Umsögn ÖBÍ – réttindasamtaka um breytingar á lögum um greiðsluaðlögun einstaklinga. Mál nr. 113/2023
ÖBÍ – réttindasamtök taka heilshugar undir fyrirhugaðar breytingar á lögum um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 110/2010 og eru sammála því sjónarmiði að aðstoð til einstaklinga í fjárhagserfiðleikum sé mikilvægt velferðar- og lýðheilsumál. Margt hefur lærst á þeim 13 árum sem liðin eru síðan lögin tóku gildi og ákveðin atriði þarfnast breytinga líkt og fram kemur í áformum stjórnvalda um fyrirhugað frumvarp. ÖBÍ telur markmið frumvarpsdraganna jákvæða þróun en vill koma eftirfarandi áherslum á framfæri.
Fatlað fólk þarf iðulega að reiða sig á greiðslur og stuðning hins opinbera. Lífeyristakar eru í sömu stöðu og þau sem falla undir lög nr. 79/2019 þar sem þeir semja ekki um hækkanir lífeyris, hafa ekki verkfallsrétt og eru í raun upp á stjórnvöld komin hvað varðar breytingar á lífeyrisgreiðslum. Þessi hópur er því í mjög viðkvæmur fyrir fjárhagslegum áföllum. Lífeyristakar hafa ekki sömu bjargráð til að vænka hag sinn og þeir sem hafa fulla starfsgetu. Því er brýnt að stjórnvöld taki tillit til þeirrar stöðu við endurskoðun laganna. Nauðsynlegt er að gerðar verði breytingar á greiðsluaðlögunarkerfinu til hagsbóta fyrir þá skuldara sem verst standa og þurfa af illri nauðsyn að leita á náðir Umboðsmanns skuldara. Umsóknarferlið þarf að einfalda og fella þarf brott synjunarliði.
Fólk sem er jaðarsett hefur minni möguleika til samfélagsþátttöku og þar af leiðandi á lífi til jafns við aðra. Þessu til rökstuðnings vísar ÖBÍ til þess að yfir helmingur þeirra sem leita til Umboðsmanns skuldara og þiggur þar fjárhagsaðstoð til þess að greiða fyrir skiptatryggingu gjaldþrotaskipta eru örorkulífeyristakar. Þá eru sömuleiðis hátt hlutfall umsækjenda um greiðsluaðlögun örorkulífeyristakar.
ÖBÍ styður áform um að kröfur vegna ábyrgðarskuldbindinga á námslánum falli innan greiðsluaðlögunar en þess ber að geta að undanþágur frá greiðslum eða frestun greiðslna í lögum um Menntasjóð nr. 60/2020 taka ekki til ábyrgðarmanna sem glíma við fjárhagsvanda.
Brýnt er að gera úrbætur á löggjöfinni þannig að fatlaður einstaklingur sem þarf sjálfur á greiðsluaðlögun og úrbótum að halda vegna greiðsluvanda sé ekki ábyrgðaraðili annars aðila á t.a.m. margra miljóna kr. námsláni og eigi á hættu að það gjaldfalli á hann.
ÖBÍ fagnar fyrirhuguðum ákvæðum um gjaldfrest eða lægri afborganir veðlána á tímabili greiðsluaðlögunar.
Fatlað fólk er fjölbreyttur hópur einstaklinga. Sumir þurfa að glíma við ákveðna fötlun frá fæðingu en aðrir fatlast síðar á lífsleiðinni t.d. í kjölfar slyss eða veikinda. Mikilvægt er að tryggja einstaklingum sem þurfa að minnka starfshlutfall eða hætta á vinnumarkaði sökum fötlunar, fjárhagslegt svigrúm og öruggt húsnæði. Slíkum áföllum fylgja miklar breytingar í lífi fólks og brýnt að opinberir og einkaaðilar dragi úr íþyngjandi fjárkröfum og leiti sátta í samræmi við breytta greiðslugetu fatlaðs fólks.
Aðgengi að öruggu húsnæði og búsetu er forsenda þess að hægt sé að skapa velsældarsamfélag á Íslandi. Stjórnsýsla ríkisins hefur mikil völd og getur m.a. knúið fram íþyngjandi stjórnvaldsaðgerðir á borð við útburð einstaklinga út úr íbúðarhúsnæði. Nýlegt mál fatlaðs manns sem missti húsnæðið sitt í Reykjanesbæ eftir nauðungaruppboð sýslumannsembættisins á Suðurnesjum er dæmi um óréttlæti innan stjórnsýslunnar. Í kjölfarið tjáði Umboðsmaður skuldara í viðtali að hægt hefði verið að koma veg fyrir þessa niðurstöðu ef stofnunin hefði vitað að málinu
ÖBÍ tekur undir umsögn Hagsmunasamtaka heimilanna og bendir jafnframt á að afar brýnt er að sértaklega verði hugað að og komið á fót réttindagæslu fyrir fatlað fólk í greiðsluvanda. Fötlun einstaklinga getur falið í sér að viðkomandi geri sér ekki grein fyrir umfangi skuldbindinga sinna og standa því ekki í skilum. Þá eru mörg sem hafa ekki heilsu til þess að hefja samningaviðræður við kröfuhafa og geta ekki brugðist við innheimtuaðgerðum. Það er því nauðsynlegt að tryggja sérstaklega að þessi viðkvæmi hópur hafi réttindagæslumann sem væri þeirra málsvari og sæi til þess að greiðsluaðlögunarsamningar fái sanngjarna meðferð og sé fylgt eftir.
ÖBÍ réttindasamtök lýsa sig reiðubúin til að koma að nánara samráði varðandi fyrirhugað frumvarp ef óskað er.
Ekkert um okkur án okkar!
Með vinsemd og virðingu,
Þuríður Harpa Sigurðardóttir
formaður ÖBÍ
Kjartan Þór Ingason
verkefnastjóri ÖBÍ
Sunna Elvira Þorkelsdóttir
lögfræðingur ÖBÍ
Breytingar á lögum um greiðsluaðlögun einstaklinga
Mál nr. S-113/2023. Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið.
Umsögn ÖBÍ, 19. júlí 2023