningurinn og gildandi lög og reglugerðir kveða á um og tryggja tilheyrandi fjármagn. ÖBÍ vekur athygli á nýlegum skýrslum Ríkisendurskoðunar og Gæða- og eftirlitsstofnunar velferðarmála sem sýna að hjá ríki og sveitarfélögum er mikil vinna framundan við að tryggja lögbundna þjónustu.
ÖBÍ fagnar áformum ríkisstjórnarinnar um að stöðva kjaragliðnun launa og lífeyris, sbr. 8. tl. stefnuyfirlýsingar ríkisstjórnarinnar og frumvarp ráðherra félagsmála þess efnis. Engu að síður er bent á að kjaragliðnun sú sem myndast hefur árum saman mun ekki hverfa þrátt fyrir stöðvun hennar. Einnig bendir ÖBÍ á að innleiðing á breyttu örorkulífeyriskerfi mun ein og sér ekki bæta stöðu þeirra sem hafa enga aðra framfærslu en örorkulífeyrisgreiðslur. Grípa þarf til frekari aðgerða til að bæta grunnframfærslu tekjulágra lífeyrisþega umfram vísitöluþróun, sbr. 8. tl. í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar.
ÖBÍ vekur athygli á nýlegum tilmælum Umboðsmanns Alþingis þess efnis að brýnt sé að bregðast skjótt við og skoða hvort réttaröryggi fatlaðs fólks sé nægilega tryggt með tilliti til nauðungar. Nauðung felur í sér alvarlegt inngrip í líf fatlaðs fólks og varðar grundvallar mannréttindi þess. Tryggja verður fjármagn til að bregðast við athugasemdum Umboðsmanns.
» ÖBÍ leggur til viðbótaraukningu framlaga um a.m.k. 3,7 millljarða í málaflokkinn.
» ÖBÍ leggst gegn niðurfellingu framlags til jöfnunar örorkubyrði lífeyrissjóða.
» ÖBÍ leggur til að veitt verði fjármagni til að tryggja réttaröryggi með tilliti til nauðungar fatlaðs fólks.
2. Heilbrigðismál, börn og biðlistar
Heildarútgjöld til heilbrigðismála á tímabili áætlunarinnar hækka að raungildi um einn milljarð þegar tekið hefur verið tillit til verðbólgu. Á nær öllum málefnasviðum sem heyra undir heilbrigðismál er raunlækkun nema hvað varðar framlög til fjárfestinga í sjúkrahúsbyggingum. ÖBÍ sér ekki hvernig framlög til reksturs heilbrigðismála geti unnið upp vanfjármagnaða þjónustu undanfarin ár. Á þetta almennt við heilbrigðiskerfið í heild sinni og líka framlög til geðheilbrigðismála eins og fram kemur í greinargerðinni Innviðaskuldin mikla frá Geðhjálp, en þar kemur fram að síðustu tíu ár hafa framlög til heilbrigðismála verið töluvert lægri hér á landi borið saman við nágrannalöndin.
2.1. Raunlækkun framlaga til sjúkrahúsa
Framlög til málefnasviðs Sjúkrahúsþjónustu eru aukin á tímabili áætlunarinnar og nær eingöngu til fjárfestinga en ekki til reksturs. Framlög til reksturs hækka um 12 milljarða á tímabilinu en þyrftu að hækka um 20 milljarðar til að vera í samræmi við verðbólguspá áætlunarinnar. Raunlækkun á framlagi til rekstrar upp á 8 milljarða veldur ÖBÍ vonbrigðum og áhyggjum í ljósi þess að þessi málaflokkur stendur frammi fyrir nokkrum áskorunum hvað varðar sérhæfða þjónustu sem orsakast af öldrun þjóðarinnar, aukningu á geðrænum áskorum óháð aldri, aukningu í lífstílstengdum sjúkdómum og fólksfjölgun.
2.2. Vantar sýn á nýja geðdeild Landspítala
Framlög til fjárfestinga á málefnasviði Sjúkrahúsþjónustu verður aukin á tímabili áætlunarinnar og fer langmest af þeim framlögum til byggingu nýs Landspítala við Hringbraut. ÖBÍ saknar þess að sjá ekki að tilgreindar séu framkvæmdir við nýja geðdeild Landspítala. Að mati ÖBÍ eru það mikil vonbrigði að ekki er lagt fé í byggingu nýrrar geðdeildar Landspítala, sérstaklega í ljósi fyrirhugaðar aukningar í geðrænum áskorunum.
2.3. Raunlækkun framlaga til málaflokksins heilbrigðisþjónusta utan sjúkrahúsa
ÖBÍ lýsir yfir miklum vonbrigðum með að framlög til málefnasviðs Heilbrigðisþjónustu utan sjúkrahúsa lækkar að raungildi á tímabili áætlunarinnar. Þó framlög til málefnasviðsins hækki um 6,6 milljarða á tímabilinu þyrftu framlögin að hækka um 12,7 milljarða í samræmi við spá um verðbólgu. Mismunurinn er 6,1 milljarður. Til málefnasviðsins teljast þættir eins og heilsugæsla, lýðheilsa, forvarnir, sjúkraflutningar, samningar við veitendur heilbrigðisþjónustu utan sjúkrahúsa (sérfræðingar). Í ljósi lækkandi framlaga fær ÖBÍ ekki séð hvernig eigi að ná fram þeim áherslum að stytta biðlista barna eftir heilbrigðisþjónustu, bæta aðgengi að geðheilbrigðisþjónustu og efla almenna og sérhæfða heimahjúkrun.
2.4. Vantar umfjöllun um hjálpartæki
Samkvæmt áætluninni munu framlög til málefnasviðsins Lyf og lækningavörur (og hjálpartæki) verða í samræmi við þróun verðbólgu. Það veldur ÖBÍ miklum vonbrigðum að sjá engar áherslur í áætluninni varðandi hjálpartæki og hvernig eigi að auka aðgengi fatlaðs fólks að þeim, gera þeim betur kleift að takast á við daglegt líf og auka lífsgæði þess.
2.5. Lækkandi framlög til málaflokks um lýðheilsu og forvarnir
Framlög til málefnasviðs Lýðheilsu og stjórnsýslu velferðarmála fer lækkandi eftir því sem líður á tímabil áætlunarinnar. ÖBÍ getur ekki séð, í ljósi lækkandi framlaga, hvernig eigi að vera hægt að leggja aukna áherslu á lýðheilsu, forvarnir og heilsueflingu barna og ungmenna, styrkja stoðir heilbrigðis- og öldrunarþjónustu og auka heilsufarslegan jöfnuð og tryggja aðgengi að hvers konar heilbrigðis- og velferðarþjónustu.
» ÖBÍ leggur til að framlög verði aukin til rekstur heilbrigðisþjónustu, í hjálpartæki, til sjúkrahúsa og þjónustu utan sjúkrahúsa og að lagt verði fé til byggingar nýrrar geðdeildar Landspítala.
3. Fjölskyldumál, menning, listir, íþróttir og æskulýðsmál
3.1. Fjölskyldumál
Gert er ráð fyrir að útgjaldarammi málefnasviðs Fjölskyldumála hækki um 5,9 ma.kr. á tímabili áætlunarinnar, einkum vegna byggingar og reksturs á nýju húsnæði öryggisvistunar og vegna kostnaðar við búsetu barna með fjölþættan vanda utan heimilis. ÖBÍ fagnar ákvörðun ríkisstjórnarinnar um að taka yfir ábyrgð og kostnað vegna þessara tveggja mikilvægu mála. Í áætluninni segir að gerðar verði breytingar á barnabótakerfinu sem eiga að styrkja afkomuöryggi allra foreldra í fæðingarorlofi og að hagur tekjulægri foreldra verði sérstaklega bættur. Framlög vegna sorgarleyfis verða aukin um leið og efla eigi þjónustu við börn og leita eigi leiða til að tryggja að börn og foreldrar hafi aukinn aðgang að samþættri þjónustu. Samkvæmt Fjármálaáætluninni er gert ráð fyrir aukningu í málaflokknum um 14,24 milljarða í það minnsta en hins vegar verða framlögin eingöngu aukin um 5,9 milljarða. Það veldur ÖBÍ áhyggjum að stefnt er að mikilli útgjaldaaukningu í málaflokknum sem er ekki mætt með viðunandi framlögum.
3.2. Menning, listir, íþróttir og æskulýðsmál
Þátttaka barna í íþrótta- og æskulýðsstarfi hefur jákvæð áhrif á andlegt heilbrigði þeirra og er öflug forvörn. Því er nauðsynlegt er að öll börn eigi þess kost að stunda þá íþrótt sem þau kjósa. Samkvæmt áætluninni er dregið úr framlögum til málaflokksins um 3,5 milljarða á tímabilinu. Að mati ÖBÍ verður aðgengi allra barna að þátttöku í íþrótta- og æskulýðsstarfi ekki aukið með því að draga úr framlögum til málaflokksins. ÖBÍ leggur áherslu á að tryggja fjármagn svo að öll börn eigi jafna möguleika til þátttöku í íþrótta- og æskulýðsstarfi óháð fötlun eða efnahagi foreldra þeirra.
» ÖBÍ leggur til að framlög til fjölskyldumála sem og til íþrótta og æskulýðsmála verði aukin til að mæta þeim áskorunum sem málaflokkurinn stendur frammi fyrir.
4. Vinnumarkaður og vinnumarkaðsaðgerðir
4.1. Vinnumarkaðsaðgerðir
ÖBÍ fagnar aukinni áherslu á að auka atvinnuþátttöku fólks með mismikla starfsgetu. Með breytingum á örorkulífeyriskerfinu verður til nýr greiðsluflokkur, hlutaörorkulífeyri sem býr til aukinn hvata fyrir fólk með mismikla starfsgetu til að taka þátt í vinnumarkaði. Til viðbótar verður lögð meiri áhersla á endurhæfingu til að auka möguleika fólks að snúa aftur til virkni. Í áætluninni hækkar framlag um 4,3 ma.kr. ári 2026 vegna fjölgunar einstaklinga í endurhæfingu og síðar á að minnka framlagið í 3 ma.kr. á árinu 2028. Að mati ÖBÍ skýtur það skökku við að draga eigi úr framlögum til endurhæfingar á sama tíma og auka á áherslu á starfsendurhæfingu.
4.2. Atvinnuleysi
Í fjármálaáætluninni er boðað að stytta tímabil sem fólk fær greiddar atvinnuleysisbætur og er rökstuðningur fyrir því að því lengur sem einstaklingur er fjarverandi af vinnumarkaði, því ólíklegra er að viðkomandi snúi til baka á vinnumarkað. ÖBÍ leggur áherslu á við styttingu atvinnuleysistímabils, verði gripið til aðgerða til að fjölga úrræðum sem aðstoðar fólk til að snúa aftur á vinnumarkaðinn. Framlög til málasviðsins munu lækka vegna breytinga á atvinnuleysistímabilinu sem og spá um minna atvinnuleysi. ÖBÍ telur að ekki fari saman að lækka framlag til málefnasviðsins vegna spár um minna atvinnuleysi sem er ekki í samræmi við Þjóðhagsspá, en þar er spáð að atvinnuleysi verði svipað í dag, út tímabilið eða um 4%.
» ÖBÍ leggur til fjölgun úrræða sem aðstoðar fólk til að snúa aftur á vinnumarkaðinn.
5. Húsnæðis- og skipulagsmál
5.1. Stofnframlögum til óhagnaðardrifinna leigufélaga ekki framlengt
Meginmarkmið húsnæðis- og skipulagsmála er að tryggja öllum öruggt og gott húsnæði í blandaðri byggð og að húsnæðiskostnaður þeirra sé viðráðanlegur. Að mati ÖBÍ skýtur það því skökku við að framlengja ekki tímabundinni aukningu á stofnframlögum og að heildarútgjöld til málaflokksins dragist saman um 25% á tímabilinu. Með því að draga úr stofnframlögum mun það, að mati ÖBÍ, draga úr vonum fólks um að búa við húsnæðisöryggi, sérstaklega hjá þeim sem efnaminni eru, fatlaðs fólks og einstaklingum með veika félagslega stöðu.
5.2. Aðgengis- og aðlögunarsjóður
ÖBÍ fagnar áformum ríkisstjórnarinnar um að stofnaður verði aðgengis- og aðlögunarsjóður til að styrkja fatlað fólk til breytinga á húsnæði. Íbúðarhúsnæði, sérstaklega eldra húsnæði, er að stærstum hluta óaðgengilegt fötluðu fólki. Því hefur fólk oftar en ekki lent í miklum erfiðleikum þegar hreyfigeta þess minnkar vegna slysa, sjúkdóma eða öldrunar. ÖBÍ réttindasamtök hafa um árabil talað fyrir því að einstaklingum bjóðist hagstæð lán og styrkir til að bæta aðgengi að heimilum sínum eins í nágrannalöndum okkar.
» ÖBÍ leggur til að ríkið framlengi tímabundnar hækkanir stofnframlaga út árið 2030.
» ÖBÍ hvetur til stofnunar aðgengis- og aðlögunarsjóðs fyrir fatlað fólk.
6. NPA samningar
Í 9. tl. stefnuyfirlýsingar ríkisstjórnarinnar segir að fjármagna eigi þann fjölda samninga um notendastýrða persónulega aðstoð (NPA) sem gefin hafa verið fyrirheit um. Í áætluninni er þó hvergi getið um NPA samninga. Ekki fæst séð í töflum málefnasviðsins hvort gert sé ráð fyrir því fjármagni sem þarf til að svara þörf fyrir NPA samninga.
» ÖBÍ leggur áherslu á að tryggt verði fjármagn til NPA samninga í samræmi við þörf og unnið verði að verulegri styttingu biðlista.
7. Önnur mál
Varðandi hagskýrslugerð og grunnskrár, þá hvetur ÖBÍ til þess að Hagstofu Íslands verði áfram gert kleift að standa að útgáfu á tölfræði um fatlað fólk sem hafin var í janúar 2023. Í 31. gr. SRFF kemur fram að aðildarríkin skuldbinda sig til að safna viðeigandi upplýsingum, meðal annars tölfræðilegum gögnum og rannsóknargögnum, sem gera þeim kleift að móta og framfylgja stefnum til framkvæmdar samningnum.
Í umsögn ÖBÍ um fjármálaáætlun síðustu ríkisstjórnar lýsti ÖBÍ sig mótfallin áformum um lokuð búsetuúrræði fyrir fólk sem hefur fengið synjun á umsóknum sínum um alþjóðlega vernd. Í þeirri áætlun sem nú er til umsagnar eru nefnd áform um að koma á fót greiningarmiðstöð og búsetuúrræði í grennd við flugvöll fyrir einstaklinga sem dvelja ólöglega í landinu og neita samvinnu við stjórnvöld. Sé um samskonar lokuð búsetuúrræði og fyrri ríkisstjórn hafði áformað um leggst ÖBÍ sem fyrr gegn þeim.
Ekkert um okkur án okkar!
Alma Ýr Ingólfsdóttir
formaður ÖBÍ réttindasamtaka
Andrea Valgeirsdóttir
lögfræðingur ÖBÍ réttindasamtökum
Gunnar Alexander Ólafsson
hagfræðingur ÖBÍ réttindasamtökum
Kjartan Þór Ingason
verkefnastjóri ÖBÍ réttindasamtökum
Rósa María Hjörvar
stafrænn verkefnastjóri ÖBÍ réttindasamtökum
Sigríður Hanna Ingólfsdóttir
félagsráðgjafi ÖBÍ réttindasamtökum
Sigurður Árnason
lögfræðingur ÖBÍ réttindasamtökum
Stefán Vilbergsson
verkefnastjóri ÖBÍ réttindasamtökum
Fjármálaáætlun fyrir árin 2026–2030
264. mál, þingsályktunartillaga.
Umsögn ÖBÍ, 23. apríl 2025