Skip to main content
NPAUmsögn

Breytingar á lögum um fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir

By 21. júlí 2023ágúst 9th, 2023No Comments
EInstaklingur með staf á leiðarlínum

„ÖBÍ telur brýnt að samræmt mat nái utan um fjölbreytilegar þarfir fatlaðs fólks og leggur áherslu á að SIS-mat verði aldrei gert að algildu skilyrði til að fá þjónustu“

Umsögn ÖBÍ – réttindasamtaka um breytingar á lögum nr. 38/2018 um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir, mál nr. 118/2023

ÖBÍ – réttindasamtök fagna markmiðum stjórnvalda með breytingum á lögum nr. 38/2018. Aðgengi fatlaðs fólks að NPA – þjónustu spilar lykilhlutverki í lífi þeirra einstaklinga sem fengu úthlutaðan þjónustusamningi. Með NPA öðlast fatlað fólk aukið sjálfstæði til að skipuleggja líf sitt á eigin forsendum. Því miður er aðgengi að nýjum NPA – samningum af skornum skammti, fjármögnun samninganna er ótrygg og stjórnsýslustigin ósamstíga. Sú staða bitnar fyrst og fremst á fötluðu fólki á biðlista eftir lögbundinni þjónustu. Brýnt er að vanda vel til verka til að frumvarpið nái markmiðum sínum. ÖBÍ vill því koma á framfæri eftirfarandi athugasemdum.

1.

Sjálfbær fjármögnun NPA – þjónustu er forsenda þess að lögum 38/2018 sé framfylgt. Vanfjármögnun réttlætir ekki brot á lögum og er á ábyrgð ríksins að tryggja sveitarfélögum aðgang að fjármagni til að sinna lögbundinni þjónustu. Jafnframt ber öllum sveitarfélögum og þjónustusvæðum að taka virkan þátt í að framfylgja lögbundnum skyldum sínum. Fatlað fólk er fjölbreyttur hópur með búsetu víðsvegar um landið og á rétt á sömu lögbundnu þjónustu óháð staðsetningu. ÖBÍ telur forgangsatriði að ríki og sveitarfélög geri úrbætur á þessum stjórnsýsluvanda, samhæfi verklag og axli ábyrgð á skyldum sínu í þágu mannréttinda fatlaðs fólks um land allt.

2.

ÖBÍ styður áform um að settar verði viðmiðunarreglur fyrir sveitarfélögin um endurgreiðslu fæðiskostnaðar starfsmanna og aðstoðarmannakort. Líkt og fram kemur í áformum um lagasetningu liggur vandinn í því að greiðslum vegna fæðiskostnaðar starfsfólks er mismunandi háttað eftir sveitarfélögum og ekki er víst að fæðispeningar dugi fyrir efniskostnaði matarins, notandinn þarf því sjálfur að greiða það sem upp á vantar. Því er nauðsynlegt að ríki og sveitarfélög geri samhæfðar úrbætur á núverandi fyrirkomulagi svo fatlað fólk í öllum sveitarfélögum búi við sömu réttindi.

Jafnt aðgengi að samfélaginu er ein að grunnstoðum samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks (SRFF). Með aðstoðarmannakortum þarf fatlað fólk ekki að greiða tvöfalt gjald fyrir viðburði og afþreyingar líkt og það gerir í dag. Stefna lagabreytinganna og reglugerðarsetning um aðstoðarmannakort fyrir afþreyingar á vegum hins opinbera er skref í rétta átt en hægt væri að ganga lengra til að stuðla að auknu jafnræði fatlaðs fólks til samfélagsþáttöku. ÖBÍ leggur til að stjórnvöld hvetji einkaaðila til þátttöku í innleiðingu aðstoðarmannakorta fyrir viðburði og afþreyingar. Ein leið væri að veita þeim einkaaðilum sem taka við aðstoðarmannakortum samskonar vottun og Ferðamálastofa veitir fyrirtækjum í ferðaþjónustu sem uppfylla viðmið um aðgengi fatlaðs fólks. ÖBÍ er reiðurbúið til að vinna að framgangi verkefnisins í samvinnu við hið opinbera og aðra hagaðila.

3.

Viðmið og staðlað mat eru ákveðin verkfæri hins opinbera til greina aðstæður einstaklinga, meta þjónustuþarfir og rökstyðja stjórnvaldsákvarðanir um að hafna eða veita umsækjanda ákveðna þjónustu. Mikil ábyrgð hvílir á stjórnvöldum að útfæra þessi verkfæri með þeim hætti að þau virki fyrir þarfir fatlaðs fólks, taki tillit til fjölbreytileika fötlunar, auki jafnræði og jafnrétti og forðist íþyngjandi lágmarksviðmið á kostnað lífsgæða fatlaðs fólks. Í skýrslu starfshóps um heildarendurskoðun laga 38/2018 er lagt fram af meirihluta hópsins að NPA – samningur sé ekki gerður nema að þjónustuþörf sé metin 90 tímar eða meira á mánuði. ÖBÍ leggst gegn þessari tillögu meirihlutans um hækkun lágmarksviðmiða þjónustuþarfar úr 60 tímum í 90 tíma enda ekki fullnægjandi rök til að réttlæta slíka hækkun. Slík ákvörðun er afar íþyngjandi fyrir fatlað fólk sem nær ekki nýjum viðmiðum og dregur úr lífsgæðum og getu þess til að taka virkan þátt í samfélaginu á eigin forsendum.

ÖBÍ tekur undir með starfshópi um heildarendurskoðun laga 38/2018 að skilyrði fyrir greiðslum úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga á grundvelli almennra framlaga í málefnum fatlaðs fólks taki einungis mið af samræmdu mati á stuðningsþörf og hætt verði að greiða á grundvelli kostnaðar. ÖBÍ telur brýnt að samræmt mat nái utan um fjölbreytilegar þarfir fatlaðs fólks og leggur áherslu á að SIS-mat verði aldrei gert að algildu skilyrði til að fá þjónustu og að matið verði aldrei notað sem algilt mælitæki á þjónustuþörf og ákvörðunarforsendu við úthlutun á þjónustu við fatlað fólk.

4.

ÖBÍ telur brýnt að aflað verði gagna til að meta þátttöku fatlaðs fólks í samfélaginu nú og svo aftur eftir breytingarnar og hvetur til þess að það verði gert. Ekki verði eingöngu horft á breytingu vegna aðstoðarmannakorta heldur líka gagnvart mennta- og atvinnumálum fatlaðs fólks. Um leið benda réttindasamtökin á að fatlað fólk er fjölbreyttur hópur með margvíslegar fatlanir og gagnlegt væri að afla upplýsinga um stöðu þess fjölbreytta hóps og tækifæri til menntunar og á vinnumarkaði.

ÖBÍ áskilur sér rétt til að koma á framfæri frekari athugasemdum á seinni stigum.

Ekkert um okkur án okkar!

Með vinsemd og virðingu,

Þuríður Harpa Sigurðardóttir
formaður ÖBÍ

Kjartan Þór Ingason
verkefnastjóri ÖBÍ


Breytingar á lögum um fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir
Mál nr. S-118/2023. Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið.
Umsögn ÖBÍ, 21. júlí 2023