Skip to main content
NPAUmsögn

Breyting á sveitarstjórnarlögum

By 13. febrúar 2025No Comments
Seyðisfjörður

„Brýnt að togstreita milli ríkis og sveitarfélaga um fjármögnun í málaflokki fatlaðs fólks megi ekki bitna á notendum“

ÖBÍ réttindasamtök (ÖBÍ) fagna áformum um breytingar á sveitarstjórnarlögum og telja mikilvægt að ríki og sveitarfélög gangi í takt til að tryggja lögbundna þjónustu við íbúa.

Þjónusta sem ríkið veitti fötluðu fólki samkvæmt lögum nr. 59/1992, um málefni fatlaðra, færðist til sveitarfélaga þann 1. janúar 2011. Sveitarfélög og þjónustusvæði á vegum þeirra tóku þá við ábyrgð á framkvæmd og fjármögnun þjónustunnar, óháð því hvort hún hafi verið veitt af ríki, sveitarfélögum, sjálfseignarstofnunum eða öðrum aðilum, með þeim réttindum og skyldum sem henni tengjast.

Árið 2015 skrifuðu ríki og sveitarfélög undir lokasamkomulag um fjárhagsramma þjónustu sveitarfélaga við fatlað fólk. Í vinnu verkefnisstjórnar kom í ljós að of mikið bar á milli aðila til þess að unnt væri að ná samkomulagi innan verkefnisstjórnarinnar um sameiginlega tillögu að breytingu á útsvarsprósentu sveitarfélaga. Þrátt fyrir að aðilar hafi ekki náð saman um niðurstöðu matsins var það ásetningur ríkis og sveitarfélaga að ná heildstæðu samkomulagi um fjárhagsramma þjónustu sveitarfélaga við fatlað fólk.

Í því ljósi ber sérstaklega að nefna togstreitu ríkis og sveitarfélaga um fjármögnun notendastýrðrar persónulegrar aðstoðar (NPA) og áhrifin sem það hefur á búsetufrelsi og lífsgæði fatlaðs fólks. ÖBÍ telur brýnt að togstreita milli ríkis og sveitarfélaga um fjármögnun í málaflokki fatlaðs fólks megi ekki bitna á notendum sem treysta á framfylgd lögbundinnar þjónustu.

ÖBÍ áskilur sér rétt til að koma á framfæri frekari athugasemdum á seinni stigum.

Ekkert um okkur án okkar!

Með vinsemd og virðingu,

Alma Ýr Ingólfsdóttir
formaður ÖBÍ

Kjartan Þór Ingason
verkefnastjóri ÖBÍ


Breyting á sveitarstjórnarlögum – mat á fjárhagslegum áhrifum á sveitarfélög
Mál nr. S-23/2025. Innviðaráðuneytið.
Umsögn ÖBÍ, 13. febrúar 2025