Umsögn ÖBÍ réttindasamtaka um frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2024, 1. mál.
ÖBÍ réttindasamtök leggja áherslu á þrennt í umsögn sinni; Kjaramál, húsnæðismál og heilbrigðismál. Gerð er grein fyrir áherslum í öðrum flokkum í sérstakri greinargerð.
Þá bendir bandalagið á að gera þarf ráð fyrir fjármagni til reksturs og stofnunar nýrrar Mannréttindastofnunar sem áætlað er að taki til starfa um áramótin. Eins gerir fjárlagafrumvarp þetta ekki ráð fyrir fjármagni til lögfestingu SRFF sem þó er afar mikilvægt fyrir innleiðingu og lögfestingu samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.
Kjaramál – örorkulífeyrir
Tillögurnar eru þrjár og eru eftirfarandi:
1. Að örorkulífeyrir hækki um 12,4%
Lagt er til að örorkulífeyrir verði hækkaður um 12,4% þann 1. janúar 2024 í stað 4,9% eins og áætlað er í frumvarpi til fjárlaga. Sú hækkun ætti að stemma stigu við hækkun matar og drykkjar sem er skv. Hagstofu Íslands um 35% af ráðstöfunartekjum tekjulægstu hópa samfélagsins.
- Óskertur örorkulífeyrir án heimilisuppbótar til einstaklings sem fékk örorkumat 40 ára er 331.387 kr.
- Atvinnuleysisbætur eru 331.298 kr. á mánuði
- Lágmarkslaun árið 2023 – 425.000 kr.
- Óskertur örorkulífeyrir er enn tugþúsundum lægri en lágmarkslaun í landinu.
Um boðaða 4,9% hækkun lífeyris almannatrygginga
Í frumvarpinu er gert ráð fyrir 4,9% hækkun lífeyris almannatrygginga sem sé í samræmi við verðbólguspá Hagstofunnar frá því í júní sl. um hækkun verðlags á næsta ári. Hér er því hvorki litið til þróunar verðbólgu þessa árs né launaþróunar.
Ein af forsendum fjárlaga ársins 2023 var spá um 5,6 % verðbólgu á milli áranna 2022 og 2023, en sú spá gekk ekki eftir. „Í þjóðhagsspá Hagstofunnar, sem kom út í júní, er hins vegar gert ráð fyrir að hækkun á vísitölunni á milli áranna 2022 og 2023 verði 8,7%.
Á öðrum stað í frumvarpinu er byggt á því að Þjóðhagsspá geri ráð fyrir 7,4% verðbólgu í lok árs og því áætlað að persónuafsláttur og þrepamörk hækki um 8,5% árið 2024. Sama hvor spáin er tekin þá verður hún að teljast vanáætluð og allar líkur á að verðbólga ársins verði hærri en spáin sem ákvörðun um hækkun lífeyris almannatrygginga byggir á. Tekjulægri verja mun hærra hlutfalli ráðstöfunartekna sinna í nauðsynjavörur eins og matvörur en hinir tekjuhærri. Matvæli og drykkir hafa hækkað um 12,4% undanfarna 12 mánuði og eru þessar hækkanir mjög íþyngjandi fyrir fjölda örorkulífeyristaka sem eru í hópi lágtekjufólks.
Ákvörðun um hækkun lífeyris almannatrygginga skal skv. 62.gr. laga um almannatrygginga taka mið af launaþróun, þó þannig að þær hækki aldrei minna en verðlag samkvæmt vísitölu neysluverðs. Því er ekki nóg að líta einungis til vísitölu neysluverðs, verðlagsþróun ræður ef verðlag hækkar meira en laun. Fram kemur í frumvarpinu að laun hafa hækkað meira en verðlag undanfarið ár og kaupmáttur launa hefur aukist á ný. Á sama tíma er horft fram hjá því að lögin gera ráð fyrir að horft verði til launaþróunar við ákvörðun um hækkun lífeyris almannatrygginga. Rökin fyrir þeirri ákvörðun skv. frumvarpinu eru að „í ljósi þess að ekki liggur fyrir spá um meðalprósentuhækkanir í kjarasamningum á vinnumarkaði á næsta ári sé miðað við áðurnefnda verðbólguspá Hagstofunnar.“ Lífeyri almannatrygginga árið 2023 hækkaði ekki í samræmi við kjarasamninga síðasta árs. Það sama á við um árin á undan. Hvers vegna er ekki horft til þróun launavísitölu, sem mælir almenna launaþróun?
2. Að frítekjumörk taki árlegum hækkunum samhliða og í samræmi við hækkanir fjárhæða almannatrygginga
Frítekjumörk vegna lífeyrissjóðs- og fjármagnstekna hafa verið óbreytt frá árinu 2009.
Sú staðreynd að frítekjumörk hafi ekki fylgt verðlagi og launaþróun er til þess fallin að letja öryrkja við að afla sér frekari tekna enda minnkar ávinningurinn með hverju ári sem fjárhæðirnar eru ekki uppfærðar.
Uppfærð frítekjumörk:
- Frítekjumark vegna fjármagnstekna ætti að vera 203.091 kr. í stað 109.680 kr.
- Frítekjumark vegna lífeyrissjóðstekna ætti að vera 676.678 kr. í stað 328.800 kr.
- Frítekjumark vegna atvinnutekna ætti að vera 2.684.418 kr. – var hækkað í 2.400.000 kr. (bráðabirgðaákvæði) í byrjun árs 2023.
Í greinargerð með frumvarpi sem varð að lögum nr. 130/1997 og innihélt meðal annars ákvæði um árlega breytingu lífeyris almannatrygginga er ljóst að vilji löggjafans var að fjárhæðir frítekjumarka verði samhliða bótafjárhæð ákveðnar árlega í samræmi við fjárlög hverju sinni. Fram til ársins 2009 var framkvæmdin í samræmi við þetta og frítekjumörk hækkuð í reglugerðum sem settar voru með stoð í 62. gr. laga nr. 100/2007 (áður 69. gr. laganna). Frá þessu tímamarki hafa lög ekki breyst, aðeins framkvæmdin.
3. Að tekjuskerðingum frá fyrstu krónu verði hætt
ÖBÍ leggur til að tekin verði út tekjuskerðing frá fyrstu krónu vegna skattskyldra tekna.
Þannig yrði byggður inn raunverulegur hvati til atvinnuþátttöku sem bæti kjör þeirra sem hafa litlar aðrar tekjur en greiðslur almannatrygginga.
Húsnæðis- og skipulagsmál
Tillögurnar eru þrjár og eru eftirfarandi:
1. Hlutdeildarlán og styrkur til að breyta húsnæði
ÖBÍ leggur til að stofnaður verði sjóður undir HMS sem veiti fötluðu fólki styrk til að breyta húsnæði sínu vegna fötlunar. Jafnframt að komið verði á stofn sérsniðnum lánaflokki fyrir fólk með lágar tekjur.
- Fatlað fólk er mun ólíklegra til að eiga eigið húsnæði en ófatlaðir einstaklingar.
- Núverandi hlutdeildarlán virka ekki fyrir fatlað fólk. Þörf á lánaflokki þar sem lánstími væri lengri og hlutdeild ríkisins meiri en er í núverandi hlutdeildarlánum.
- Jákvæð reynsla Husbanken í Noregi af styrkveitingu til fatlaðs fólks til breytinga á húsnæði í samræmi við greiðslugetu.
- Í Noregi getur sveitarfélagið/þjónustusvæði veitt styrk sem getur staðið undir kostnaði við rannsókn og skipulagningu ýmissa aðgerða. Þetta þýðir að fatlað fólk getur fengið aðstoð frá fagfólki eins og iðjuþjálfa, arkitekt, verkfræðingi, iðnaðarmanni til að greina þarfir og aðstæður og veita ráðgjöf um framkvæmd og kostnað.
2. Húsnæðisbætur
ÖBÍ leggur til að stjórnvöld falli frá tillögu sinni um lækkun fjárheimilda húsnæðisbóta um 500 miljónir og hækki eignaviðmið um 28%. ÖBÍ leggur einnig til að húsnæðisbætur og tekjumörk þeirra tengist vísitölu neysluverðs.
- Eignaviðmið húsnæðisbóta hafa ekki hækkað síðan 2020. Samkvæmt verðlagsreiknivél Hagstofu Íslands hefur verðlag hækkað um 27,7% á tímabilinu frá 1. janúar 2020 til 1. september 2023.
- Eignaviðmið verða að vera í takt við snarpa verðlagsþróun seinustu tveggja ára.
- Dæmi um að kostnaðarsöm hjálpartæki fatlaðs fólks, svo sem bifreiðar, eru reiknuð með öðrum eignum.
3. Stofnframlög og leigumarkaður
ÖBÍ telur fyrirhugaðar aukningu stofnframlaga um 5,7 milljarðar gott skref í rétta átt. ÖBÍ leggur til að aukið verði við fyrirhugaða aukningu stofnframlaga úr 5,7 milljörðum í 6 milljarða kr.
- 57,3% þinglýstra leigusamninga er leiga á vegum einstaklinga samkvæmt leigumarkaðskönnun HMS.
- Hátt verðlag á húsnæðismarkaði og lágt hlutfall leiguíbúða á vegum sveitarfélaga og óhagnaðardrifinna leigufélaga stuðlar að húsnæðisóöryggi viðkvæmra hópa.
- Meirihluti leigusamninga í öðrum OECD ríkjum er á vegum hins opinbera, almennra leigufélaga og óhagnaðardrifinna leigufélaga, sem er mun heilbrigðari formgerð leigumarkaðar.
- Brýnt er að stjórnvöld snúi þessari þróun við og tryggi húsnæðisöryggi viðkvæmra hópa.
Heilbrigðismál
Tillögurnar eru þrjár og eru eftirfarandi:
1. Biðlistar
Lagt er til að stjórnvöld auki fjárheimildir til að vinna niður biðlista eftir greiningum og annarri heilbrigðisþjónustu og að komið verði á fót heildrænu kerfi sem tryggi samfellda þjónustu við notendur á réttu þjónustustigi hverju sinni.
- Rafrænir miðlægir biðlistar munu leiða til styttingu þeirra.
- Miðlægir biðlistar munu veita betri yfirsýn um biðtíma og tryggja samfellda og samþætta þjónustu.
- Miðlægir biðlistar munu auðvelda samvinnu og samhæfingu þjónustuveitenda, bæði milli þjónustustiga og þvert á heilbrigðis- og félagskerfi.
- Tryggja þarf aðgengi fólks að heilbrigðisþjónustu við hæfi samkvæmt skilgreindum viðmiðum um biðtíma.
2. Sjúkratryggingar Íslands (SÍ)
Lagt er til að SÍ fái nægar fjárheimildir til að semja við sálfræðinga og sjúkraþjálfara
Mikilvægt er að unnið sé að því að auðvelda og jafna aðgengi fólks að heilbrigðisþjónustu, m.a. með því að ljúka samningum við sálfræðinga og sjúkraþjálfara.
Í frumvarpinu kemur fram í kafla 24.2 að unnið verði að því að ná samningum við sjúkraþjálfara og að efla eigi ríkið sem kaupanda að heilbrigðisþjónustu til að ná lykilsamningum um kaup á heilbrigðisþjónustu. Þrátt fyrir þessa yfirlýsingu er hvergi minnst á að unnið verði að því að ná samningum við sálfræðinga. Án samninga við sálfræðinga mun aðgengi að geðþjónustu á Íslandi halda áfram að vera skert vegna kostnaðar sem gerir hana illa aðgengilega efnaminna fólki.
Fulltrúar sálfræðinga hafa bent á að vegna mikils kostnaðar geti fólk ekki alltaf nýtt sér bestu mögulegu meðferð. Það þurfi t.d. að láta lengri tími líða milli viðtala en æskilegt er til að dreifa kostnaði. Þá geti einhverjir ekki lokið meðferð vegna kostnaðar.
3. Hjálpartæki
Lagt er til að fjárframlög vegna hjálpartækja verði aukin og tryggð.
Mikilvægt er að hjálpartækjahugtakið verði endurskilgreint svo að fatlað fólk eigi rétt á hjálpartæki til afþreyingar og frístunda en ekki einungis ef það er talið því nauðsynlegt, samanber ákvæði í núverandi löggjöf sem dregur úr þeim réttindum sem fötluðu fólki eru tryggð í stjórnarskrá, lögum og alþjóðasamningum.
Hjálpartæki er tæki sem ætlað er að draga úr fötlun, aðstoða fólk við að takast á við umhverfi sitt, auka eða viðhalda færni og sjálfsbjargargetu eða auðvelda umönnun.
Brýnt er að fatlað fólk eigi kost á þjónustu sem miðar að því að það fái nauðsynlegan stuðning til þess að geta notið fullra mannréttinda til jafns við aðra og skapa því skilyrði til sjálfstæðs lífs á eigin forsendum.
Biðlistar barna eftir þjónustu
Tillögurnar eru tvær og eru eftirfarandi:
1. Ráðgjafa- og greiningarstöðin
Lagt er til að fjárfamlög til Ráðgjafar- og greiningastöðvarinnar verði aukin til að stytta biðtíma barna eftir greiningum.
• Fjárframlög samkvæmt frumvarpi til fjárlaga 2024 til Ráðgjafar- og greiningarmiðstöðvarinnar er raunlækkun frá fjárlögum 2023 ef tekið er mið af verðlagsþróun í landinu.
• Í ágúst 2023 biðu 522 börn eftir greiningu hjá Ráðgjafa- og greiningarstöðinni. Þar af voru 434 börn sem höfðu beðið lengur en þrjá mánuði.
• Það er sérstaklega brýnt að börn fái þá þjónustu sem þau þurfa þegar um er að ræða börn sem þurfa á sérhæfðu inngripi að halda. Staðan á biðlistum eftir greiningum barna er óásættanleg. Forsenda þess að hægt sé að vera með snemmtæka íhlutun, sem ríkisvaldið hefur lagt mikla áherslu á er að eyða biðlistum barna eftir þjónustu.
2. Geðheilsumiðstöð barna
Lagt er til að aukin fjárframlög til heilsugæslunnar verði varið í að eyða biðlistum barna eftir þjónustu
• Hjá Geðheilsumiðstöð barna biðu 1662 börn eftir greiningu í ágúst 2023. Þar af voru 1623 börn sem höfðu beðið lengur en þrjá mánuði. Af þeim voru 416 börn sem biðu eftir einhverfugreiningu og var meðalbiðtími eftir slíkri greiningu 26-28 mánuðir.
• Mikilvægt er að sú aukning sem er á fjárframlögum til heilsugæslunnar almennt verði varið í að eyða biðlistum barna eftir þjónustu eða að minnsta kosti þeir styttir verulega.
Inngildur vinnumarkaður
Tillagan er eftirfarandi:
Áfallatryggingasjóður
Lagt er til að stofnaður verði áfallatryggingasjóður og hann fjármagnaður, til að auðvelda vinnuveitendum að uppfylla viðeigandi aðlögun á vinnustað
• Hafa þarf í huga að inngildingu getur fylgt kostnaður vegna viðeigandi aðlögunar á vinnustöðum og mælir ÖBÍ með því að sett verði sérfjármagn í áfallatryggingasjóð fyrir vinnuveitendur vegna kostnaðar sem hlýst af því.
• Í frumvarpinu kemur fram að stuðla eigi að auknum fjölbreytileika og fjölga tækifærum á vinnumarkaði fyrir fólk með skerta starfsgetu. Það kemur heim og saman við áherslur stjórnarsáttmálans og stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar um fjölgun sveigjanlegra hlutastarfa.
• Ánægjulegt er að gert verði ráð fyrir aukningu fjárheimildar um 153 m.kr. fyrir efld stuðningsúrræði fyrir fólk með skerta starfsgetu í tengslum við þátttöku á vinnumarkaði.
Áætlanir vegna loftslagsbreytinga
Fatlað fólk þarf að eiga ráð á því að takast á við þær áskoranir sem fylgja loftslagsbreytingum og verður að geta tekið þátt í grænni umbreytingu. Það verður að gera ráð fyrir þörfum og þátttöku fatlaðs fólks í breyttum heimi. Fjárlög verða að gera ráð fyrir kostnaði sem fylgir því að inngilda fatlað fólk þannig að það hafi raunveruleg tækifæri til að taka þátt í grænni umbreytingu.
Fatlað fólk er sérlega viðkvæmt fyrir miklum og skyndilegum breytingum og það getur verið upp á aðra komið í ýmsum aðstæðum. Það skiptir máli hvernig við högum skipulagsmálum, hvar og hvernig við búum og hvaða möguleika við höfum til að fara milli staða.
Við þurfum að eiga góðar viðbragðsáætlanir sem gera ráð fyrir að allir komist í öruggt skjól í náttúruhamförum. Fjárheimildir þurfa að vera nægilegar til þess að tryggja öryggi þeirra sem eru veikir, rúmfastir og ósjálfbjarga.
Ekkert um okkur án okkar!
Með vinsemd og virðingu,
Þuríður Harpa Sigurðardóttir
formaður ÖBÍ réttindasamtaka
Sigríður Hanna Ingólfsdóttir
félagsráðgjafi ÖBÍ réttindasamtaka
Bára Brynjólfsdóttir
lögfræðingur ÖBÍ réttindasamtaka
Kjartan Þór Ingason
verkefnastjóri ÖBÍ réttindasamtaka
Stefán Vilbergsson
verkefnastjóri ÖBÍ réttindasamtaka
Sunna Elvira Þorkelsdóttir
lögfræðingur ÖBÍ réttindasamtaka
Andrea Valgeirsdóttir
lögfræðingur ÖBÍ réttindasamtaka
Fjárlög 2024.
1. mál, lagafrumvarp.
Umsögn ÖBÍ, 6. október 2023