Skip to main content

Fjárlög 2025

Umsögn ÖBÍ réttindasamtaka um frumvarp um fjárlög 2025

Í umsögn þessari kynna ÖBÍ réttindasamtök (ÖBÍ) helstu áherslumál sín og tillögur í tengslum við frumvarp ríkisstjórnarinnar til fjárlaga 2025.

ÖBÍ leggur áherslu á fimm atriði í umsögn sinni; kjaramál, húsnæðismál, heilbrigðismál- og skipulagsmál, vinnumarkaðsmál og NPA samninga.

1 Kjaramál

1.1 Um boðaða 4,3% hækkun lífeyris almannatrygginga

Í frumvarpi til fjárlaga er lagt til að lífeyrir almannatrygginga hækki um 4,3% (3,9% vegna hækkunar á vísitölu neysluverðs og 0,4% vegna verðhækkana árið 2024).

Í ár hefur verðbólgan verið 0,4% hærri en gert var ráð fyrir í fjárlögum 2024. Til að bæta lífeyristökum skerðingu vegna hærri verðbólgu á árinu 2024 verður lífeyrir næsta árs hækkaður til viðbótar um 0,4%. Lífeyrir örorkulífeyristaka (án heimilisuppbótar) hækkar skv. frumvarpinu úr 335.125 kr. í 349.539 kr. 1. janúar 2025 og lífeyrir með heimilisuppbót hækkar úr 421.380 kr. í 439.499 kr. Hækkunin er því einungis á bilinu tæplega 15 til 20 þúsund kr. á mánuði fyrir skatt, sem verður að teljast lítið á lágar tekjur til fólks sem almennt er fjárhagslega verst statt í samfélaginu.

1.2 Frestun á gildistöku nýs örorkulífeyris

Vegna frestunar á gildistöku nýs örorkulífeyriskerfis frá 1. janúar 2025 til 1. september 2025  „sparast“ um 9,3 milljarðar sem er kallað aðhald í frumvarpinu.

Það er mjög  mikilvægt að umræddu fjármagni verði varið til að leiðrétta kjör fatlaðs fólks frá og með næstu áramótum og um leið hætta sparnaðaraðgerðum á kostnað fjárhagslega verst setta hóps samfélagsins. » Ályktun frá kjarahópi ÖBÍ – ÖBI (obi.is)

Fjöldi endurhæfingar- og örorkulífeyristaka er um 23.300 og ef þeirri upphæð sem á að „spara“ yrði veitt til lífeyristaka yrði meðalgreiðsla til hvers og eins frá áramótum til loka ágúst um 49.800 kr. á mánuði brúttó.

1.3 Frítekjumörk taki árlegum hækkunum samhliða og í samræmi við hækkanir fjárhæða almannatrygginga

Frítekjumörk vegna lífeyrissjóðs- og fjármagnstekna hafa verið óbreytt frá árinu 2009 og frítekjumörk atvinnutekna hafa verið óbreytt frá ársbyrjun 2022. Sú staðreynd að frítekjumörk hafi ekki fylgt verðlagi og launaþróun er til þess fallin að letja öryrkja við að afla sér frekari tekna.

Lagt er til að eftirtalin frítekjumörk verði uppfærð*:

» Frítekjumark vegna fjármagnstekna verði 214.464 kr. í stað 109.680 kr.

» Frítekjumark vegna lífeyrissjóðstekna verði 713.516 kr. í stað 328.800 kr.

» Frítekjumark vegna atvinnutekna verði 2.834.745 kr í stað 2.400.000 kr.


*Við innleiðingu núverandi ákvæðis í lög um almannatryggingar um hækkun lífeyris var gert ráð fyrir að fjárhæðir frítekjumarka verði samhliða bótafjárhæð ákveðnar árlega í samræmi við fjárlög hverju sinni. Því hefur ekki verið fylgt. Lagt er til uppfærsla frítekjumarka frá janúar 2009 í samræmi við ofangreint.

2 Húsnæðis- og skipulagsmál

2.1 Uppbygging húsnæðis og rammasamningur ríkis og sveitarfélaga

ÖBÍ leggur til að rammasamningur ríkis og sveitarfélaga verði endurskoðaður og að ríkið beiti sér markvisst fyrir uppbyggingu 3.500 íbúða til viðbótar við núverandi áform í samræmi við viðvaranir HMS.

» Forsendur rammasamningsins um uppbyggingu 35.000 íbúða á næstu 10 árum eru brostnar.

» HMS áætlar að 1.406 íbúðir sem eru nú í byggingu komi inn á markað árið 2026, sem aðeins myndi duga til að sinna um 29% af væntri íbúðaþörf á því ári.

» Stjórnvöld beggja stjórnsýslustiga þurfa að endurmeta markmið og aðgerðir rammasamningsins í samræmi við stöðu byggingamarkaðarins í dag.

2.2 Hlutdeildarlán, lánshæfismat og styrkur til að breyta húsnæði

ÖBÍ leggur til að rammasamningur ríkis og sveitarfélaga verði endurskoðaður og að ríkið beiti sér markvisst fyrir uppbyggingu 3.500 íbúða til viðbótar við núverandi áform í samræmi við viðvaranir HMS.

» Forsendur rammasamningsins um uppbyggingu 35.000 íbúða á næstu 10 árum eru brostnar.

» HMS áætlar að 1.406 íbúðir sem eru nú í byggingu komi inn á markað árið 2026, sem aðeins myndi duga til að sinna um 29% af væntri íbúðaþörf á því ári.

» Stjórnvöld beggja stjórnsýslustiga þurfa að endurmeta markmið og aðgerðir rammasamningsins í samræmi við stöðu byggingamarkaðarins í dag.

2.3 Félagsleg leiguhúsnæði sveitarfélaga og óhagnaðardrifin leigufélög

ÖBÍ leggur til að lækka stimpilgjöld óhagnaðardrifinna leigufélaga niður í 0,8% líkt og einstaklingar greiða í dag.  Einnig leggur ÖBÍ til að hækka endurgreiðslur virðisaukaskatts til óhagnaðardrifinna leigufélaga úr 35% í 100% vegna viðhaldskostnaðar og vinnu á verkstað.

» Meðal leiguverð félagslegra íbúða sveitarfélaga er um 23% dýrari en leiga óhagnaðardrifinna leigufélaga og 32% dýrari en hjá Brynju leigufélagi.

» Óhagnaðardrifin leigufélög gegna mikilvægu samfélagslegu hlutverki við að stuðla að því að húsnæðiskostnaður lágtekjufólks sé ekki umfram greiðslugetu.

»  Ef áætlaður viðhaldskostnaður er u.þ.b. 30% af leigutekjum og lagt til grundvallar að vinna verktaka sé u.þ.b. 20% myndi hækkun á endurgreiðslu virðisaukaskatts í 100% veita svigrúm til að viðhalda lágu leiguverði og jafnvel lækka leiguverð samhliða batnandi vaxtaumhverfi.

2.4 Almenningssamgöngur

ÖBÍ leggur til að styrkir til kaupa hópferðabifreiðar sem ganga fyrir hreinorku verði skilyrtir þannig að bifreiðarnar séu aðgengilegar öllum almenningi.

Áform eru um að efla umhverfisvænar almenningssamgöngur í samræmi við aðgerðaráætlun í loftlagsmálum. Í henni verða styrkir veittir úr orkusjóði fyrir kaupum á hópferðabifreiðum sem ganga fyrir hreinorku. Við núverandi aðstæður eru hópferðabifreiðar óraunhæfur kostur, þar sem þær eru óaðgengilegar fötluðu fólki. Samkvæmt lögum er fötluðu  fólki tryggð tiltekin réttindi sem byggja m.a. á að fatlað fólk hafi sambærilega möguleika og ófatlað fólk á að nota hópbifreiðar og því er löngu orðið tímabært að fötluðu  fólki verði tryggð þessi réttindi í framkvæmd.

2.5 Annað

ÖBÍ tekur heilshugar undir umsögn UngÖBÍ við fjárlagafrumvarpið, 1.október 2024  (obi.is) þar sem lögð er áhersla á betra aðgengi.

3 Heilbrigðismál

3.1 Biðlistar barna eftir þjónustu

Lagt er til að fjárframlög til Ráðgjafa- og greiningarstöðvarinnar (RGR) verði aukin til að stytta biðtíma barna eftir greiningum.

» Fjárframlög samkvæmt frumvarpi til fjárlaga 2025 til RGR er raunlækkun frá síðustu fjárlögum (-2,7 milljónir) ef tekið er mið af verðlagsþróun í landinu.

» Í ágúst 2024 biðu 626 börn eftir greiningu hjá RGR. Þar af voru 553 börn sem höfðu beðið lengur en þrjá mánuði. Þessi biðtími hefur aukist frá árinu 2023.

» Það er skoðun ÖBÍ að ekki verði hægt að stytta biðlista barna eftir þjónustu RGR ef fjárframlög til stofnunarinnar eru lækkuð á milli ára.

ÖBÍ leggur til að fjárframlög til Geðheilsumiðstöðvar barna verði aukin til að eyða biðlistum barna eftir þjónustu

» Hjá Geðheilsumiðstöð barna biðu 2020 börn eftir greiningu í ágúst 2024 sem er 21% aukning frá árinu áður. Þar af voru 1727 börn sem höfðu beðið lengur en þrjá mánuði. Af þeim voru 615 börn sem biðu eftir einhverfugreiningu (voru 416 árið 2023, aukning um 47%) og var meðalbiðtími eftir slíkri greiningu 34 mánuðir.

Langir biðlistar lita öll svið heilbrigðisþjónustu í dag og það er mikilvægt að stjórnvöld auki fjárheimildir til að vinna niður biðlista eftir greiningum og annarri heilbrigðisþjónustu og að komið verði á fót heildrænu kerfi sem tryggi samfellda þjónustu við notendur á réttu þjónustustigi hverju sinni.

» Rafrænir miðlægir biðlistar munu leiða til styttingar þeirra og auka réttindi einstaklinga. Það er grundvallar réttur einstaklings að fá upplýsingar um eigin meðferð og bið eftir meðferð.

» Miðlægir biðlistar munu veita betri yfirsýn um biðtíma og tryggja samfellda og samþætta þjónustu.

» Miðlægir biðlistar ættu að fela í sér betri tækifæri til samvinnu og samþættingar þjónustu, bæði milli þjónustustiga og þvert á heilbrigðis- og félagskerfi.

ÖBÍ vekur athygli á því að fjárframlög til Þjónustu- og þekkingamiðstöðvar (Þ&Þ) og til Heyrna- og talmeinastöðvar (H&T) eru lækkuð að raungildi í fjárlagafrumvarpinu. Í tilfelli Þ&Þ er lækkunin 45,7 m.kr. sem er um 10% lækkun framlags og í tilfelli H&T nemur lækkunin 2,1 m.kr. sem er um 0,004% raunlækkun. Báðar þessar stofnanir þjóna viðkvæmum hópum og því er ljóst að þessar stofnanir munu ekki hafa tök á að mæta kröfu um þjónustu á næsta ári með sama hætti og þær hafa gert hingað til.

3.2 Annað

ÖBÍ lýsir yfir mikilli óánægju með ógagnsæi fjármálafrumvarpsins. Við lestur þess er hvergi að finna greinargóðar upplýsingar um þróun niðurgreiðslna ríkisins á greiðsluþátttöku almennings vegna heilbrigðisþjónustu og lyfja. Af þeim sökum er ekki hægt að leggja mat á hvort greiðsluþátttaka almennings í heilbrigðisþjónustu fer vaxandi eða minnkandi. ÖBÍ gerir kröfu um að bætt verði úr þessum upplýsingaskorti um kostnað almennings vegna heilbrigðisþjónustu. Það sem sagt er um greiðsluþátttöku í heilbrigðisþjónustunni er eftirfarandi:

1. Framlag til frekari lækkunar á greiðsluþátttöku sjúkratryggðra verður að fresta, en óljós er hve hátt þetta framlag átti að vera (bls. 139 í fjárlagafrumvarpinu).

2. Millifærðar eru 885 m.kr. af fjárheimild málaflokksins um heilsugæsluna vegna aukinnar greiðsluþátttöku í heilbrigðiskerfinu sem dreifist á aðra málaflokka (bls. 302 í fjárlagafrumvarpinu).

3. Framlög eru hækkuð um 575 m.kr. til að lækka greiðsluþátttöku í tannlækningum sjúkratrygginga (bls. 303 í fjármálafrumvarpi).

4. Framlög hækka um 90 m.kr. til að lækka greiðsluþátttöku vegna brottnáms brjóstapúða af læknisfræðilegum ástæðum (bls. 303 í fjármálafrumvarpi).

Samtals eru ofangreindir liðir um 1.550 m.kr., þar af er 885 m.kr. millifærsla og því er raunaukning fjármuna um 665 m.kr. Það er ómögulegt að sjá hvort um raunaukningu á fé til niðurgreiðslu greiðsluþátttöku sé að ræða við lestur fjárlagafrumvarpsins. Að mati ÖBÍ verður að gera ríkari kröfur um framsetningu á fumvarpi til fjárlaga ríkisins.

ÖBÍ tekur heilshugar undir umsögn UngÖBÍvið fjárlagafrumvarpið, 1.október 2024  (obi.is) þar sem lögð er áhersla á betra aðgengi.

4 Vinnumarkaðsmál

Í september á næsta ári mun örorkulífeyriskerfið breytast og hluti lífeyrisþega munu fara á svokallaðan hlutaörorkulífeyri samhliða atvinnuþátttöku. Í frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2025 er gert ráð fyrir töluverðri hækkun til Vinnumálastofnunar, sem verður m.a. falið að vinna að aukinni atvinnuþátttöku fatlaðs fólks. Á móti má benda á að framlög til starfsendurhæfingasjóða og til starfsendurhæfingar verða lækkuð á milli ára. Framlag til starfsendurhæfingasjóða lækkar um 600 m.kr. að raungildi og til starfsendurhæfingar nemur lækkunin um 19 m.kr. að raungildi.

ÖBÍ lýsir yfir miklum áhyggjum af lækkun fjárframlaga til starfsendurhæfingar þar sem hún er til þess fallin að draga úr mætti þessara aðila að efla fólk í endurhæfingu og snúa aftur á vinnumarkað.

5 NPA samningar

Í fjárlagafrumvarpinu kemur fram að framlag ríkisins vegna NPA-samninga verði flutt frá félags- og vinnumarkaðsráðuneyti til Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga. ÖBÍ lýsir yfir áhyggjum af þekkingaleysi innan Jöfnunarsjóðs til að takast á við þetta verkefni.

Framlag ríkisins til NPA samninga verður 1,3 ma.kr. á næsta ári. Í ljósi þess að meðalkostnaður NPA-samnings er 47,9 m.kr., dugar framlag ríkisins fyrir 109 samningum. Það skýtur skökku við, því í gildi eru 128 NPA-samningar og ætti því framlag ríkisins að vera 1,52 ma.kr. á næsta ári en ekki 1,3 ma.kr. Verði ekki breyting á framlagi ríkisins vegna NPA-samninga á næsta ári, munu sveitarfélögin þurfa að takast á við aukinn kostnað umfram samninga við ríkið til að viðhalda þeim fjölda NPA-samninga sem í gildi eru. Í samkomulagi ríkis og sveitarfélaga um NPA-samninga var markmið þess að fjölga NPA-samningum í 172 talsins. Ljóst er að m.v. framlag ríkisins til málaflokksins erum við enn lengra frá markmiði um fjölda NPA-samninga.

6 Lokaorð

ÖBÍ réttindasamtök eru sem endranær reiðubúið að fylgja eftir umsögn sinni og óskar eftir að eiga samtal og samvinnu við stjórnvöld og aðra hagaðila um frekari úrvinnslu frumvarpsins. Þá áskilja samtökin sér rétt til að koma á framfæri frekari athugasemdum á seinni stigum.

Ekkert um okkur án okkar!  

Alma Ýr Ingólfsdóttir
Formaður ÖBÍ réttindasamtaka

Gunnar Alexander Ólafsson
Hagfræðingur ÖBÍ réttindasamtökum

Kjartan Þór Ingason
Verkefnastjóri ÖBÍ réttindasamtökum

Rósa María Hjörvar
Verkefnastjóri ÖBÍ réttindasamtökum

Sigríður Hanna Ingólfsdóttir
Félagsráðgjafi ÖBÍ réttindasamtökum

Sigurður Árnason
Lögfræðingur ÖBÍ réttindasamtökum

Stefán Vilbergsson
Verkefnastjóri ÖBÍ réttindasamtökum


Fjárlög 2025
1. mál, lagafrumvarp
Umsögn ÖBÍ, 3. október 2024