Í þessari umsögn kynna ÖBÍ réttindasamtök áherslur samtakanna og tillögur í tengslum við frumvarp til fjáraukalaga 2024.
1. Eingreiðsla til örorku- og endurhæfingalífeyrisþega
ÖBÍ fagnar því að það 1,7 ma.kr. svigrúm sem myndaðist á málefnasviði 27 verði nýtt til að fjármagna skattfrjálsra eingreiðslu til örorku- og endurhæfingarlífeyristaka. Eingreiðslur til þessa hópa hafa verið framkvæmdar í tengslum við fjárlög í desember síðustu sex ár. Fjárhæð eingreiðslunnar nemur 70.364 kr. á árinu 2024.
2. NPA samningar
Í fjárlögum fyrir árið 2024 var framlag ríkisins vegna NPA-samninga 1.258.000.000 sem miðast við 25% framlag þess vegna NPA-samninga. Árið 2024 hafa verið 128 NPA samningar í gildi og er meðalkostnaður hvers NPA-samnings 47,9 m.kr.
Í ljósi þess hver meðalkostnaður NPA-samnings er má áætla að raunframlag ríkisins ætti að vera 1.532.800.000 eða um 275 milljónir hærra í samræmi við hlutdeild þess. Verði ekki breyting á framlagi ríkisins á yfirstandandi ári, mun kostnaður til að viðhalda þeim fjölda NPA-samninga sem í gildi eru lenda á sveitarfélögunum. ÖBÍ minnir á að afleiðing þess að greiðslur á hluta ríkisins berast sveitarfélögum ekki eða þær dragast hafa oft verið þær að sveitarfélög veita ekki fötluðu fólki þjónustu sem þeim ber samkvæmt lögum. ÖBÍ harmar að óeiningu ríkis og sveitarfélaga um kostnaðarskiptingu sem geri það af verkum að fatlað fólk nýtur ekki þeirrar þjónustu sem það þarfnast og á lögbundinn rétt á.
Til viðbótar er bent á að í gildi er samkomulag milli ríkis og sveitarfélaga um NPA-samréttininga, þar sem markmið hans er að fjöldi NPA-samninga verði 172 talsins í árslok 2024. Markmið samningsins hefur ekki náðst, því árið 2024 eru í gildi 128 samningar sem eru 44 færri samningar en markmið samningsins segir til um. Ef ríkið ætlar að standa við skuldbindingu sína og markmið samningsins um 172 NPA samninga í árslok 2024, þyrfti framlag þess að vera 2.059.700.000 kr. eða um 800 milljónum hærri.
3. Lækkun greiðsluþátttöku
ÖBÍ fagnar því að í frumvarpinu um fjáraukalög 2024 eru aðgerðir til að lækka greiðsluþátttöku fatlaðs fólks vegna útgjalda í mennta- og heilbrigðiskerfinu. Lögð er til lægri greiðsluþátttöku fatlaðra barna sem búa á tveimur heimilum sem og lægri greiðsluþátttaka lífeyristaka í tannlækningum. Að auki er aukið fé lagt til að gera túlkun í daglegu lífi fyrir heyrnarlausa og heyrnarskerta endurgjaldslausa.
4. Brugðist við fjárhagsvanda stofnana
Í frumvarpinu eru veittar aukalega 119 m.kr. til Heyrna- og talmeinastöðvar til að bregðast við fjárhagsvanda stofnunarinnar og til að fjármagna nám heyrnarfræðinga hjá stofnuninni. Að mati ÖBÍ er þessi aukafjárveiting til stofnunarinnar viðurkenning á vanfjármögnun til hennar. Í fjárlögum fyrir árið 2024 var gert ráð fyrir því að heildarútgjöld stofnunarinnar yrðu 510 m.kr. og framlag ríkisins yrði 206 m.kr. Því nemur aukaframlagið um 57% af framlagi ríkisins og 24% af heildartekjum stofnunarinnar.
ÖBÍ benti á í umsögn sinni fyrir fjárlagafrumvarpið fyrir árið 2024 að stofnanir sem sinna fötluðu fólki væru vanfjármagnaðar. Í umsögninni kemur fram að … „Lagt er til að stjórnvöld auki fjárheimildir til að vinna niður biðlista eftir greiningum og annarri heilbrigðisþjónustu og að komið verði á fót heildrænu kerfi sem tryggi samfellda þjónustu við notendur á réttu þjónustustigi hverju sinni.“ Í umsögninni nefndi ÖBÍ sérstaklega alvarlega stöðu hjá tveim stofnunum, Ráðgjafa- og greiningastöð og Geðheilsumiðstöð barna, þar sem lagt er til að aukin fjárframlög verði veittar til þessara stofnana til að eyða biðlistum barna eftir greiningu og þjónustu.
ÖBÍ réttindasamtök eru sem endranær reiðubúið að fylgja eftir umsögn sinni og óskar eftir að eiga samtal og samvinnu við stjórnvöld og aðra hagaðila um frekari úrvinnslu frumvarpsins. Þá áskilja samtökin sér rétt til að koma á framfæri frekari athugasemdum á seinni stigum.
Virðingarfyllst,
Alma Ýr Ingólfsdóttir
formaður ÖBÍ réttindasamtaka
Sigríður Hanna Ingólfsdóttir
félagsráðgjafi ÖBÍ réttindasamtökum
Gunnar Alexander Ólafsson
hagfræðingur ÖBÍ réttindasamtökum
Sigurður Árnason
lögfræðingur ÖBÍ réttindasamtökum
Fjáraukalög 2024
297. mál, lagafrumvarp.
Umsögn ÖBÍ, 4. nóvember 2024
» Fjárlög 2025 – Umsögn ÖBÍ » Breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2025 – Umsögn ÖBÍ