Skip to main content
AlmannatryggingarHúsnæðismálKjaramálUmsögn

Breyting á ýmsum lögum vegna fjár­laga 2025

By 1. október 2024október 8th, 2024No Comments

Umsögn ÖBÍ réttindasamtaka (ÖBÍ) um frumvarp um breytingar á ýmsum lögum vegna fjár­laga 2025

1 Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins

Um 13. gr. – Frítekjumörk lífeyris

ÖBÍ leggur til að viðmiðunarfjárhæðir frítekjumarka vegna örorku- og endurhæfingalífeyris verði uppfærð frá árinu 2009.

Í 13. gr. frumvarpsins er gert ráð fyrir að almennt frítekjumark ellilífeyris verði hækkað um 45,6% eða úr 300.000 kr. í 438.000 kr. á ári þar sem sanngjarnt þykir að frítekjumarkið fylgi þróun hækkunar almannatrygginga frá þeim tíma sem frítekjumarkið var innleitt árið 2017. Tekið er undir mikilvægi þess að þetta frítekjumark, eins og önnur frítekjumörk, séu hækkuð og fylgi þróun verðlags.

Á sama hátt væri sanngjarnt að frítekjumörk við útreikning örorku- og endurhæfingarlífeyris, sem hafa verið óbreytt frá árinu 2009, fengju sambærilega hækkun. Er hér annars vegar vísað til frítekjumarks vegna lífeyrissjóðstekna sem er 328.800 kr. en væri með samskonar uppfærslu kr. 713.516. Hins vegar til frítekjumarks vegna fjármagnstekna sem er 98.640 kr. á ári en væri með samskonar uppfærslu kr. 214.464.

Um 14. gr., 15. gr. og 17. gr. –  Víxlverkun örorkugreiðslna almannatrygginga og lífeyrissjóða

ÖBÍ leggur megin áherslu á að komið verði í veg fyrir tjón örorkulífeyristaka og að víxlverkun komi ekki í veg fyrir þær kjarabætur sem ætlað er að felast í hinum nýsamþykktu lögum um breytingar á örorkulífeyriskerfinu.

ÖBÍ leggur mikla áherslu á að vinna verði hafin hið allra fyrsta við að finna framtíðarlausn á málinu svo ekki ríki óvissa um stöðu örorkulífeyristaka

Breytingar sem lagðar eru til í 14., 15., og 17. gr. frumvarpsins varða framlengingu á bráðabirgðaákvæðum sem  koma í veg fyrir víxlverkun örorkugreiðslna almannatrygginga og lífeyrissjóða. Framlengingin er með sama hætti og fyrri ár nema að því leiti að hún nær ekki til alls ársins heldur aðeins til 31. ágúst 2025, þ.e. fram til þess að breytt örorkulífeyriskerfi tekur gildi 1. september 2025. Hins vegar er hvergi tekið fram í frumvarpinu um hvernig standi til að koma í veg fyrir slíka víxlverkun eftir að breytingar á örorkulífeyriskerfinu taka gildi. Þegar frumvarp um breytingar á örorkulífeyriskerfinu var til meðferðar á vorþingi 2024 lýstu stjórnvöld ítrekað yfir mikilvægi þess að fundin yrði framtíðarlausn á víxlverkuninni fyrir gildistöku laganna. Kom það m.a. fram í minnisblaði félagsmálaráðherra til velferðarnefndar Alþingis dags. 22. maí 2024 og í nefndaráliti meirihluta velferðarnefndar dags. 10. júní 2024.

ÖBÍ telur mikilvægt að stjórnvöld hefji þegar vinnu við að finna framtíðarlausn á víxlverkun milli örorkugreiðslna almannatrygginga og lífeyrissjóða. ÖBÍ telur ljóst að ef ekki verður fundin slík lausn fyrir 1. september 2025 munu fjölmargir örorkulífeyristakar verða fyrir tekjuskerðingu vegna almennra hækkana og einnig vegna hækkana sem felast í gildistöku laga um endurskoðun örorkulífeyriskerfisins.

Þrátt fyrir að bráðabirgðaákvæðin yrðu framlengd til lengri tíma en að framan greinir telur ÖBÍ ljóst að í núverandi mynd myndu ákvæðin aðeins koma í veg fyrir víxlverkun vegna almennra hækkana en ekki hækkana vegna lagabreytinganna. Til að svo megi verða þurfi að gera efnislegar breytingar á ákvæðunum.

Um 22. gr. –  Lækkun og brottfall framlags ríkissjóðs til jöfnunar örorkubyrði lífeyrissjóða

ÖBÍ leggur megin áherslu á að komið verði í veg fyrir að breytingar á jöfnunarframlaginu komi niður á kjörum örorkulífeyristaka

Sú breyting sem lögð er til með 22. gr. frumvarpsins varðar lækkun og síðar brottfall á framlagi ríkissjóðs til jöfnunar örorkubyrði lífeyrissjóða. Eins og fram kemur í almennum athugasemdum hér að neðan er um að ræða sparnað sem að hluta á að fjármagna hið breytta örorkulífeyriskerfi sem tekur gildi 1. september 2025. Samkvæmt fjárlagafrumvarpinu stendur til að lækka framlagið um 4,7 milljarða, þ.e. úr 7,2 milljörðum í 2,5 milljarða. Frá og með tímabili næstu fjárlaga falli það niður. Bent hefur verið á að framlaginu var upprunalega ætlað að hafa þann tilgang að jafna út þá örorkubyrði sem fylgir útgreiðslu örorkulífeyris þar sem örorkutíðni er mismikil milli lífeyrissjóða.

Einnig hefur verið bent á að fimm lífeyrissjóðir eru með örorkutíðni yfir meðallagi og hljóta um 66% framlagsins. Þannig renni stór hluti framlagsins til annarra lífeyrissjóða sem þjónar ekki markmiði framlagsins um jöfnun á örorkubyrði. ÖBÍ óttast að lækkun og síðar brottfall framlagsins til sjóða með hæstu örorkutíðnina muni leiða af sér umtalsverðar lækkanir á örorkulífeyrisgreiðslum lífeyrissjóða.

Samkvæmt framangreindu sé ljóst að hluti af fjármögnun hins breytta örorkulífeyriskerfis sé fengin beint frá einstaklingum sem ætlunin var að myndu njóta góðs af þeim hækkunum sem felast í hinu breytta örorkulífeyriskerfi. ÖBÍ telur að falla verði frá áformum sem fela í sér kjaraskerðingu lífeyristaka.

ÖBÍ hvetur til að í stað þess að jöfnunarframlagið verði fellt niður verði farin leið sem tryggir að framlagið skili sér í meiri mæli til sjóðanna með hæstu örorkutíðnina eða önnur leið farin sem tryggir að framlagið þjóni raunverulegum tilgangi sínum. Í öllu falli verði tryggt að breytingar á framlaginu skerði ekki kjör lífeyrisþega.

Um 25. gr. – Áhrif vaxtabóta

ÖBÍ leggur til að:

» Útgjöld vegna vaxtabóta hækki um 6% að lágmarki til að mæta fyrirhugðum verðlagsbreytingum.

» Eignamörk vaxtabóta verði hækkuð um 4% að lágmarki til að halda í við áhrif af hækkun fasteignamats fyrir árið 2025.

» Að viðmiðunarfjárhæðir vaxtabóta verði uppfærðar frá árinu 2008.

Óbreytt fjárframlög leiða til raunlækkunar vaxtabóta sem bitnar verst á tekjulægstu hópum samfélagsins. Samkvæmt verðlagsreiknivél Hagstofu Íslands myndu 2,1 milljarðar í september 2023 samsvara u.þ.b. 2,2 milljörðum í ágúst 2024 eða 5,7%.

Snarpar stýrivaxtahækkanir og hátt verðlag bitnar mest á þeim sem verst standa. Sérstaklega á þetta við um fatlað fólk á örorkulífeyri, sem hefur lítil sem engin tækifæri til að vænka hag sinn. Því þurfa stjórnvöld að hækka útgjöld vegna vaxtabóta um að lágmarki 5,7% til að styðja við húsnæðisöryggi lágtekjufólks og örorkulífeyristaka.

Á heimasíðu Skattsins kemur fram að hafi einstaklingur að mestu sömu tekjur og afborganir og árið áður, þá sé hækkun fasteignamats eigna ein algengasta skýring lækkunar vaxtabóta á milli ára. Miklar sviptingar hafa verið á íslenskum fasteignamarkaði á síðastliðnum tveimur árum. Árið 2024 hækkaði heildarmat fasteigna á Íslandi um 11,7% frá árinu áður og fasteignamat fyrir árið 2025 gerir ráð fyrir 4,3% hækkun. Sú hækkun samsvarar um 16% hækkun á tveimur árum. Hækkun fasteignamats felur hvorki í sér lægri afborganir af húsnæðislánum né auknar mánaðarlegar tekjur.

Mikilvægt er að eignamörk séu í takt við breyttar forsendur svo einstaklingar sem búa í eigin fasteign en standa höllum fæti fjárhagslega fái ekki skertar vaxtabætur sökum þenslu á húsnæðismarkaði.

Til viðbótar bendir ÖBÍ á að viðmiðunarfjárhæðir vaxtabóta miðast við eignamörk frá árinu 2008. Þannig miðast eignamörk vaxtabóta fyrir einstakling við 7.119.124 kr. árið 2008, en ætti að vera 14.694.419 kr. m.v. ágúst 2024. Sama gildir um hjón eða sambýlisfólk, en eignamörk vaxtabóta miðaðist við 11.390.599 kr. árið 2008, en ættu að vera 23.508.179 í ágúst 2024.

2 Almennar athugasemdir

Í lið 3.17 í greinargerð frumvarpsins segir m.a. að útgjöld vegna innleiðingar á breyttu örorkulífeyriskerfi muni auka útgjöld ríkisins um 18 milljarða á ári frá og með árinu 2026. Fjármagna á breytingu á örorkulífeyriskerfinu m.a. með því að fella niður framlag úr ríkissjóði til jöfnunar á örorkubyrði lífeyrissjóðanna og hækka samsvarandi hlutdeild lífeyris- og slysatrygginga almannatrygginga í tryggingagjaldi í kjölfarið. ÖBÍ réttindasamtök vilja taka fram að í aðdraganda breytinga á örorkulífeyriskerfinu var því ítrekað haldið fram að hið nýja örorkulífeyriskerfi væri fullfjármagnað. Að ÖBÍ vitandi er það fyrst með framlagningu þess frumvarps sem hér er til umsagnar sem fram koma upplýsingar um að fjármögnun hins nýja kerfis yrði á kostnað jöfnunarframlags til lífeyrissjóða vegna örorkubyrgði.

Í lið 3.1 í greinargeð frumvarpsins kemur fram að samkvæmt þjóðhagsspá Hagstofu Íslands sé gert ráð fyrir að verðbólga fyrir árið 2024 verði 5.2%. Þessi tala er mun lægri en fram kemur í fjárlagafrumvarpinu. Í því er líka stuðst við þjóðhagsspá Hagstofu Íslands en þar segir að verðbólga ársins verði 6%. Gera verður kröfu um að gætt sé samræmis og nákvæmni um grundvallar forsendur fjárlaga. Hið rétta er að í þjóðhagsspá Hagstofu Íslands[1] er gert ráð fyrir að verðbólga ársins verði 6%.

ÖBÍ minnir á áskilnað Samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks um að stjórnvöld hafi virkt samráð við heildarsamtök fatlaðs fólks þegar þau vinna að ákvarðanatöku um málefni fatlaðs fólks. ÖBÍ er reiðubúið til samráðs, ráðgjafar og samvinnu á öllum stigum málsins.

Ekkert um okkur án okkar!  

Alma Ýr Ingólfsdóttir
Formaður ÖBÍ réttindasamtaka

Gunnar Alexander Ólafsson
Hagfræðingur ÖBÍ réttindasamtökum

Kjartan Þór Ingason
Verkefnastjóri ÖBÍ réttindasamtökum

Sigríður Hanna Ingólfsdóttir
Félagsráðgjafi ÖBÍ réttindasamtökum

Sigurður Árnason
Lögfræðingur ÖBÍ réttindasamtökum


Breyting á ýmsum lögum vegna fjár­laga 2025
2. mál, lagafrumvarp.
Umsögn ÖBÍ, 1. október 2025