Skip to main content
HúsnæðismálUmsögn

Fasteignalán til neytenda og nauðungarsala (nauðungarsala og eftirstöðvar)

By 22. nóvember 2023nóvember 30th, 2023No Comments

Umsögn ÖBÍ réttindasamtaka um frumvarp til laga um breytingu á lögum um fasteignalán til neytenda og lögum um nauðungarsölu (nauðungarsala og eftirstöðvar), þskj. 74, mál nr. 74.

ÖBÍ réttindasamtök (ÖBÍ) taka undir markmið frumvarpsins að dreifa áhættutöku fasteignalána þannig að áhættan sé ekki einhliða á hendi lántaka. Aðgengi að öruggu húsnæði og búsetu er forsenda þess að hægt sé að skapa velsældarsamfélag á Íslandi. Ákvarðun um nauðungarsölu fasteigna er íþyngjandi stjórnvaldsaðgerð sem hefur áhrif á líf fólks, sérstaklega þeirra sem eru að missa heimili sín og sjá fram á húsnæðisóöryggi. Því verða stjórnvöld að kanna aðstæður viðkomanda, tryggja að viðkomandi hafi fullan skilning á aðstæðum og að öll bjargráð hafi verið fullreynd. Mál fatlaðs manns sem missti húsnæðið sitt í Reykjanesbæ eftir nauðungaruppboð sýslumannsembættisins á Suðurnesjum er dæmi um óréttlæti innan stjórnsýslunnar. Í kjölfarið tjáði Umboðsmaður skuldara í viðtali að hægt hefði verið að koma veg fyrir þessa niðurstöðu ef stofnunin hefði vitað að málinu. ÖBÍ vill koma eftirfarandi athugasemdum á framfæri.

1.
Fötlun einstaklinga getur falið í sér að viðkomandi geri sér ekki grein fyrir umfangi skuldbindinga sinna og standa því ekki í skilum. Þá eru mörg sem hafa ekki heilsu til þess að hefja samningaviðræður við kröfuhafa og geta ekki brugðist við innheimtuaðgerðum. Samskiptaleysi opinberra stofnanna má aldrei skerða aðgengi einstaklinga að lögbundinni þjónustu. Huga þarf sérstaklega að frumkvæðisskyldu stjórnvalda í samskiptum við viðkvæmustu hópa samfélagsins og tryggja að öll úrræði hafi verið reynd til þaula.

2.
ÖBÍ leggur til að löggjafarvaldið skerpi á upplýsingarskyldu sýslumanna á þann veg að sýslumanni beri að afla sér upplýsinga um hvort neytandi hafi óskað eftir aðstoð hjá Umboðsmanni skuldara strax þegar skuldamál einstaklings berst sýslumannsembættinu. Sýslumaður skal upplýsa og leiðbeina þeim einstaklingum sem ekki hafa óskað eftir aðstoð Umboðsmanns skuldara um úrræðið.

ÖBÍ áskilur sér rétt til að koma á framfæri frekari athugasemdum á seinni stigum.

Ekkert um okkur án okkar!

Með vinsemd og virðingu,

Alma Ýr Ingólfsdóttir
formaður ÖBÍ

Kjartan Þór Ingason
verkefnastjóri ÖBÍ


Fasteignalán til neytenda og nauðungarsala (nauðungarsala og eftirstöðvar)
74. mál, lagafrumvarp.
Umsögn ÖBÍ, 22. nóvember 2023